Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:47:38 (2143)

1998-12-11 16:47:38# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga segir einnig í þessari grein sem hann skrifar í tilefni af ummælum formanns Kennarasambands Íslands og segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hugmyndir formanns Kennarasambands Íslands um að sveitarfélögin eigi að sækja marga milljarða kr. til ríkisins til að hækka laun kennara enn og aftur langt umfram aðrar starfsstéttir í þjóðfélaginu eru því hreinir hugarórar.``

Mér sýnist að hv. þm. sé með svipaða hugaróra í þessu efni. Ríkisvaldið hefur flutt skólana til sveitarfélaganna með samningum sem hafa haldið og eru sveitarfélögunum í raun hagstæðari en reiknað var með. Þess vegna er ekki hægt að gera þá kröfu til ríkisvaldsins, vilji sveitarfélögin bæta hag starfsmanna sinna á þessu sviði, að ríkisvaldið hlaupi þar undir bagga. Þetta er málefni sem sveitarfélögin hafa axlað og þau verða að takast á við þetta viðfangsefni, standa við þá samninga sem þau hafa gert eins og kennarar eiga að sjálfsögðu að gera einnig.

Ég vil víkja að öðru atriði sem hv. þm. nefndi í máli sínu þar sem hún vék að liðnum sem er kallaður Menning um landið, sem er 22. liður í skiptingu yfir Listir og framlög. Mér finnst mjög ósanngjarnt að taka þennan lið sérstaklega út úr og gera hann að umtalsefni þegar rætt er um það hvernig staðið er að því að stuðla að menningarstarfsemi víðs vegar um landið. Þarna er um að ræða einstaklinga sem ganga fram fyrir skjöldu undir þessu heiti til þess m.a. að kynna myndlist í sjúkrahúsum, en þetta gefur enga vísbendingu um það hvað lagt er til í frv. í heild til þess að stuðla að menningarstarfsemi víðs vegar um landið. Þetta er aðeins einn liður, 400 þús. kr. styrkur.