Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 11:10:45 (2103)

1998-12-11 11:10:45# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[11:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það kom mér á óvart í gær þegar sú ósk var sett fram við okkur þingflokksformenn að við tækjum mál á dagskrá í morgunsárið, áður en gengið yrði til umfjöllunar fjárlaga. En ég féllst á það.

Ég átti sjálf ekki von á því að mjög mikil umræða yrði um þessi mál en mætti þó strax í upphafi fundar, enda eru þessi mál á málasviði félmn. og koma til umfjöllunar þar.

Ég vil hins vegar segja, herra forseti, að ég hef þörf á að ræða a.m.k. nokkuð um þetta mál sem hér er á dagskrá, flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna, og ekki síst vegna þeirrar umræðu sem þegar hefur farið fram. Ég lít svo á að það sé algjörlega í höndum stjórnarflokkanna og forseta hvort þeir hyggjast halda áfram með málefni félmrh. Við féllumst í gær á að taka þau fyrir í upphafi fundar. En það er alveg ljóst eins og málin hafa farið af stað að hér verður einhver umræða. Menn verða að gera upp sig sig hvort þeir eigi að hætta á að þessi mál dragist eitthvað fram í hádegið og hefja þá umræðu um fjárlög eða hvað stjórnarflokkarnir afráða. En þetta er frekar vandræðalegt, herra forseti.