Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:12:19 (2121)

1998-12-11 14:12:19# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf um að hann vilji beita sér fyrir því að fundi verði lokið í heilbr.- og trn. En því miður ber það engan árangur vegna þess að mér skilst að nefndin hafi þegar lokið störfum og að málið hafi verið rifið út úr nefndinni í fullum ágreiningi og algerlega að tilefnislausu. Það þýðir auðvitað að það verður að taka á þingstörfunum í heild og skoða þau á nýjan leik. Ég fer fram á að það verði gert hið allra fyrsta, herra forseti, og helst nú þegar.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég harma vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, hvernig hún fer með fjárlagaumræðuna í dag, fyrst í morgun með því að tefja umræður í nærri klukkutíma og svo aftur núna með því að tefja umræður með þeim hætti sem við nú sjáum að gerist. Ég lýsi því yfir að það er allt saman á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar en ekki okkar. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér tafarlaust fyrir fundi um stöðu mála.

Ef það er rétt, sem mér er tjáð, að þetta gagnagrunnsmál hafi verið tekið út úr nefndinni og að neitað hafi verið að kalla til viðræðna fjölda aðila, jafnvel hafi Ríkisendurskoðun, sem þó er stofnun Alþingis, ekki verið kölluð til þó að um það hafi verið beðið, þá segi ég við forseta: Réttast væri að skipa meiri hluta þessarar nefndar að taka málið aftur inn í nefndina og gera þá afgreiðslu sem sett var niður á blað áðan ógilda, vegna þess að vinnubrögð af þessu tagi eru óþolandi og engin efnisleg nauðsyn stendur til þess að ljúka þessu máli á þann hátt sem meiri hluti ríkisstjórnarinnar gerði í heilbr.- og trn. í morgun. Ég mótmæli þessu harðlega, herra forseti, og skora á forseta að beita öllu sínu afli til að stoppa gerræði af þessu tagi.

(Forseti (ÓE): Forseti ítrekar að hann mun eiga fund með þingflokksformönnum upp úr klukkan hálfþrjú.)