Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:32:22 (2129)

1998-12-11 14:32:22# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), MF
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að þetta eru fáheyrð vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð af hálfu heilbr.- og trn. og þá fyrst og fremst að kröfu meiri hluta nefndarinnar í morgun. Það lá fyrir, þegar fundurinn var boðaður sem haldinn var nú í hádeginu, að fulltrúar úr stjórnarandstöðunni, þ.e. hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson, gátu ekki mætt. Þau höfðu boðist til að mæta nánast á öllum öðrum tímum og sagt að þetta væri eini tíminn sem þau gætu ekki sótt fund, það væri útilokað.

Það var ekki hlustað á það frekar en annað í málflutningi eða viðhorfum stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Á sama tíma standa jafnframt yfir fundir hér, þar sem verið er að ræða um fjárlög íslenska ríkisins fyrir næsta ár, þar sem ég veit að fulltrúar í heilbr.- og trn. vilja gjarnan vera viðstaddir og taka þátt í þeirri umræðu út frá brtt. meiri hlutans sem lúta að þeim þáttum sem þessi fagnefnd á að fjalla um.

En þessi vinnubrögð eru með ólíkindum og ég held að full ástæða væri til þess, herra forseti, að stöðva fund þannig að þingflokkarnir hafi möguleika á því að ræða saman. Þessar fréttir hafa komið fundarhöldum öllum í uppnám og þannig mun það verða fram eftir degi.