Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 10:48:34 (2157)

1998-12-12 10:48:34# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[10:48]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla í fyrsta lagi að fara nokkrum almennum orðum um fjárlagafrv. og í öðru lagi að mæla fyrir nokkrum brtt. sem ég á aðild að.

Í fyrsta lagi varðandi fjárlagafrv. sjálft má segja að í forsendum þess kemur það mjög vel fram sem við höfum verið að skiptast á orðum um síðustu daga, að það eru miklir þenslutímar og mikill viðskiptahalli og ríkissjóður er að taka inn mjög verulegar tekjur á viðskiptahallanum. Ríkissjóður tekur inn skatta á sjúkdómseinkennum hagkerfisins. Út af fyrir sig hef ég ekki á reiðum höndum tölur um hversu miklar upphæðir það eru sem beinlínis má rekja til viðskiptahallans í tekjum ríkissjóðs en þær eru verulegar. Ég hygg að ekki sé fjarri lagi að giska á að á móti hverjum 10 milljörðum í viðskiptahalla sé ríkissjóður með 3--4 milljarða í tekjur sem hann mundi ekki hafa ef ekki væri um allan þennan viðskiptahalla að ræða. Það er með öðrum orðum þannig að ekki hefur verið tekið á innbyggðum vanda hagkerfisins og ljóst er að á samdráttartíma, sem gæti auðvitað átt sér stað, yrði aftur halli á ríkissjóði, það lítur þannig út. Það er leitt til þess að vita að á þeim gífurlegu veltiárum síðustu ár skuli okkur ekki hafa auðnast að taka þannig á útgjaldamálum ríkissjóðs að þau séu komin í þá stöðu að því megi treysta að hann fari ekki að safna skuldum um leið og illa árar á ný. Mér finnst að talsmenn meiri hlutans í þessari umræðu hafi í raun ekki gert sér grein fyrir þessu eða hafi ekki gert grein fyrir þessu vandamáli vegna þess að augljóst er að það vandamál er yfirvofandi, að þegar færi að þrengja að þýddi það halla á ríkissjóði á ný, skuldasöfnun á ný.

Í þriðja lagi þýðir það að velferðarkerfið er í hættu á nýjan leik. Auðvitað hefur tekist í hagvextinum að halda utan um velferðarkerfið miklu betur en ella hefði verið, það er augljóst mál og ljóst að þar hefðu menn þurft að ganga miklu harkalegar fram í samdrætti ef ekki hefði verið um þennan mikla hagvöxt að ræða. En hitt er ljóst að um leið og sverfur að á ný eru þessar velferðarstofnanir aftur í hættu og þá er ég að tala um sjúkrahúsin og þjónustu eins og Atvinnuleysistryggingasjóð sem hefur ekki styrkt stöðu sína þrátt fyrir þann gífurlega hagvöxt sem hér hefur verið um nokkurra ára skeið og þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Um þetta tala stjórnarflokkarnir ekki og mér finnst að staðan sé þannig að þeir ætli að fela þennan vanda fram yfir kosningar. Þeir ætla að tala um þennan vanda, viðurkenna þennan vanda 9. maí nk. en ekki fyrr. Þeir ætla að reyna að breiða yfir hann þangað til komið er fram yfir kosningar og þeir búnir að mynda stjórn á nýjan leik. Þeir ætla að fela vandann. Þetta kemur fram á fleiri sviðum.

Hv. síðasti ræðumaður flutti hefðbundna framsóknarræðu um að Framsfl. hefði lofað ég held 12 þúsund störfum fyrir síðustu kosningar og það væri allt honum að þakka að atvinnuleysi væri minna en þá var. Þau störf sem hefðu bæst við væru öll Framsfl. að þakka. Það er í raun mikill barnaskapur að setja hlutina svona upp og það sjá allir nema einn og einn talsmaður Framsfl. sem trúir því að þetta sé Framsfl. að þakka. Ég held þó að menn eins og hv. formaður fjárln. og fleiri mætir menn sem hér tala stundum fyrir Framsfl. átti sig alveg á því að hér er um að ræða ytri aðstæður sem Framsfl. hafði því miður ekkert með að gera. Hann var bara svo ljónheppinn að lofa þessu á réttum tíma. Framsfl. lofaði þessu á þeim tíma þegar samdráttarskeiðinu var að ljúka og þegar þau tíðindi fóru að gerast í kjölfarið að verðlag á fiski hækkaði mjög verulega. Verðlag á útfluttum sjávarafurðum hækkaði um 20% frá miðju ári 1997 fram á mitt ár 1998. Framsfl. hafði ekkert með það að gera að því er ég best veit, ekki neitt. Hæstv. fjmrh. dregur þetta að vísu í efa hjá mér en ég hygg að svo sé og ég verð þó að segja að ég tek mikið mark á efasemdum hans vegna þess að hann er hagfræðimenntaður maður. Ég held þó að þrátt fyrir allan hans lærdóm í hagfræði sé málið þannig að þetta hafi ekkert haft með Framsfl. að gera.

Ég held líka að það hafi ekkert haft með Framsfl. að gera að verð á olíu er nú lægra en nokkru sinni fyrr í 20 ár. Ég veit ekki til þess að Framsfl. hafi nein sambönd í olíuframleiðsluríkjum sem hafi haft það í för með sér að olíuverðið er nú komið niður fyrir 10 dollara fatið ef ég sá rétt í einhverjum töflum núna á dögunum, reyndar 9 dollara og 90 sent. Slík tala hefur ekki síst síðan hygg ég 1977 eða jafnvel fyrr, 1973 líklega, fyrir fyrri olíukrepppuna. Hvorugt þetta hefur Framsfl. neitt með að gera en auðvitað er ástæða til að óska honum til hamingju með það að hann var svo ljónheppinn að gefa þetta ábyrgðarlausa kosningaloforð á réttum tíma. En hann gat ekki vitað að það væri víst að hann efndi það, það er alveg á hreinu.

Það hefur heldur ekkert með Framsfl. að gera að hægt var að undirrita samninga um stækkun álvers. Það voru aðrir sem réðu úrslitum um það. Það var almenn uppsveifla í heiminum. Það er heldur ekki Framsfl. að kenna ef ekki verður gengið frá samningum um stofnun álvers á Austurlandi. Nú stefnir allt í það. Í fréttum fyrir nokkrum dögum var verið að segja frá því að staðan væri þannig núna að Norsk Hydro væri að velta því fyrir sér að kaupa Norðurál vegna þess að það vita allir að Norðurál hefur átt við verulegan vanda að stríða. Ker hafa lokast þar langtímum saman og menn hafa verið að reyna að selja það fyrirtæki eða selja þann samning, verkefnissamning, 10 ára verkefnissamning sem var gerður um fjármögnun þess fyrirtækis þegar það er stofnað. Og Norsk Hydro er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa velt því fyrir sér að kaupa Norðurál, sem þýðir þá það að þeir fara ekki líka austur á land. Það er þannig. Það mundi samt ekki vera Framsfl. að kenna eins og það væri ekki honum að þakka þó að því yrði komið fyrir þar.

Ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur í þessum sal að gera okkur grein fyrir því hvað er okkur að þakka og hvað er okkur að kenna og hvernig hlutirnir eru þrátt fyrir allt þannig að við ráðum minna og minna um þá. Veruleikinn er sá.

Það eru í raun og veru niðurstöður efnahagskerfis heimsins sem eru að birtast okkur á hverjum einasta degi. Við ráðum auðvitað ýmsu. Við ráðum vissum stærðum í okkar ríkisbúskap en að því er varðar einstök atriði sem ráða úrslitum um þróun hagkerfisins, þar ráðum við hverfandi.

Mér finnst líka slæmt þegar menn eru að ræða um þessa hluti og þessa miklu uppsveiflu, þetta mikla góðæri sem hefur orðið, að menn skuli gleyma að ræða um hina hliðina á góðærinu. Menn ræða um viðskiptahallann. Það gerði hv. síðasti ræðumaður og hv. formaður fjárln. og fleiri góðir menn. En menn greina hann ekki í raun með þeim hætti sem rétt væri að gera og fara heldur ekki yfir það að á hagvextinum eru aðrar hliðar sem þarf að skoða. Ein hliðin er byggðaflóttinn. Byggðaflóttinn er ein hliðin á uppsveiflunni, er hin hliðin á uppsveiflunni. Þar með er ég ekki að segja að hlutirnir eigi að vera þannig að menn eigi að snúa sér gegn hagvexti eða því um líku, en ég held að menn eigi að gera sér grein fyrir því að ef við skoðum þróunina í byggðamálum á Íslandi 10--20 ár, þá kemur í ljós að þau ár sem uppsveifla er, sem hagvöxtur er, þá er langmestur tilflutningur á fólki innan lands. Ef við skoðum t.d. árin frá 1970 og núna fram undir aldamótin, þá er greinilegt að byggðaflóttinn í landinu er langmestur þegar hagvöxturinn er mestur. Af hverju er það? Það er vegna þess að þá er mest að sækja hingað á vaxtarsvæðin. Það er veruleikinn. Þetta sjáum við náttúrlega núna í algerlega óþekktum mæli. Byggðaflóttinn á Íslandi í dag er meiri en hann hefur nokkru sinni verið og menn eru núna að telja það í árum, ekki áratugum heldur árum hversu langan tíma það tekur að tæma Vestfirðina, að tæma Austfirðina. Það er þetta sem menn eru að velta fyrir sér um þessar mundir. Byggðavandinn er hinn alvarlegi veruleiki íslenskra efnahags- og atvinnumála á þessu ári. Þessar hliðar á hagvextinum, á góðærinu, á uppsveiflunni eru auðvitað þess eðlis að við eigum að ræða um þær algerlega opið. Viðskiptahallinn er sjúkdómseinkenni og byggðaflóttinn er á sama hátt alvarlegt sjúkdómseinkenni. Byggðaflóttinn er ekki t.d. Reykjavík að kenna eins og menn setja hlutina stundum upp, það er ekki þannig. Reykjavík hefur út af fyrir sig aðdráttarafl eins og eðlilegt er með jafnfjölmennan höfuðstað sem hlutfall af þjóðinni, en veruleikinn er engu að síður sá að það er hin almenna þróun efnahagsmála sem ræður hér úrslitum. (Gripið fram í.) --- Það eru tvö andsvör þarna í salnum, þetta gengur vel. Tveir framsóknarmenn hafa tekið við sér og einn ráðherra. Á ég að aðstoða forseta við þetta? Þetta er orðið svo mikið verk.

Veruleikinn er því sá að á árinu 1998 horfum við á það gerast að byggðaflóttinn er gríðarlegur. Hann er alvarlegt vandamál sem verður að fara í og um það eru allir sammála að það verði að gera. En menn eru kannski ekki jafnsammála um það hvað á að gera, en ég er þeirrar skoðunar að taka verði á því máli með mjög róttækum og samstilltum hætti og þar eigi stjórn og stjórnarandstaða að snúa bökum saman. Þess vegna tel ég að sú byggðanefnd sem hæstv. forsrh. skipaði fyrir nokkru skipti mjög miklu máli. Ef vel verður á hlutum haldið þar og við afgreiðslu Alþingis á till. til þál. um áætlun í byggðamálum, þá tel ég að það geti skipt mjög miklu máli til þess að þjóðin fái trú á að eitthvað eigi að gera til að sporna við þeirri uggvænlegu þróun sem er að ganga yfir á landsbyggðinni.

[11:00]

Veruleikinn er líka sá að þetta er dýrt fyrir þjóðarbúið í heild. Flóttinn af landsbyggðinni þýðir oft að það er verið að yfirgefa infrastrúktúr, félagslega þjónustu, þjónustustofnanir og fleira sem búið er að byggja upp þar og í staðinn verður að byggja upp annað í þéttbýlinu. Það er dálítið merkilegt að ekki hefur verið reiknað almennilega út hvað það þýðir í fjármunum fyrir þjóðfélagið að fólk flytjist til á þann hátt sem hér er um að ræða. Hæstv. forsrh. giskaði á það í andsvari fyrir nokkrum vikum að kostnaðurinn við það að flytjast til og koma sér fyrir á ný í þéttbýli væri 3--5 millj. kr. á mann í gjaldfærðum stofnkostnaði, ekki í rekstrarkostnaði, bara í raun stofnkostnaði. Ef byggðaflóttinn er 2.000 manns á ári þá eru þetta 6--10 milljarðar á ári sem við erum að tala um í tap fyrir þjóðina frá því sem ella væri. Þess vegna held ég að við eigum að sameinast um þetta mál, bæði í þéttbýli og dreifbýli því að þetta er hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Ég er ekki að leggja það til að við neitum að horfast í augu við það að eðlileg þróun fái að ganga yfir heldur að við látum hlutina gerast þannig að það gerist ekki í stórum stökkum sem hafa í för með sér tjón og erfiðleika fyrir alla, bæði fjölskyldurnar og fjárhag þjóðarinnar.

Með öðrum orðum er það sem ég er að segja hér, herra forseti, að menn ofmeta annars vegar kraftaverkagetu Framsfl. í því að fjölga störfum í landinu. Menn ofmeta hana. Hins vegar finnst mér að menn geri of lítið af því að tala um hina hliðina á vandanum, þ.e. þensluna annars vegar og byggðaflóttann hins vegar.

Um byggðamálin ætla ég bara að rifja það upp, sem ég hygg að hv. varaformaður fjárln. og líklega formaður líka nefndu í sínum ræðum, að að þeim málum verður væntanlega komið við 3. umr. Það verður að vera þannig og vonandi auðnast okkur að gera það verulega myndarlega svo að fólk sem býr á landsbyggðinni öðlist trú á það sem gert verður og að menn finni að stjórnvöld meina eitthvað með því sem þau eru að segja í þeim efnum, að þetta séu ekki almenn innihaldslítil loforð eða ávísanir á erlend stórfyrirtæki um að þau reisi verksmiðjur til þess að bjarga hlutunum við. Ég held að það gerist heldur ekki þannig.

Í öðru lagi ætla ég koma að þeim brtt. sem ég er með í nokkrum orðum, en aðeins áður en ég yfirgef þetta almenna þá ætla ég að segja --- það getur verið að það sé rangt hjá mér --- að mér sýnist það vera þannig að áhrifin af veltusköttum á næsta ári á tekjur ríkissjóðs --- tekjuáætlun liggur, held ég, ekki fyrir í einstökum atriðum, a.m.k. hefur hún ekki komið til efh.- og viðskn. --- en ég mundi telja ónákvæmt að gera ráð fyrir mikið minni aukningu í einkaneyslu á næsta ári en á þessu ári nema menn stígi núna á bremsurnar. Ef menn ætla sér að stíga á bremsurnar eftir kosningar þá verður svipað mikil aukning á einkaneyslu á næsta ári og er á þessu ári og það þýðir að veltutekjur ríkissjóðs verða ekkert minni á næsta ári en á þessu ári. Ég held því að við eigum að horfast í augu við þá hluti eins og þeir eru. En við eigum þá að nota þær tekjur til að bæta okkar ríkisbúskap þar sem það er nauðsynlegt, eins og t.d. í spítölunum þar sem menn hafa þegar stofnað til stórkostlegra útgjalda. Það er of seint núna að stíga á útgjaldabremsurnar þar fyrir árið 1999 því að stofnað hefur verið til þeirra. Það væri kannski hægt að stíga núna á útgjaldabremsurnar fyrir árið 2000 eða 2001.

Gallinn við umræðuna um heilbrigðismál hefur í mörg undanfarin ár að mínu mati verið sá að menn hafa haft of stuttan tíma undir. Menn hefðu þurft að hafa mörg ár undir, ekki eitt ár heldur þrjú eða fjögur ár. Það þekkja allir sem komið hafa að yfirstjórn heilbrigðismála að vandi þeirra felst ekki síst í því að fólk hefur ekki fengist til þess og ekki Alþingi að horfa á hlutina í löngu samhengi. Þannig ætti það að vera með ríkisbúskapinn allan að við værum með þriggja, fjögurra ára rammafjárlög sem menn gætu skoðað með hliðsjón af breytingum en ákvarðanir um heildarrammana lægju fyrir með margra ára fyrirvara. Líklegasta leiðin til að geta sparað hjá ríkissjóði er að ákvarðanir séu teknar með löngum fyrirvara í góðri sátt við þá sem starfa hjá ríkinu. Ég tel að það eigi að halda þannig á málum. Ég tel að það eigi að spara hjá ríkissjóði. Þetta eru ekki peningarnir okkar heldur peningar fólksins í landinu, peningar skattgreiðenda, sem við erum að fara með og við eigum að fara vel með þá og vanda okkur við það. Það er veruleikinn sem við höfum alltaf lagt áherslu á og sérstaklega við alþýðubandalagsmenn sem höfum verið með mjög ákveðnar kröfur í sambandi við jafnvægi í ríkisfjármálum, fyrst og fremst vegna þess að við teljum að traustur ríkissjóður sé ein meginundirstaðan undir velferðarkerfinu. Þess vegna tel ég að ábyrgðarleysi eins og menn sýndu t.d. árið 1987 í ríkisfjármálum --- við erum ekki enn þá búnir að leysa þann vanda --- ábyrgðarleysi eins og menn sýndu þá hefur verið að koma velferðarkerfinu í koll á undanförnum árum.

Herra forseti. Þetta vildi ég leggja áherslu á varðandi hin almennu atriði. Ég vil síðan geta um það að í tillöguflutningi okkar minni hlutans í þinginu gerum við ráð fyrir því að flytja tekjutillögur við 3. umr. fjárlaga á móti þeim útgjöldum sem hugsanlega mundu verða samþykkt í okkar brtt. Við gerum okkur að vísu ekki miklar vonir um að mikið af því verði samþykkt en ég lýsi því yfir fyrir okkar hönd að við munum, yrðu þær samþykktar, gera tillögur um tekjur þar á móti. Um er að ræða lítils háttar tilfærslur í ríkissjóði, afar litlar tilfærslur miðað við það að hér er um að ræða ríkissjóð þar sem eru vel á annað hundrað milljarðar kr. Hér er um að ræða afar litlar og hógværar tillögur af okkar hálfu um leiðréttingar og lagfæringar á ríkissjóði því að við erum mjög ósátt við það hvernig þar er á hlutunum haldið innbyrðis í mörgum efnum.

Ég ætla í fyrsta lagi að nefna litla tillögu á þskj. 448 sem ég flyt þar sem gert er ráð fyrir því annars vegar að varið verði heilum 2 millj. kr. til Æskulýðssambands Íslands. Það hefur fengið lítið í seinni tíð. Það fékk þessar upphæðir fyrir nokkrum árum en hefur dottið út. Það getur vel verið að meiri hlutinn hafi hugsað sér eða fjárln. að skoða þetta mál milli 2. og 3. umr. og þá hefur það sinn gang. En ég vildi minna á þetta. Hér er um að ræða heildarsamtök íslensks æskufólks og þau hafa tilteknu hlutverki að gegna í alþjóðlegum samskiptum. Þau koma fram fyrir hönd íslensks æskufólks gagnvart umheiminum, taka m.a. þátt í alþjóðasamstarfi ungs fólks, í Evrópusamstarfi ungs fólks og í Norðurlandaráðssamstarfi ungs fólks. Ég tel að við þurfum að tryggja það með þessari litlu tölu að þau geti eitthvað sinnt þessum málum á sínum vegum.

Í öðru lagi flyt ég litla tillögu um 5 millj. kr. framlag til Landssambands eldri borgara. Verið getur að það sé líka ætlun hv. fjárln. að taka eitthvað á því frekar. Ég veit það ekki. En ég vildi minna á málið. Ástæðan er m.a. sú að nú er ár aldraðra. Þessi samtök hafa miklu hlutverki að gegna. Ég veit ekki betur en að forustumenn þeirra sitji núna í nefnd um ár aldraðra á vegum hæstv. heilbrrh. Tækifærið hefur ekki verið notað til þess að efla öldruðum kjark og þrótt sem skyldi á þessu ári, ári aldraðra, hér á landi, því miður. Ég tel að þessi samtök skipti mjög miklu máli og það eigi að sýna þeim myndarskap, sem að vísu er ekki gert með þessari tillögu jafnvel þó að hún yrði samþykkt því að hún er upp á litlar 5 millj. kr.

Eitt af þeim grundvallaratriðum sem við höfum fjallað um á undanförnum árum, um 10--20 ár skeið, í þessari stofnun er hvernig eigi að fjármagna velferðarkerfið. Á að gera það með beinum sköttum, á að gera það með óbeinum sköttum eða á að gera það með gjöldum á þá sem nota þjónustuna? Samstaða er um það meðal þeirra flokka sem hafa rætt um sameiginlegt framboð á næsta ári að það eigi að vera sem allra mest þannig að þjónustan sé kostuð af beinum og óbeinum sköttum en ekki af gjöldum á þá sem þurfa á henni að halda. Af þeim ástæðum flytjum við tillögur á þskj. 455 og 456 um að svokallað komugjald á heilsugæslustöðvar verði fellt niður og skólagjöld í framhaldsskólum verði felld niður líka að svo miklu leyti sem þau eru notuð í rekstur. Við erum ekki að tala um að öll skólagjöld falli niður, þ.e. innritunargjöld og þess háttar, efnisgjöld einhver. Við erum að tala um að skólagjöld eigi ekki að nota í rekstur skólanna. Í þessari tillögu erum við líka að tala um það sem kallað er fallskattur. Það er einhver ósanngjarnasti skattur sem nokkurn tíma hefur verið lagður á hér. Hann er að vísu ekki að skila mjög miklum tekjum. Mér skilst að það séu eitthvað 15 millj. eða svo á ári. Við leggjum til að sú skattheimta verði felld niður. Þetta kemur fram á tillögum sem ég er 1. flutningsmaður að á þskj. 455 og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er 1. flutningsmaður að á þskj. 456.

Þá vil ég að allra síðustu, herra forseti, víkja að því að í framsögu hv. formanns fjárln. kom hann aðeins að safnamálum. Eitt af því sem hefur verið, liggur mér við að segja, fórnarlamb hinnar stífu verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga er uppbygging safnanna. Ég held að menn hafi gengð allt of langt í því þegar breytingin var ákveðin á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að ætla sveitarfélögunum stundum að ráða við verkefni sem þau ráða mjög illa við. Eitt af því eru söfnin. Ég er að tala um byggðasöfnin. Ég er að tala um önnur söfn út um allt land sem hafa gífurlega þýðingu líka og vaxandi þýðingu, bæði sem menningarstofnanir fyrir unga fólkið og þá sem búa í byggðarlögunum, en þó ekki síst fyrir ferðamennina, innlenda sem erlenda. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. formanni fjárln. í þeim efnum og sömuleiðis hjá hv. varaformanni fjárln. sem ég heyrði aðeins fjalla um þessi mál í gærkvöldi.

Ég vil hins vegar með hliðsjón af þeirri umræðu sem kom fram í ræðum þeirra beggja velta því upp að það þarf að taka á þeim málum á nýjan hátt. Það er spurning hvort ekki þarf að setja um það einhverjar heildarreglur eða heildarlög til þess að ekki sé verið að ívilna sumum en ekki öðrum. Vandinn er sá í þessu efni að þeir sem eru harðastir af sér fá, en hinir ekki. Þetta þarf að lúta einhverjum tilteknum, almennum og faglegum sjónarmiðum og ég er sannfærður um að það er best fyrir alla aðila, sérstaklega viðkomandi ráðuneyti, að geta haft skýra farvegi af því tagi. Þar sem hæstv. menntmrh. er viðstaddur þessa umræðu vil ég aðeins víkja að þessu máli líka og spyrja hann að því hvort hann sé með einhverjar slíkar hugmyndir uppi um að setja safnamálin í almennan farveg. Þá er ég að tala um byggðasafnamálin alveg sérstaklega. Ég tel að það eigi að gera og mér fyndist það vera skynsamlegt að reyna að halda þannig á þeim málum.

Margt í brtt. meiri hluta fjárln. er hið besta mál sem ég tel ástæðu til að þakka fyrir. Þó er kannski sérstaklega eitt sem mér þykir vænna um en annað, þ.e. liður sem heitir Eiríksstaðanefnd og gengur út á það að byggja upp á Eiríksstöðum í Haukadal, bæ Eiríks rauða sem verður vonandi hægt að sýna og taka í gagnið á árinu 2000 um svipað leyti og byggingar honum tengdar og konu hans verða teknar í notkun í Brattahlíð á Grænlandi. Ég tel mjög mikilvægt fyrir menningarsögu okkar á árinu 2000 að þessi bær verði byggður upp á Eiríksstöðum í Haukadal og ég tel fulla ástæðu til þess að þakka fyrir það og óska Alþingi til hamingju með að taka ákvörðun um það, þ.e. ef tillagan verður samþykkt, sem ég vona. Að minnsta kosti lofa ég mínu atkvæði til að samþykkja hana.