Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 18:12:29 (2154)

1998-12-11 18:12:29# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[18:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstvirtur forseti. Fjárlögin á hverjum tíma eru stefnuyfirlýsing sitjandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Þegar þau fjárlög sem við nú ræðum voru lögð fram af hálfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í byrjun október voru þau kölluð sólskinsfjárlögin vegna þeirrar góðu efnahagsstöðu sem þau áttu að sýna. Mikið var gert úr því að þetta væru hallalaus fjárlög og ekki nóg með það, þau ætti að afgreiða með miklum lánsfjárafgangi sem ætti að nýta til að borga niður erlend lán en það er auðvitað óskastaða hverrar ríkisstjórnar að hægt sé að ganga svo frá málum. En ekki þurfti að rýna lengi í sólskinsfjárlögin svo að blikur bæri ekki á loft og hefur það æ betur komið í ljós eftir því sem liðið hefur á fjárlagavinnuna að það er í sjálfu sér lítill vandi að semja hallalaus fjárlög ef að þeir sem að samningu þeirra vinna setja kíkinn fyrir blinda augað þegar augljós fjárþörf stofnana ríkisins sem lögð hefur verið fram með sterkum rökum er annars vegar og ákveðið hefur verið í innsta hring að láta sem ekkert sé þó sannað sé að stór hluti þeirra sem þurfa að hafa framfæri sitt af bótum frá hinu opinbera hafi vart til hnífs og skeiðar og allt að helmingur landsins þegna hafi ekki orðið var við góðærið margrómaða.

[18:15]

Tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári eru 9 milljörðum meiri en áætlað var við gerð fjárlaga. Því miður hefur sú tekjuaukning að stórum hluta orðið vegna gífurlegrar aukningar á einkaneyslu en því hafði verið spáð að hún ykist um 5% á árinu en hún jókst um 10%, þ.e. hún varð helmingi meiri en spáð hafði verið. Ekki varð sú aukning öll vegna aukins kaupmáttar ráðstöfunartekna heldur jókst á árinu enn skuldasöfnun heimilanna sem áætlað er að bæti við skuldir sínar sem nemur um 43 milljörðum króna á því ári sem nú er að líða. Það er talið að skuldir heimilanna sem hlutfall af eignum lífeyrissjóða verði við þetta um 43,5% samanborið við 41% árið l996 og má spyrja í því sambandi hversu lengi vont geti versnað. Á komandi ári er því spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi um 5,5%. Spáð er heldur minni vexti einkaneyslu eða um 5%. Þar með er þó ekki reiknað með að skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum muni lækka þar sem spáð er að fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist heldur meira en í ár eða um 7%. Seðlabankinn bendir á í haustskýrslu sinni að þó í þjóðhagsáætlun sé gert ráð fyrir heldur minni aukningu einkaneyslu en ráðstöfunartekna verði að telja óvíst í ljósi þróunar síðustu ára og vilja og getu heimilanna til að bæta við skuldir sínar að sparnaðarhneigð aukist með þessum hætti á næsta ári. Þó er talið að ótryggar horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum og hugsanleg áhrif þeirra hér á landi gætu dregið úr bjartsýni heimilanna.

Til viðbótar við skuldir heimilanna hafa svo sveitarfélög aukið mjög við skuldir sínar. Er það orðið mjög aðkallandi að mínu mati að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga því það er greinilegt að þeir eru ófullnægjandi miðað við þau verkefni sem sveitarfélögunum er ætlað að sinna og þær væntingar sem þegnarnir hafa til þeirra. Það skýtur aldeilis skökku við þegar sumir ráðamenn þjóðarinnar ráðast af heift á þau sveitarfélög sem til að bæta skuldastöðuna ætluðu að hækka smávegis útsvarsprósentu þó allt innan löglegra marka og ekki fara einu sinni upp í þau mörk sem þekkjast í nálægum sveitarfélögum. Mér finnst það síst vera ámælisvert þegar reynt er að auka tekjurnar fullkomlega löglega og eðlilega þegar skuldir hafa safnast upp. Og hver er meginástæða þess að skuldir hafa safnast upp? Það er jú yfirtaka sveitarfélaganna á málefnum grunnskólans, en því verkefni fylgdi að dómi flestra sem til þekktu ekki nægilegt fjármagn. Það vissu allir sem vildu það vita að inni í grunnskólapakkanum var falin tímasprengja sem mundi springa þegar skólarnir yrðu almennt einsettir. Grunnskólakennarar hafa um árabil bætt sér upp léleg laun með mikilli yfirvinnu en sá möguleiki að kenna sér til óbóta er ekki lengur fyrir hendi þegar skólar eru orðnir einsettir. Það þarf auðvitað að setjast yfir þetta mál og reikna allt þetta dæmi upp á nýtt. Þar fyrir utan standa sum sveitarfélög, ég get hér tekið Hafnarfjörð sem dæmi, sem þegar eru skuldunum vafin eins og skrattinn skömmunum frammi fyrir þvílíkum fjárfestingum varðandi uppbyggingu skóla til að ná einsetningu innan lögboðinna marka að maður getur alls ekki séð að þau geti ráðið við það dæmi. Það er engan veginn sæmandi að gera kennara og þeirra launasamninga að blóraböggli þegar fjallað er um skuldir sveitarfélaga eins og gerðist á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna nú á dögunum. Það rís enginn skóli undir nafni nema hann hafi á að skipa hæfu kennaraliði og kennarar eiga að hafa góð laun þannig að þeir séu sáttir í starfi hvað það snertir. Nóg eru nú átökin sem þeir þurfa að standa í í sínu starfi vegna hins landlæga agaleysis sem þessi þjóð á við að stríða og stöðugs áreitis og tortryggni af hálfu yfirvalda menntamála.

Skuldasöfnun eins og sú sem hér á landi hefur viðgengist á undanförnum árum getur leitt af sér aukinn viðskiptahalla sem aftur hefur áhrif á gengið og getur sett verðbólguna aftur af stað. Því miður virðist ríkisstjórnin líta algjörlega fram hjá þessum ofþenslueinkennum í hagkerfinu. Ekki hafa verið lögð fram enn þau þingmál sem fjármálaráðherra hefur boðað og eiga að hvetja almenning til aukins sparnaðar og er nú suma farið að lengja eftir þeim. En þegar 1. umr. fór fram um fjáraukalög boðaði hæstv. fjármálaráðherra að þau yrðu lögð fram á næstunni.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið l999 er lagt fram með 1,9 milljarða króna tekjuafgangi á rekstrargrunni en þegar leiðrétt hefur verið fyrir áætluðum lífeyrisskuldbindingum nemur afgangurinn 7,4 milljörðum króna sem er heldur minni afgangur en búist er við í ár. Lánsfjárafgangur á að verða um 15 milljarðar króna á árinu l999 eða svipaður og árið l998. Hins vegar er áætlað að lánsfjárafgangur án eignasölu verði 8 milljarðar eða svipaður og í ár.

Það er ekki minnst á það í fjárlagafrumvarpinu að erlendar skuldir munu aukast á næstu árum en áætlað er að þær fari úr 45% af landsframleiðslu upp í 49% árið 2000, þ.e. þær munu hækka um 20 milljarða á næstu árum. Íslendingar greiða nú þegar 20 milljarða á ári í vexti til útlanda. Það væri gott að geta nýtt þá peninga til góðra verka hér heima í staðinn. Verkefnin sem ekki er hægt að sinna þó brýn séu eru því miður ærin.

Skuldir hins opinbera voru við árslok l997 200 milljarðar króna sem er Íslandsmet.

Viðskiptahallinn er þó alvarlegasta vandamálið sem við er að glíma en hann stefnir nú í 40 milljarða eða 7% af landsframleiðslu en það er mesti viðskiptahalli frá árinu l982 og áætlað er að hann verði 25 milljarðar á næsta ári. Auknar tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 9 milljarðar umfram áætlun á þessu ári og þar af eru 6 milljarðar vegna viðskiptahallans. Góðærið er þannig borið uppi af viðskiptahallanum sem aftur er fjármagnaður með erlendum lánum.

Þrátt fyrir allt þetta er staða krónunnar sterk um þessar mundir. Þar er þó ekki fyrir að þakka fjármálasnilld hæstv. ríkisstjórnar heldur óvenjulega hagstæðum ytri skilyrðum svo sem mjög háu verði á fiskafurðum, en það hefur hækkað um meira en 20% á síðastliðnum þrem árum, og lægsta olíuverði í tólf ár sem auðvitað hefur áhrif á hagkerfið.

Því miður liggja ekki frammi neinar áætlanir ríkisstjórnarinnar um að bæta skattkerfið. Þar ríkir gríðarlegt ranglæti og má þar sérstaklega benda á háa jaðarskatta hjá millitekjufólki, öldruðum og öryrkjum sem mjög brýnt er að taka á. Heilbrigðisráðherra hafði að vísu lofað endurbótum í haust hvað varðar öryrkja í sambúð en það hlýtur að verða mjög seint í haust því enn bólar ekkert á því frumvarpi. Sérstaklega stingur í augu að höfundar frumvarpsins hrósa sér af því að greiðslur á bótum til barnafólks hafi lækkað milli ára því þeir hafa ekki breytt tekjuviðmiðunum þótt launastig í landinu hafi hækkað. Það er til skammar hvað stuðningur við barnafólk hér á Ísland er bágborinn og kemur ekki á óvart að meðal þeirra sem þurfa að knýja á dyr hjálparstofnana og félagsmálastofnana til að endar nái saman er tekjulágt barnafólk áberandi. Þetta er eitthvað sem okkur ber skylda til að hafa til jafns við löndin í kring um okkur sem við gjarnan miðum okkur við.

Þá ber að harma það að ekki bólar á neinum aðgerðum gegn skattsvikum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar en talið er að 10 til 15 milljarðar tapist úr skattkerfinu árlega vegna slíks athæfis. Auk þess má nefna að engar tillögur eru gerðar um innheimtu mengunarskatta eða auðlindagjalds en á slík gjöld er lögð áhersla í tillögum í stefnuskrá samfylkingarinnar.

Ef bornar eru saman tekjur frumvarpanna 1998 og 1999 þá hækka þær um 10% að meðaltali. Tekjuskattur einstaklinga hækkar um 12%. Tekjuskattur fyrirtækja hækkar ekkert. Tryggingagjöld og launaskattar sem fyrirtæki greiða hækka um 8%, þ.e. eru undir meðaltali. Virðisaukaskattar sem einstaklingar greiða að mestu hækka um 15%. Eignarskatturinn hækkar hins vegar aðeins um 4% sem er langt undir meðaltali. Það er þannig ljóst hverra hagsmuna ríkisstjórnin er að gæta, þ.e. hagsmuna eignafólks og fyrirtækja og kemur það svo sem ekki á óvart og heldur ekki að það skuli vera almennt launafólk sem krafið er um aukna hlutdeild í kostnaðinum af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. En það er þó óvenjulega gagnsætt þetta markmið þeirra í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir þar sem gert er ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga hækki á næsta ári um 4 milljarða en tekjuskattur fyrirtækja nær ekkert. Og þetta er á uppgangstímum, hæstv. forseti. Fyrir nokkrum árum var tekjuskattur af fyrirtækjum lækkaður til að auka hagvöxt á erfiðleikatímum en nú þegar allt er í miklum uppgangi --- allt á hjörum, eins og stendur í frægri bók. ,,Á uppgangstímum er allt á hjörum`` --- þá er tekjuskattur þeirra lækkaður enn meir í stað þess að núna gætu þau þó lagt eitthvað til samfélagsins. Það var bent á það hér við 1. umr. málsins að á þremur síðustu árum hefðu fyrirtækin greitt samtals 16 milljarða í tekjuskatt á meðan einstaklingarnir greiddu 80 milljarða. Það sést á þessu að ríkisstjórnin hefur fundið þau hin breiðu bökin.

Það er lögð sérstök áhersla á kjör lífeyrisþega í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar enda er það til sérstaks vansa fyrir stjórnvöld nú í góðærinu að þeir sem eingöngu hafa framfærslu af grunnlífeyri og tekjutryggingu með uppbótum og eru algjörlega háðir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um slíkar greiðslur, eiga vart til hnífs og skeiðar. Þegar breyting var gerð á lögum sem fól það í sér að greiðslur til bótaþega voru ekki lengur tengdar launamarkaði var látið í veðri vaka þegar sem hæst lét í mótmælakórnum á Alþingi að sú breyting væri gerð til að hægt væri að bæta kjör þessa hóps meira en viðmiðunarhópa á vinnumarkaði. Raunin er sú að ef tekin eru laun þeirra sem lifa á bótum og þeirra sem hafa lágmarkslaun munar þar á umtalsverðum upphæðum og ef miðað er við meðaltalslaunahækkanir, sem er umtalsvert lægri tala en lágmarkslaun, munar samt sem svarar því að bæta þyrfti 330 milljónum króna inn í fjárlagafrumvarpið ef borga ætti þessum hópum meðaltalslaun árið l999. Fyrir hönd þessa hóps sem við öll ættum að bera sérstaklega fyrir brjósti en ekki senda til hjálparstofnana í lok hvers mánaðar af því að endar ná ekki saman eins og raunin hefur verið, fer ég fram á að þessari fjárhæð verði bætt inn í fjárlagafrumvarpið fyrir 3. umr. Það hlýtur að vera hægt að afla tekna sem því munar nú í góðærinu.

Það er líka áhyggjuefni hvernig málefnum fatlaðra er sinnt í fjárlagafrumvarpinu. Það hafði verið samþykkt að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna og vilja sveitarfélögin flest gjarnan takast á við þessi mál en nú bregður svo við að þau sveitarfélög sem verst eru sett varðandi þennan málaflokk biðjast einróma vægðar. Og það er ekki rétt sem kom hér fram í morgun að aðeins Reykjavíkurborg hafi beðist undan því að taka yfir málefni fatlaðra. Fjárln. ferðaðist um Suðurnes og það kom fram í hverju einasta sveitarfélagi að menn höfðu stórar áhyggjur af þessu og treystu sér ekki til að taka yfir þennan málaflokk. Í Reykjanesi er stofnkostnaður vegna nýrra úrræða vegna fatlaðra sem eru mjög brýn áætlaður 1,1 milljarður króna en þar eru nú 133 á biðlistum eftir úrræðum.

Í þessu vandræðaástandi leggur ríkisstjórnin til að tekjur erfðafjársjóðs sem er lögboðið að gangi til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, verði skertar um 245 milljónir króna og að í sjóðinn gangi aðeins 235 milljónir króna. Þessu mótmælum við í minni hluta fjárlaganefndar harðlega og leggjum til að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái lögboðnar tekjur sínar óskertar. Ekki mun af veita.

Við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári var mest tekist á um heilbrigðismál enda fannst þá varla lengur nokkur heilbrigðisstofnun í landinu sem ekki dró á eftir sér mikinn rekstrarhalla þó að forráðamenn þessara stofnana og starfsfólk hefðu lagst á eitt við að reyna að draga úr tilkostnaði. Fyrir mikla málafylgju meðal annars fulltrúa stjórnarandstöðu hefur nú tekist að lagfæra stöðu flestra þessara stofnana og er það vel. En því miður er það þó svo að stærstu sjúkrahús landsins, hátæknisjúkrahúsin í Reykjavík, sitja enn með óleyst vandamál en þrátt fyrir framlög á fjáraukalögum fara þau núna yfir áramótin með uppsafnaðan halla sem nemur einum milljarði króna og er sú staða algjörlega óviðunandi. Ef engar frekari ráðstafanir verða gerðar en koma fram í fjárlagafrumvarpinu þá stefnir í að uppsafnaður halli verði í árslok l999 miðað við óbreyttan rekstur 1,6 milljarðar. Það er algjörlega óviðunandi staða og mun minni hlutinn flytja breytingatillögur við 3. umr. ef ekki verður á einhvern hátt brugðist við þessum vanda.

[18:30]

Þar fyrir utan eru því miður enn gríðarlegir biðlistar fyrir hendi á báðum þessum sjúkrahúsum. Þeir eru meðal annars orðnir til vegna fjársveltis þessara stofnana, þjóðfélagslegt vandamál sem verður að taka höndum saman um að leysa. Að frátöldum þeim þjáningum sem þeir líða sem bíða mánuðum saman á biðlistum eftir nauðsynlegum skurðaðgerðum eða lækningum verður þjóðfélagið fyrir gríðarlegu vinnutapi þeirra sem í hlut eiga.

Viðhaldsþörf stofnana í heilbrigðiskerfinu hefur verið slælega sinnt svo ekki sé minnst á viðhald og endurnýjun tækja sem hefur verið látin sitja á hakanum. Nú er fjárþörfin til þessara mála orðin slík að fyrir liggur að gera þurfi, í samráði við forsvarsmenn þessara stofnana, langtímaáætlun um hvernig hægt verði að koma þessum málum í viðunandi horf svo stofnanirnar geti sinnt því sem ætlast er til af þeim.

Að lokum verður ekki undan því vikist að grípa til aðgerða m.a. í menntunarmálum lækna og ráða bót á því alvarlega ástandi sem skapast hefur víða um land vegna skorts á heimilislæknum. Sá grunur læðist að manni að ef til vill hafi sú harða kvótastefna og samkeppnispróf sem tíðkast hafa í læknadeild á undanförnum árum leitt til þess að sá læknahópur sem útskrifast, þótt góður sé, sé nokkuð einsleitur og virðist fyrst og fremst sækjast eftir sérfræðingastöðum inni á sjúkrahúsum. Ef til vill þarf að leita eftir stúdentum sem alist hafa upp í dreifbýli og gefa þeim sérstakan forgang að námi með því skilyrði að þeir starfi úti í héraði að námi loknu, að minnsta kosti um ákveðinn tíma. Margt fleira má gera en það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax því samkvæmt spám á þessi vandi eftir að aukast. Íslendingar eru ekki einir um þennan vanda og geta lært margt af þeim aðgerðum sem aðrar þjóðir hafa gripið til.

Næst ætla ég að fjalla um menntamálakaflann. Þó fagurlega sé talað um mikilvægi þess að mennta þjóðina sem best inn í 21. öldina á öllum meiri háttar samkomum stjórnmálaflokka á Íslandi, ekki síst þeirra sem nú sitja við völd, hefur gengið mjög erfiðlega að fá fjárveitingar til menntamála svo jafnist á við það sem þekkist í nálægum löndum. Nú hafa þau undur og stórmerki að vísu gerst að framsóknarmenn læddu því inn í stefnuskrá sína á nýafstöðnum landsfundi að það markmið verði sett að bæta fjárveitingar til menntamála um 1% af vergri þjóðarframleiðslu á ári. Guð láti gott á vita.

Í nál. sínu til fjárln. ítrekar minni hluti menntmn. þá skoðun sína að stóraukna fjármuni þurfi inn í menntakerfið því samkeppnishæfni þjóðarinnar muni á næstu árum ekki síst ráðast af gæðum skólastafs og menntunar. Minni hluti menntamálanefndar tekur fram að arðsemi þess fjár sem varið sé til menntamála sé mikil og undir það tekur minni hluti fjárlaganefndar.

Það er misskilningur að hægt sé að bæta gæði skólastarfs án þess að kosta fjármunum til. Þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólanum höfðu þau ekki gert sér grein fyrir þeirri sprengingu sem yrði varðandi launakröfur kennara þegar skólar yrðu einsetnir og kennarar hættu að geta bætt kjör sín með endalausri yfirvinnu. Nú er staðan sú að fjölmörg sveitarfélag hafa þurft að gera viðbótarkjarasamninga til að halda í kennara sem sagt höfðu upp störfum. Slíkt er mikill baggi fyrir sveitarfélög sem stóðu mörg hver illa fyrir fjárhagslega. Minni hluti fjárln. er þeirrar skoðunar að taka þurfi upp samninga milli ríkisins og sveitarfélaganna varðandi kostnað við grunnskóla. Það þarf að gerast sem fyrst með tilliti til breyttra viðhorfa og mjög aukinna krafna samfélagsins til skólanna.

Minni hluti menntmn. ítrekar einnig mikilvægi öflugs menningarlífs og almennrar þátttöku í listum um landið allt og áréttar hve slíkt er mikilvægt í uppeldi, lífshamingju og sköpunargleði þjóðarinnar. Það stuðlar auk þess að jákvæðri byggðaþróun og styrkir forsendur sjálfstæðis þjóðarinnar.

Hin slæma greiðslustaða framhaldsskólanna gagnvart ríkissjóði, en hún var neikvæð um hálfan milljarð fyrstu 11 mánuði ársins, er einnig áhyggjuefni. Að vísu var það bætt upp að nokkru leyti í fjáraukalögum og fjárlögum en vísir menn telja að enn vanti töluvert upp á. Einhver misskilningur virðist hafa verið í gangi þegar þessir samningar voru gerðir þannig að fjmrn. hefur aldrei viðurkennt að fullu þann kostnað sem af samningunum hefur leitt. Við í minni hluta menntmn. ítrekum að ganga þurfi betur frá hnútum þegar samningar eru gerðir þannig að slíkur misskilningur rísi ekki að menn viti ekki hvað samningarnir þýða í krónum og aurum.

Minni hluti fjárln. hefur jafnframt áhyggjur af óánægju forsvarsmanna minnstu landsbyggðarskólanna með reiknilíkan það sem lagt er til grundvallar við útreikninga á fjárframlögum til framhaldsskóla. Við teljum brýnt að byggðarsjónarmiða verði betur gætt við uppbyggingu líkansins þannig að minnstu landsbyggðarskólarnir fái vel við unað.

Þetta er ein mikilvægasta aðferðin til að halda uppi búsetu í hinum dreifðu byggðum, að vel sé séð fyrir framhaldsmenntun á svæðunum. Til þess þarf að taka tillit til hinna smáu nemendahópa sem þar eru að störfum.

Kennaraháskóli Íslands hefur sent fjárlaganefnd mjög vel rökstutt fjárlagaerindi vegna fjárlagaársins l999. Vegna breyttra aðstæðna í Kennaraháskólanum þar sem þrír skólar voru sameinaðir þarf skólinn auknar fjárveitingar á næsta ári, m.a. vegna þess að vinnuskylda framhaldsskólakennara sem unnu í þessum þremur skólum, sem hingað til hafa verið á framhaldsskólastigi, lækkar mjög og kostnaður eykst þess vegna. Hann eykst einnig vegna dómnefndarvinnu, námskrárgerðar, kennsluskrárgerðar, skipulagsvinnu og biðlauna fyrrverandi skólastjóra. Þar er ljóst að kostnaður hefur verið vanmetinn vegna kjarasamninga, rannsóknarorlofs og vinnumatssjóðs vegna rannsókna en við sameiningu skólanna öðluðust 30 kennarar til viðbótar rétt til greiðslu. Fjárln. hefur aðeins getað mætt þessari þörf að litlu leyti.

Háskóli Íslands og stúdentaráð hafa lagt fram beiðni um aukið fé til að lengja opnunartíma Þjóðarbókhlöðunnar. Vegna skipulagsbreytinga innan skólans hefur enn þrengst um þá aðstöðu sem stúdentar höfðu til lestrar. Þær 2 millj. á ári, sem áætlaðar eru á þessu ári og því næsta til lengingar á opnunartíma safnsins, hafa verið nýttar til að lengja opnunartímann yfir prófatímann og viku betur. Það fyrirkomulag er hins vegar ófullnægjandi að dómi þeirra sem gerst til þekkja. Safnið á að þjóna öllum almenningi auk námsmanna en opnunartíminn er þannig að afar erfitt er að nýta sér þjónustuna utan almenns vinnutíma. Það gerir áhugafólki sem vill sinna fræðistörfum erfitt um vik að nýta sér þær heimildir sem þar finnast. Samkvæmt áætlun safnsins kostar það 14 milljónir til viðbótar að verða við óskum stúdenta um lengri opnunartíma. Fjárln. hefur ákveðið að leggja til að veitt verði sú upphæð til að þessi mál fái farsæla lausn hvað lestraraðstöðu fyrir stúdenta varðar. Þessi fjárhæð felur því miður ekki í sér aukna þjónustu við þá sem sinna fræðistörfum sem áhugamáli þar sem þjóðdeildin verður ekki opin á kvöldin og um helgar. Minni hluti fjárln. telur mikilvægt að leysa vanda Þjóðarbókhlöðunnar og stúdenta við Háskóla Íslands sem allra fyrst, jafnframt því að tryggt verði að safnið geti þjónað bæði stúdentum og þeim sem vilja sinna þjóðlegum fræðum í frítíma sínum.

Málefni Tækniskóla Íslands hafa í haust verið kynnt mjög vel fyrir fjárln. Alþingis. Mjög vel rökstudd erindi skólans, munnleg og skrifleg, hafa verið lögð fyrir fjárln. Því miður sér þess ekki nægjanlega stað í fjárlagafrv. að þessi erindi hafi fengið þá afgreiðslu sem ríkinu væri sæmandi. Nú er mál að linni köldu afskiptaleysi ríkisins gagnvart þeirri stofnun sem sinnir því mikilvæga hlutverki að veita Íslendingum tæknimenntun, á háskólastigi að mestu. Þá er raun að sjá að skólinn hefur ekki verið í takt við tímann í tækjakaupum. Þau tæki sem nemendur fá til að þjálfa sig á eru oft úrelt miðað við þann búnað sem vinna þarf með úti í atvinnulífinu. Á síðastliðnu ári var tölvukostur skólans þó bættur en mikið átak þarf að gera hvað önnur tækjakaup varðar.

Burt séð frá því sem skólinn sækir um vegna rekstrarkostnaðar, sem fjárln. kemur að nokkru leyti til móts við og leggur til að hann fái 10 millj. kr. í viðbót til rekstrarkostnaðar, þá sækir hann um tugi milljóna króna vegna tækjakaupa og búnaðar til viðbótar því sem hann fær samkvæmt fjárlagafrv. Meiri hluti fjárln. leggur til að hann fái lítinn hluta af þeirri upphæð. Í samráði við forsvarsmenn skólans þyrfti að gera áætlun um hvernig ríkissjóður gæti komið til móts við hina bráðu þörf skólans. Ef öflugs átaks er einhvers staðar er þörf í skólamálum okkar þá er það ekki hvað síst á sviði tækni og verkmenntunar.

Inn á borð fjárln. hafa ítrekað borist óskir Bandalags sjálfstæðra atvinnuleikhúsa og annarra hópa um að starfssamningar atvinnuleikhópa fái sérstakan fjárlagalið en framlög til þeirra verði ekki til að skerða almenna liðinn, Starfsemi atvinnuleikhúsa, og tekur minni hlutinn undir þá beiðni.

Þá tekur minni hluti fjárln. undir áhyggjur minni hluta menntmn. vegna þeirrar tilhneigingar til sjóðamyndunar sem virðist gæta innan ráðuneytisins. Sjóðir þessir eru dregnir saman af nokkrum fjárlagaliðum stofnunarinnar en síðan hefur fjárlaganefnd ekkert um áframhaldið að segja. Dæmi um þetta er t.d. sjóður sem í ár er myndaður og heitir Framkvæmd skólastefnu. Hann tekur fé af ýmsum fjárlagaliðum, t.d. l9 millj. af mati á skólastarfi, 30 millj. af námskrárgerð og 7 millj. af sérstökum fræðsluverkefnum, auk nýs fjár. Í þessu sambandi má minna á að liðurinn Námsgagnastofnun hefur nú ekki verið of vel haldinn af sínum hlut sem stöðugt fer lækkandi þó yfirlýst sé að sérstakt átak hafi verið gert í útgáfu námsefnis vegna nýrrar skólanámskrár. Þá má spyrja hvar sú námsefnisgerð fari fram ef ekki í Námsgagnastofnun. Sömu gerðar er einnig liður sem gengur eins og rauður þráður í gegn um allt kerfið og er nefndur Íslenskt upplýsingasamfélag.

Þá vil ég minna á hversu mikil nauðsyn það er okkur Íslendingum að gera sérstakt átak í fullorðinsmenntun og símenntun. Ég bendi á nauðsyn þess að þær breytingar sem gerðar voru á framlögum miðað við starfsmenntun annars vegar og atvinnumál kvenna hins vegar verði færðar til fyrra horfs. Fyrir vanþekkingu og misskilning voru þessir liðir færðir yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð undir því yfirskini að þar væru tryggðir fjármunir til þeirra verkefna sem að sjálfsögðu hafa ekkert með atvinnuleysi að gera. Það er mjög brýnt að efla starfsmenntun og endurmenntun í landinu í samvinnu skóla og atvinnulífs. Óhjákvæmilegt er að auka fjárframlög til þessarar starfsemi.

[18:45]

Á þessu þingi hefur nokkrum sinnum verið rætt um fíkniefnavandann sem hefur nú knúið dyra hér hjá okkur Íslendingum og það í sínu versta birtingarformi sem er vaxandi fíkniefnaneysla hjá ungmennum, meira að setja undir lögaldri. Umræður í þinginu um þessi mál hafa verið góðar og málefnalegar. Um málið var breið samstaða þegar við höfðum hér utandagskrárumræðu á dögunum og menn hafa rætt málin frá hjartanu og einnig af mikilli þekkingu og það er góð blanda. Það hefur meðal annars komið fram að málið hefur verið á borði hæstv. ríkisstjórnarinnar og hún hefur áhyggjur af málinu. Nokkuð er gert við afgreiðslu fjárlaga til að greiða götu þess fólks sem vinnur af heilum hug gott starf að þessum málum bæði á sviði forvarna og að sjá fyrir meðferðarúrræðum sem duga í þessum efnum. En því miður vantar enn mikið á að nóg sé að gert. Það er ekki viðunandi ástand að foreldrar sem eiga 16 ára barn sem sprautar sig daglega og býr við það félagslega böl sem því fylgir þurfi að engjast í kvöl og kvíða mánuðum saman, allt upp í átta mánuði, til að koma barninu í viðeigandi meðferð. Meðferð slíkra unglinga þarf að vera viðeigandi. Hún þarf að vera enduruppeldi og endurmenntun því það góða sem þeim hefur verið innrætt í uppeldinu rýkur burt á undraskömmum tíma með vímunni og það þarf langan tíma til að byggja slíkan ungling upp svo hann sé fær til að takast á við lífið á nýjan leik. Og fjölskyldur slíkra barna þurfa einnig hjálp til að komast í gegnum lífið eftir að hafa lent í slíkum hremmingum. En þetta borgar sig fyrir þjóðfélagið því að hver einstaklingur sem spjarar sig í lífinu er okkur mikils virði en einstaklingur sem gengur um í vímu, atvinnulaus og oft vegalaus er þjóðfélaginu dýr. AA-samtökin hafa unnið stórvirki á Íslandi og hjálpað mörgum til að ná aftur tökum á tilverunni sem hafa lent í klóm vímuefna. Þetta eru samtök sem hafa sannað sig og það þarf að gæta þess að þau hafi nægilegt fjármagn til að geta sinnt sínu starfi sem sparar þjóðfélaginu gríðarlega peninga auk þess sem það hefur gefið mörgum lífshamingjuna að nýju. Í þessum málaflokki er þörf fyrir mun meiri stuðning stjórnvalda. Sá stuðningur mundi skila sér margfalt til baka.

Á síðasta þingi voru samþykkt á hinu háa Alþingi ný lög um húsnæðismál sem munu hafa víðtækar afleiðingar í þjóðfélaginu á næstu árum. Tekin var sú afdrifaríka ákvörðun að hætta að lána á lágum vöxtum til tekjulágs fólks en beina því þess í stað út á leigumarkaðinn. Ég er ekki ein um að óttast afleiðingarnar af þeirri ákvörðun og nú blasir það strax við að ríkið ætlar ekki að lána nema til 120 leiguíbúða á næsta ári en hundruð manna eru í húsnæðisvandræðum bara í höfuðborginni einni, fólk sem ekki hefur tök á að eignast sitt eigið húsnæði á sama hátt og þeir sem hærri tekjur hafa. Vandinn er mikill. Erfiðleikar og álag á fjölskyldurnar er mikið. Ég veit satt að segja ekki hvað stjórnvöld voru að hugsa þegar þau ákváðu að setja fólk í stórum stíl á götuna með þessum hætti. Og óvissan er mikil. Til dæmis hef ég heyrt frá fötluðu fólki sem spyr hvort einhverjir aðrir sjóðir taki við og láni þeim með sömu kjörum til að eignast sérhæft húsnæði eins og þeir sem nú er verið að leggja niður og lánuðu slíku fólki með 1% vöxtum. Það væri nú ánægjulegt ef hæstv. félmrh. gæti svarað spurningu þessa fólks því ég get það ekki. Ef eitthvað er að gerast í þessum málum fer það hægt og hljótt og er ekki í gerjun hér á þinginu.

Að síðustu vil ég fara nokkrum orðum um stofnanir þær sem heyra undir umhvrn. og hafa sótt til fjárln. um aukinn stuðning vegna mjög vaxandi krafna til þeirra bæði hér innan lands og í erlendu samstarfi. Það er mín skoðun að meiri hlutinn hafi ekki sýnt réttmætum kröfum þessara stofnana nægan skilning og þurfi ríkið mun betur að taka á í þessum málum ef við eigum að geta sinnt skyldum okkar t.d. vegna ákvæða EES-samningsins og fleiri bindandi alþjóðasamninga.

Eins og venjulega mun tekjuhlið fjárlagafrv. verða tekin til meðferðar við 3. umr. málsins og mun þá minni hlutinn skila sérstöku áliti um þá hlið frv. Einnig mun þá verða fjallað nánar um lánsfjárákvæði frv. og heimildargreinar þess.

Að sjálfsögðu styður minni hlutinn fjölmargar og flestar af þeim brtt. sem meiri hluti fjárln. setur fram en auk þess munu fulltrúar okkar flytja tillögur sem sýna þær áherslur sem við höfum í þessum málum auk þess sem við munum þá flytja brtt. við tekjuöflunarhlið frv. við 3. umr. ef þær verða samþykktar en samþykkt þeirra leiðir til aukinna útgjalda.

Að lokum vil ég þakka hv. fjárln., formanni og varaformanni, fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf í fjárln. á vetrinum. Vinnan hefur verið mikil eins og hér hefur komið fram, setur langar, ,,slímusetur`` mundi einn hv. þm. sem hér situr einhvern tímann hafa kallað það, en að mörgu leyti hefur nefndin skilað afskaplega vönduðu og góðu verki. Auðvitað hefur þessi meiri hluti aðrar áherslur en við í minni hlutanum hvað varðar hvernig eigi að verja þeim peningum sem til skiptanna eru en umræðan og meðferðin hefur ætíð verið málefnaleg og við höfum alltaf komið okkar sjónarmiðum til skila.