Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:45:28 (2142)

1998-12-11 16:45:28# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það kom svolítill misskilningur fram í máli hæstv. menntmrh., sem ég þakka fyrir að bregðast við máli mínu. Ég sagði ekki að ríkisvaldið hefði ekki staðið við þennan samning. Ég sagði að með tilliti til breyttra viðhorfa og mjög aukinna krafna samfélagsins til skólanna þurfi hið fyrsta að endurskoða samningana milli ríkis og sveitarfélaga varðandi kostnað við grunnskóla. Það sem fyrst og fremst hefur kannski farið úr böndunum er það að sveitarfélögin virðast ekki hafa reiknað með verulega auknum launakröfum kennara við einsetningu, sem hefur það í för með sér að kennarar geta ekki lengur bætt laun sín með ótæpilegri yfirvinnu.

Eitt enn sem er rétt að benda á, að viðmiðunarárið þegar verið var að gera þessa samninga milli ríkis og sveitarfélaga var einmitt árið þegar kennaralaunin voru í hvað mestri lægð. Þess vegna horfa nú mörg sveitarfélög fram á það að þau hafi tekið á sig þyngri bagga en þau í raun ráða við, a.m.k. sum þeirra. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að skoða þetta eitthvað upp á nýtt því að sveitarfélögin hafa líka mikinn metnað til þess að standa vel að málum og auka gæði skólanna, og ég held að þau fari raunar langt fram úr ríkinu í þeim efnum. Það er líka svo að eftir að grunnskólinn er kominn til sveitarfélaganna eru neytendur, má segja, eða þeir sem nota þjónustu skólanna nær sveitarfélögunum sem ákvarða hvernig staðið er að verki. Og þess vegna eru kannski kröfurnar og framkvæmdin öðruvísi.