Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:05:26 (2116)

1998-12-11 14:05:26# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemd við orð forseta um þetta mál. Ákveðið var að halda fund í hádeginu til þess að ljúka umræðu um frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það mál er í algjöru uppnámi og því hafði verið neitað að fá til fundar við nefndina bæði félög og félagasamtök sem höfðu óskað eftir því að koma til fundar við hana vegna breytinga sem voru fyrirhugaðar á málinu. Líka var því synjað að fá til fundar við nefndina nokkra aðila sem minni hlutinn taldi mjög mikilvægt að kæmu til að segja álit sitt á þeim brtt. sem komu frá meiri hlutanum inn í nefndaina.

Nú stendur fundur nefndarinnar enn þá yfir. Um það var talað þegar fundur var ákveðinn í matarhléi að fundurinn yrði ekki haldinn á meðan að umræða væri hér um fjárlög því við lögðum ríka áherslu á að við gætum verið við fjárlagaumræðuna. Svo er ekki. Ég tel það mjög brýnt, herra forseti, að gert verði fundarhlé og umræðan um fjárlög hefjist ekki fyrr en fundur heilbr.- og trn. er á enda.

Á fundinum kom fram undir lokin, þegar ég fór af fundinum, að tölvunefnd gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til. M.a. kom fram hjá þeim að frá persónuverndarlegum sjónarmiðum væri það of mikil ógn að leyfa samtengingu erfðafræði-, ættfræði- og heilsufarsupplýsinga á þann hátt sem meiri hlutinn leggur til. Ég tel þetta mjög alvarlegar athugasemdir sem beri að skoða. Engu að síður hefur því verið hafnað að ræða þetta nokkuð frekar. Við í minni hlutanum höfum óskað eftir því að fá álit frá tölvunefnd um þetta mál en meiri hlutinn virðist ætla að ganga algjörlega fram hjá þessum óskum öllum og ætlar sér að afgreiða málið.

Herra forseti. Ég fer fram á að gert verði fundarhlé og málið verði rætt hjá fulltrúum þingflokksformanna. Ég hef aldrei kynnst öðru eins og mér þingreyndari þingmenn, sem nú sitja á þingi, hafa bent mér á að það hafi aldrei komið fyrir áður að yfirgangur eins og hér á sér stað hafi verið viðhafður.