Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 11:02:45 (2099)

1998-12-11 11:02:45# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[11:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því að helmingurinn af andsvari hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fór í að ræða um Kópavog. Ég ætla ekki að blanda Kópavogi eða öðrum sveitarfélögum inn í þetta mál frekar. Ég vil bara ítreka þá skoðun mína að það er alvarlegt að málefni fatlaðra skuli vera í hálfgerðu limbói á milli ríkis og sveitarfélaga um hvar þau eiga að lenda. Það kemur engum verr en þeim sem vinna að þessum viðkvæma málaflokki.

Ég vil ítreka að ég tel mikilvægt að ráðherra taki ákveðið á málinu. Að ímynda sér að þetta geti gengið eftir ár finnst mér óeðlileg niðurstaða miðað við það sem fram kom á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur treysta mörg sveitarfélög sér ekki til að taka við málefnum fatlaðra að svo búnu. Það kom fram á þessari ráðstefnu. Að sjálfsögðu er það Reykjavíkurborg sem hefur forustu um að biðja um frestunina þó svo önnur taki undir. Ég held að það þurfi lengri tíma til að ígrunda þessi mál og til þess höfum við nægan tíma, enda fötluðum í sjálfu sér vel borgið hjá ríkinu. Aftur á móti hef ég, herra forseti, ávallt talið þennan málaflokk henta betur sem rekstrarform hjá sveitarfélögunum. Nálægðin við málaflokkinn er slík að sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn geta fremur leyst úr þeim málum.