Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:24:43 (2126)

1998-12-11 14:24:43# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég sagði það við atkvæðagreiðslu í gær að gagnagrunnsfrv. væri í algjöru uppnámi. Nú sé ég ekki betur en að þingstarfið fram að jólum sé líka í algjöru uppnámi. Þau vinnubrögð sem verið er að fjalla um og okkur hefur verið greint frá eru vægast sagt afar óskynsamleg. Ég get ekki annað en vitnað til þess, hæstv. forseti, að hæstv. heilbrrh. hafði um það fögur orð í gær að sátt yrði að ríkja um þetta mál. Það væri svo mikilvægt að ná sátt um þetta mál.

Meiri hlutinn er sjálfur búinn að eyðileggja málið gjörsamlega fyrir sér. Talað hefur verið um það af hálfu meiri hlutans hvað þetta sé merkilegt mál og snerti þjóðarheill og framtíð mannkyns og ég veit ekki hvað. Hvers vegna ganga menn þá svona fram og eyðileggja málið fyrir sjálfum sér? Vil ég þó ítreka að ég er algjörlega á móti þessu máli og mun fjalla rækilega um það í 3. umr. hvers vegna.

Við hljótum að spyrja: Hvers vegna liggur svona mikið á? Hvers vegna er verið að beita svona óskynsamlegum vinnubrögðum? Það hefur svo lengi sem ég hef vitað til verið einn meginkostur þingræðisins á Íslandi og starfsemi Alþingis hve greiðan aðgang málsaðilar hafa átt að þinginu. Ég minnist ekki annars en þess að formenn meiri hlutans hafi yfirleitt alltaf orðið við óskum minni hlutans þegar beðið hefur verið um ýmsa aðila, enda vita allir að það eru skynsamleg vinnubrögð. Það er skynsamlegt að óska eftir upplýsingum þannig að málið liggi allt fyrir.

Það ljóst að búið er að afgreiða gagnagrunnsfrv. frá heilbr.- og trn. með breytingum sem óeining er um og þeir sem best til þekkja segja að gjörbreyti málinu. Þetta þýðir því aðeins eitt, hæstv. forseti: Það verður mikil og ítarleg umræða um málið og þinghaldið til jóla er í algjöru uppnámi og á því bera ríkisstjórnarflokkarnir ábyrgð.