Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 18:07:09 (2151)

1998-12-11 18:07:09# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[18:07]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg sjálfsagt að svara fyrir það sem ég hef sagt hér. Ég er ekki talsmaður þingflokksins í þessum málum. Þetta eru mínar eigin skoðanir sem ég er að setja hér fram. Ég sit í iðnn. fyrir þingflokk jafnaðarmanna og það blandast ekkert inn í þessar hugleiðingar mínar. Ég hef varað við því að ganga of langt, hvort heldur er til virkjunar eða verndunar. Þau atvinnutækifæri sem hafa skapast á Vesturlandi í kjölfar ákvarðana varðandi Grundartanga eru ómetanleg. Það er ómetanlegt fyrir þá atvinnuuppbyggingu eða vegna þess atvinnuleysis sem var í iðnaðargeira og hjá verkafólki á þessu svæði, ekki bara á Vesturlandi heldur líka suður í Reykjavík.

Ég minnist þess tíma þegar fólk hrökklaðist frá eignum sínum og flúði land og ég óska þess að sá tími komi aldrei aftur. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki að skoðaðir séu nákvæmlega allir þeir kostir sem við eigum. Ef við eigum betri kosti til að skapa atvinnu en að fara í stóriðju þá stendur ekki á mér að skoða það. En ég sé að stóriðja hefur a.m.k. skapað stöðugleika á þeim svæðum þar sem hún hefur risið. Ég vil ekki misvirða það sem þar hefur verið gert. Ég tel að stóriðja geti átt rétt á sér. Hún getur alveg eins átt rétt á sér á Austurlandi og annars staðar. Ég held að menn eigi bara að meta nákvæmlega hverjir möguleikarnir eru, hvernig staðan er í landinu á hverjum tíma. Það er það sem ég á við. Ég vil ekki ganga svo langt að virkja allt sem virkjanlegt er, hvorki til stóriðju né annars. Ég vil virkja eftir því hver þörfin er á hverjum tíma, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

(Forseti (ÓE): Menn athugi ákvæði þingskapa um ávörp.)