Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 12:53:20 (2107)

1998-12-11 12:53:20# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[12:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir skilmerkilega og greinargóða yfirlitsræðu fyrir hönd fjárln., meiri hlutans sérstaklega.

Mig langar að beina tveimur spurningum til hv. frsm. Í fyrsta lagi varðar það umhverfismálin og fjárveitingar til umhvrn. og stofnana þess. Þó mér sé ljóst að víða sé fjárþörf og í mörgum málaflokkum þá held ég að ástæða sé til að hafa sérstakar áhyggjur af því hvernig fjárveitingum til umhverfismála er háttað. Það þarf ekki annað en vísa til ástands aðalstofnana umhvrn., Náttúruverndar ríkisins og Hollustuverndar ríkisins, sem eiga að sjá um umhverfisvernd bæði varðandi friðlýst svæði og almenna umhverfisvernd, þar á meðal mengun. Þarna gerist í raun ekkert á milli ára sem máli skiptir. Fjárlagatillögurnar eða óskirnar eru langt umfram það sem veitt er og engar skýringar. Um þetta mætti hafa langt mál. Ég kem að því síðar.

Hitt varðar ýmis orkumál og niðurgreiðslu á rafhitun. Það er brugðist við með fjárveitingu til hitaveitna á köldum svæðum. Það er góðra gjalda vert en fjárveitingin til niðurgreiðslu á rafhitun stendur svo gott sem í stað milli ára. Það mun brugðist við verðlagshækkunum en þar er engu bætt við. Nú heyrir maður fregnir um að til standi verðlagshækkun hjá Landsvirkjun á komandi ári. Ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við þessum vanda við fjárlagagerðina.