Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 11:17:50 (2160)

1998-12-12 11:17:50# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[11:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt lykilatriðið. Það er ekki hægt að eyða peningum sem ekki eru til. Forsenda alls velferðarkerfis hér, hvort sem það er á sviði heilbrigðismála, félagsmála eða í menntamálum, er að hin efnahagslega undirstaða sé rétt til fundin.

Ég tel hins vegar hafa orðið mikil sinnaskipti hjá hv. þm. Það má vera að þau hafi orðið fyrir þremur árum þegar hann pældi í að skrifa ágæta bók sína um þessi málefni. Þá hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að hafa efnahagsmálin í lagi áður en hægt væri að gera aðra hluti.

Að því er varðar það sem hann sagði í ræðu sinni um tekjuspána fyrir næsta ár og hinar alþjóðlegu efnahagshorfur og viðskiptahallann, þá munum við að sjálfsögðu gera betur grein fyrir því fyrir 3. umr. Myndin er smám saman að skýrast í því efni. Ég geri mér vonir um að viðskiptahallinn, sem gert er ráð fyrir bæði á þessu ári og því næsta, verði eilítið minni en áður var gert ráð fyrir. Við vitum að vísu ekki um það en auðvitað gerum við allt sem hægt er til að draga úr honum. Hann er vissulega vandamál eins og ég hef margsagt.