Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:21:30 (2125)

1998-12-11 14:21:30# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil einungis staðfesta það sem hér hefur komið fram að málinu er lokið í heilbr.- og trn. Meiri hlutinn hefur beitt valdi gegn atkvæðum minni hlutans til þess að ljúka málinu. Meiri hlutinn hafnaði því líka að fá til samtals við nefndina aðila sem höfðu óskað eftir því að koma til þess að ræða það eins og eðlilegt var eftir að meiri hlutinn hafði lýst því hér yfir í þingræðum í gær og fyrradag að málið ætti að skoðast aftur. Einn hv. þm. stjórnarliðsins orðaði það svo: Málið er enn á vinnslustigi. En því var hafnað að verða við óskum læknadeildar Háskóla Íslands, siðfræðiráðs Læknafélags Íslands, Læknafélaginu sjálfu var hafnað, Læknafélagi Reykjavíkur og Mannvernd, þar sem fyrrverandi háskólarektor, Sigmundur Guðbjarnason, er í forsvari. Meiri hlutinn hafnaði þessu einfaldlega.

Meiri hlutinn leggur enn fremur til grundvallarbreytingar á frv. að okkar mati og við töldum eðlilegt, vegna þess að áhöld voru um hvað í því fælist, að sérfræðingar á sviði erfðavísinda kæmu til fundar við nefndina. Því var hafnað líka. Meiri hlutinn féllst að vísu á að fá tölvunefnd til viðtals við nefndina og þar að auki tvo aðra einstaklinga, annar er höfundur að áliti sem Lagastofnun veitti og var óskað eftir og borgað fyrir af Íslenskri erfðagreiningu. Síðan klykkti nefndin út fyrir tilstuðlan meiri hlutans með því að fá í heimsókn fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar, sem lýsti þeirri skoðun sinni að allt væri þetta í himnalagi.

Þetta er í svo miklu himnalagi, herra forseti, að tölvunefnd, sem kom til fundar af mikilli skyndingu við heilbr.- og trn., lýsti því yfir gagnvart okkur að hún mundi ekki treysta sér að fallast á vinnulagið sem gert er ráð fyrir samkvæmt tillögu meiri hlutans nema henni yrði fyrirskipað það með lögum. Ég spurði viðkomandi félaga í tölvunefnd hverju sætti þessi skoðun og hún svaraði eftirfarandi: Frá persónuverndarlegum sjónarmiðum stafar svo mikil ógn af þessu vinnulagi.

Tölvunefnd segir með öðrum orðum að það stafi ógn af þessu vinnulagi gagnvart persónuvernd. Eigi að síður fáum við ekki tækifæri til þess að nota lýðræðislegan rétt okkar til þess að spyrja sérfræðinga, til þess að grafast fyrir um málið, til þess að fylgja hinni gömlu hefð þessa þings að rannsaka mál áður en þau eru keyrð út í gegnum þingið til samþykktar.

Herra forseti. Engar nauðir ráku til þessarar skjótu afgreiðslu. Það liggur fyrir og reyndar hafði starfandi þingflokksformaður jafnaðarmanna, hv. þm. Ágúst Einarsson, tilkynnt mér að ætlast væri til þess að laugardagur og mánudagur mundu fara í nefndarstörf af þessu tagi. Við buðumst til þess að hafa fund í kvöld, á morgun, á sunnudag og mánudag, til að geta aflað frekari upplýsinga og til þess að við vitum a.m.k. hvað við erum að tala um. Vegna þess að hafi einhver vafi leikið á því hvað frv. þýddi áður en það fór til seinni umfjöllunar í heilbr.- og trn., er alveg ljóst að það er himinn og haf á milli skilnings minni hlutans og meiri hlutans á því hvað þær breytingar þýða í sumum tilvikum sem verið er að leggja til.