Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:01:51 (2114)

1998-12-11 14:01:51# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Nú í hádeginu hefur staðið yfir fundur í heilbr.- og trn. Honum er ekki lokið og því finnst mér miður að við séum að hefja fund hér að loknu hádegishléi án þess að fulltrúar úr heilbr.- og trn. hafi haft tækifæri til að mæta til þingfundar. Ég hlýt að kveðja mér hljóðs hér undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess sem er að gerast í heilbr.- og trn. og af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi í dag.

Við höfum tekið hér mjög alvarlega umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði og deilt um hann. Hins vegar hefur verið látin í ljós sú von að á milli 2. og 3. umr. yrðu skoðuð þau álitamál sem svo alvarlega hefur verið bent á í umræðunni.

Nokkur samtök og stofnanir sem hafa látið til sín taka í þessari umræðu höfðu óskað eftir því að fá að koma á fund heilbr.- og trn. Herra forseti. Ég ætla að minnast á hver þau eru. Þau eru Mannvernd, Læknafélag Reykjavíkur, siðfræðiráð Læknafélags Íslands, læknadeild háskólans auk annarra sem minni hlutinn óskaði eftir að fá á fund nefndarinnar til að ræða álitamálin við. Því var algjörlega hafnað í heilbr.- og trn. að fá fulltrúa þessara samtaka á fund, herra forseti, algjörlega hafnað að samtök sem óskuðu eftir því að koma og ræða þessi mál fengju að koma til fundar við nefndina.

Það er verið að taka málið með valdi út úr heilbr.- og trn. eftir tvo stutta fundi á þessum morgni í stað þess að menn gefi sér tíma á þeim nefndardögum sem fram undan eru til að skoða þessi stóru mál og reyna eins og unnt er að ná samstöðu um alvarlegu málin sem standa út af í lagasetningunni sem hér á að fara fram.

Herra forseti. Ég gagnrýni það að þingfundur skuli hefjast á meðan fundur stendur í heilbr.- og trn. Ég gagnrýni það harðlega að það skuli gerast að haldinn er fundur í nefndinni, sem við lögðum mikla áherslu á að yrði haldinn á milli 2. og 3. umr., eingöngu til þess að láta minni hlutann vita að ekki yrði farið að nokkrum óskum, að ekki ætti að hlusta á fleiri sjónarmið og að ekki ætti að ræða við fleiri samtök. Þó gerðist það reyndar að þeir fulltrúar sem meiri hlutinn óskaði sjálfur að hlýða á voru boðaðir til fundar nú í hádeginu.

Herra forseti. Þau orð sem koma upp í huga minn núna eru hroki og misbeiting þingræðis, hroki og misbeiting þingræðis í nefndum Alþingis. Ég óska eftir því, herra forseti, að haldinn verði fundur með forseta þannig að við getum rætt þessa stöðu sem komin er upp því hún er mjög alvarleg.