Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 11:26:53 (2169)

1998-12-12 11:26:53# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[11:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi vil ég andmæla því sem kom fram í máli hv. ræðumanns, Svavars Gestssonar, að verið væri að innheimta önnur gjöld í framhaldsskólanum en þau sem lytu að skrásetningu og efniskostnaði. Um annars konar gjaldheimtu er ekki að ræða lögum samkvæmt á nemendur sem stunda nám í framhaldsskólum. Endurinnritunargjaldið er fyrir þá sem ekki standast próf.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um safnamálin þá get ég tekin undir með honum og formanni fjárln. Raunar átti ég viðræður um þessi mál við formann og varaformann fjárln. Ljóst er að setja ber almenn lög um safnastarfsemi í landinu til að marka verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þann ramma sem nauðsynlegur svo menn geti tekið heildstætt á þessum málum.

Ég tel einnig að í slíkri löggjöf ætti að taka af skarið um að skilja á milli þjóðminjaráðs og Þjóðminjasafns. Ég tel að þar verði að skilja á milli, einnig svo skýrt verði hver staða Þjóðminjasafnsins er gagnvart almennri safnastarfsemi í landinu.