Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:39:32 (2139)

1998-12-11 16:39:32# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að verið er að vinna með þessa skýrslu. Hún er alveg nýkomin og við erum að gera okkur grein fyrir því hvernig við getum sett upp plan sem er árangursríkt og við getum náð þeim árangri sem við viljum, þ.e. að eyða þessum biðlistum á einhverju árabili.

Varðandi stöðuna í Reykjaneskjördæmi þá vill svo til að við höfum í margar vikur verið að leita að húsnæði í Reykjaneskjördæmi til þess að setja upp sambýli, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, helst í Mosfellsbæ. Ekki hefur tekist að finna hentugt húsnæði enn til leigu en ég vænti þess að það takist innan örfárra vikna og þá fer þar heimili í gang. Við erum líka að setja í gang annað úrræði fyrir börn úr Reykjavík.

Hvað varðar málefni Barnaverndastofu, sem hv. ræðumaður kom inn á líka, þá var um síðustu helgi afhent meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði fyrir erfiðustu unglingana. Á morgun verður opnað nýtt vistheimili á Hvítárbakka. Í undirbúningi er fjölgun meðferðarrýma í Varpholti hjá Skjaldarvík og hugmynd er um fjölgun vistrýma á heimilinu Árbót í Þingeyjarsýslu.