Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:43:12 (2141)

1998-12-11 16:43:12# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að því sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði um grunnskólana og samskipti ríkisins og sveitarfélaganna vegna grunnskólanna, en hún gaf til kynna að ríkisvaldið hefði ekki staðið við það sem um var samið á sínum tíma þegar grunnskólinn fluttist frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. desember sl. birtist grein eftir Viljálm Þ. Vilhjálmsson, formann Sambands ísl. sveitarfélaga, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Staðreyndin er sú að frá árinu 1997 til og með árinu 2000 er heildarkostnaður vegna þeirra grunnskólaverkefna sem sveitarfélögin yfirtóku frá ríkinu áætlaður 35.049 milljónir króna en áætlaðar útsvarstekjur á sama tímabili vegna þeirra verkefna áætlaðar 35.285 milljónir króna. Framangreindar fjárhæðir eru miðaðar við verðlag ársins í ár. Auk þess var samið um að ríkissjóður og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga endurgreiddu sveitarfélögunum 2.135 milljónir króna á árunum 1997 til 2002 vegna framkvæmda við einsetningu grunnskólans.

Í kostnaðartölum þessum er tekið tillit til alls kostnaðar sem fellur á sveitarfélögin í samræmi ákvæði grunnskólalaga, m.a. árlegrar fjölgunar kennslustunda. Á hinn bóginn er í þessum tölum ekki reiknaður kostnaður vegna viðbótarlaunahækkana umfram núgildandi kjarasamning KÍ og launanefndar sveitarfélaga, sem einstaka sveitarfélög hafa samþykkt að greiða í kjölfar hópuppsagna kennara og heldur ekki ýmis annars kostnaðar, svo sem aukins kennslumagns, sem mörg sveitarfélög greiða umfram lögboðnar skyldur sínar. Sá kostnaður er nú áætlaður um 300--400 milljónir króna á ári.``

Það er niðurstaða formanns Sambands ísl. sveitarfélaga að staðið hafi verið við samninginn og að alrangt sé að halda því fram að sveitarfélögin hafi verið hlunnfarin með þessum samningum á milli ríkisins og sveitarfélaganna.