Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 11:30:34 (2173)

1998-12-12 11:30:34# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[11:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Athyglisverð orðaskipti áttu sér stað í kjölfar ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar. Þau voru líka upplýsandi. Mikilvægt er að það sé alveg ljóst að um leið og stjórnarandstaðan gagnrýnir ríkisstjórnina þar sem um ólíkar stefnur er að ræða og þar sem stjórnarandstaðan leggur áherslu á hin ýmsu velferðarmál sem ríkisstjórnin hefur ekki varið, þá er eitt sem hefur komið vel fram í umræðunni af talsmönnum okkar í stjórnarandstöðu og það er að við leggjum áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum. Við skulum hafa þetta alveg á hreinu.

Herra forseti. Ríkisstjórnin er í vanda og forsrh. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson er að upplifa áður óþekkta pólitíska tilveru. Hann er í vondum málum innan flokks og utan. Almenningsálitið er að bregðast við því óréttlæti sem fylgt hefur stjórnunarstíl ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar síðustu missiri. Ríkisstjórnin hefur nefnilega opinberað hagsmunahyggju sína fyrir útvalda á kjörtímabilinu. Okkur kemur ekkert á óvart að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er sérhagsmunastjórn en núna er það að verða lýðum ljóst.

Ríkisstjórnin notaði fyrstu þrjú árin til að setja ,,óþægilegu lögin``, lög sem settu hag launafólks skorður, lög sem tryggðu sérhagsmunahópunum góða daga, lög sem verja peningaöflin og velmegun útvalinna. Hún hefur ögrað launafólki, t.d. með lögum um stéttarfélög og reynt að rýra verkfallsrétt. Hún aftengdi viðmiðun greiðslna Tryggingastofnunar ríkisins við laun og hún lagði niður félagslega húsnæðiskerfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ríkisstjórnin ætlaði greinilega, herra forseti, að ljúka verri verkunum á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins og eiga síðan ljúft lokaár á Alþingi í aðdraganda kosninga. Meira að segja átti að ljúka með hraði lagasetningu um gagnagrunninn í vor. Öllu átti að ljúka sem var óþægilegt og þar átti að treysta á skammtímaminni kjósenda. Ríkisstjórnin setti fram sólskinsfjárlög sín en þau reyndust varpa löngum skuggum.

En stóru verkin ríkisstjórnarinnar blasa við og eru að verða öllum ljós. Lækkun skatts af arði úr 42--43% í 10% um leið og lagður var skattur á takmarkað sparifé allra, láglaunafólks, aldraðra, barna, allra. Ríkisstjórnin hefur ekki bitið úr nálinni með að böðla lagasetningu um miðhálendið í gegnum þingið vegna þess að þá voru kveiktir þeir eldar sem brenna nú með þjóðinni og koma mjög í ljós í viðhorfi fólks til virkjanaáforma og stóriðju. Almenningur er að bregðast mjög harkalega við og það sýndi mjög vel magnþrunginn og tilfinningahlaðinn fundur í Háskólabíói fyrir skömmu. Ég hef ekki oft upplifað slíka fundi hin síðari ár en það vafðist ekki fyrir neinum sem þar var að þarna var að gerast eitthvað mjög stórt sem engin pólitísk öfl munu ráða við eða geta spornað gegn. Það er ríkisstjórnin í vinnubrögðum sínum sem hefur kveikt þessa elda.

Enda þótt heilbrigðiskerfið sé í uppnámi vegna málsins er einkaaðila færður í hendur gagnabanki með heilsufarsupplýsingum allra Íslendinga, e.t.v. allra Íslendinga sem lifað hafa á öldinni, og dótturfyrirtæki fært einkaleyfi til rannsókna á hitakærum örverum. Í ljós kemur að ríkisstjórnin er að verða óttaslegin. Hún er t.d. á flótta í því máli eins kom og berlega fram á fundinum sem haldinn var í heilbr.- og trn. í gær þegar því var hafnað að kallaðir væru til einstaklingar og fulltrúar hópa sem höfðu beðið um að fá að skýra mál sitt. Þetta er alveg nýtt í sögu og vinnulagi á Alþingi. Þeir sem hafa starfað til langs tíma, ég tala ekki um þá sem hafa stýrt nefndum, vita að þetta eru ekki bara ný og vond vinnubrögð. Þetta voru fádæma klaufaleg vinnubrögð vegna þess sem á eftir kemur.

Herra forseti. Þetta hefur verið að gerast og þess vegna eru mál að snúast á einhvern óþægilegan veg fyrir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Og ofan í allt þetta kom hæstaréttardómurinn. Ríkisstjórnin fær á sig hæstaréttardóm fyrir að úthluta auðlindinni í hafinu til fárra útvalinna, ekki síst núna á góðæristímanum, og bítur svo hausinn af skömminni með því að koma með frv. sem setur allt í uppnám. Vottarnir um klúðrið eru ekki fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Þeir hafa komið og bent á hvað er að gerast. Vottarnir koma úr röðum ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Vestfjarðagúrú flokksins, sjálfur Einar Oddur Kristjánsson, hv. þm., og hv. þm. Einar Guðfinnsson eru báðir með heitstrengingar og segja að verði frv. að lögum muni það rústa byggðir landsins. Herra forseti. Það er ekki stjórnarandstaðan sem er að tala. Stjórnarandstaðan hefur bent á hversu alvarlegur hæstaréttardómurinn er og gerði það í mjög málefnalegri utandagskrárumræðu strax daginn eftir að hann birtist landsmönnum. Það eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem koma nú fram og segja: Ef þetta frv. verður að lögum mun það rústa byggðir landsins.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er í vondum málum og það blasir áþreifanlega við þjóðinni. Hennar eigin liðsmenn eru farnir að hrópa upp um að þetta sé ríkisstjórn sérhagsmuna og hún mun núna standa frammi fyrir kröfu landsmanna um breytta stefnu. Þetta er það sem blasir við. Þetta er það sem blasir við í umræðunni um fjárlög í aðdraganda jóla, á miðri aðventu. Þetta er það sem mun verða tekist á um í kosningunum í vor, þ.e. fyrir hvern eru flokkarnir að vinna? Eru þeir að vinna að almannaheill eða hefur það sýnt sig að þeir séu flokkar sérhagsmunanna og eru ekki bara með einkunn þar um úr röðum andstæðinganna heldur sínum eigin? Þetta er vandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og þetta er hin nýja áður óþekkta tilvera forsrh. sem hlýtur að valda honum nokkrum ugg um þessar mundir.

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það sem kom fram í ræðu og víkja hér með að fjárlagafrv. sjálfu og boðskap þess að næg atvinna fyrir alla er mesta velferðarmál í öllum löndum. Það er afar einfalt. Það verður að vera næg atvinna fyrir alla og möguleikar fólks að afla sér reynslu á vinnumarkaði, afla sér menntunar til að verða liðtækur á vinnumarkaði sem er miklum breytingum háður, að allir eigi möguleika á að mennta sig, allir eigi möguleika á starfsmenntun og því að samhliða vinnu þróa sig til nýrra starfa, ekki síst vegna þeirra breytinga sem eru að verða á nýrri öld. Þetta er grunnforsenda velferðarríkis. Þess vegna var lögð höfuðáhersla á það á síðasta kjörtímabili að ná upp hagvexti til að skapa grundvöll til atvinnuuppbyggingar á miklum erfiðleika- og atvinnuleysistímum, mjög erfiðum tíma í sögu þjóðarinnar, ekki síst í sögu þjóðarinnar á síðari hluta aldar eftir að efnahagur fór að vera líkur því sem gerist í nágrannalöndum.

Þess vegna er það, herra forseti, að fyrir síðustu kosningar var það sterkasti boðskapur þeirrar ríkisstjórnar sem Alþfl. átti aðild að hvernig náðist að snúa vörn í sókn á samdráttar- og erfiðleikatímum. Ég óska engri ríkisstjórn þess að þurfa að takast á við slíkan þjóðhagslegan vanda af þeirri stærðargráðu sem þá blasti við eins og þá var gert. Ég óska engri ríkisstjórn þess. En þá skal manninn reyna þegar hann hefur tekið að sér að setjast á valdastól og er með það veganesti að ætla að takast á við breytingar á okkar þjóðfélagsgerð og hefur kannski trú á því að vera að fara inn í ríkisstjórn til að gera góða hluti og breyta til betri vegar ýmsu því sem hefur dregist. En verkefnið verður þetta eitt, að takast á við stóran, þjóðhagslegan vanda og það verður eina stóra verkefni ríkisstjórnarinnar. Ég óska engum þess. En að það skyldi takast á skömmum tíma að snúa vörn í sókn og að við skyldum þá upplifa það í lok stjórnartíma þeirrar ríkisstjórnar að hagvöxtur væri vaxandi, um það er aldrei rætt. Um það er aldrei rætt hvaða grundvöllur var þá lagður að atvinnu- og efnahagsuppbyggingu sem var að verða möguleg. Um það er aldrei rætt. En í góðærinu sem hefur verið þessi síðustu ár berja stjórnarflokkarnir sér á brjóst og virðast trúa því að fiskigengd, verðlag á mörkuðum erlendis, lækkað olíuverð og breytt umhverfi í öllum helstu viðskiptalöndum sé allt þeim að þakka. Ekki orð um þetta stóra verkefni kjörtímabilsins á undan, sem þó stærri stjórnarflokkurinn átti sannarlega aðild að, ekki orð um það (Gripið fram í.) heldur barnalegar yfirlýsingar um það sem hafi gerst á þessu kjörtímabili, m.a. að það tókst að snúa vörn í sókn og atvinnulífið tók kipp með tilsvarandi breytingum og þróun í atvinnuháttum og fjölgun starfa, barnalegar yfirlýsingar um það að Framsfl. hafi með setu sinni í ríkisstjórn búið til þessi störf.

Herra forseti. Þetta er svo kjánalegt að það tekur því ekki að takast á um það. Hins vegar skulum við halda því til haga að þetta hefur verið heppin ríkisstjórn miðað við það efnahagslega umhverfi hjá okkur sjálfum sem verður til með breyttum hag þegar nægur fiskur er og þegar markaðir eru hagstæðir auk annars sem hér hefur verið nefnt. Það er heppin ríkisstjórn sem sest og tekur við valdataumunum við þær aðstæður. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar ekki notað þá velgengni í þágu þeirra sem helst átti að bera fyrir brjósti. Hún hefur ekki brugðist við til að bæta þeim hópum sem þurftu að draga saman og var í raun og veru þrengt að þegar þurfti að grípa til margra sársaukafullra efnahagsaðgerða sem höfðu alvarleg áhrif fyrir velferðarkerfi okkar, tímabundið, taldi ég, tímabundið taldi ég sem þá átti aðild að ríkisstjórn, þess fullviss í þeim erfiðu aðgerðum að þegar birti til yrði hlutur allra þeirra leiðréttur sem þrengt var að. Það hefur ekki gerst. Og berji menn sér á brjóst fyrir velmegun og að hafa búið til störf. En það hefur ekki gerst, þetta stærsta verkefni, að rétta hag þeirra sem þrengt var að.

[11:45]

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir allt sviðið í málaflokkunum sem birtast í þessum fjárlögum. Ég ætla að vísa í ræður talsmanna minni hlutans hvað það varðar en ég mun koma inn á nokkur atriði.

Fyrst ætla ég, herra forseti, að nefna peningahyggjuna sem í raun og veru hefur verið hið blómstrandi afl sem stutt hefur þessa ríkisstjórn. Peningahyggjuna sem orðin er ráðandi afl í þjóðfélaginu og ætti að hringja ýmsum viðvörunarbjöllum hjá okkur vegna þess að peningahyggjan er orðin afl í velferðarþjóðfélagi okkar. Og þó að gott sé fyrir hvern einn að hugsa sem svo: Ég ætla bara að hugsa um mig og hag minn, hvað ég ber úr býtum af því að ég er eins konar Bjartur í Sumarhúsum og ætla að sjá um mig og mína, þá er það ekki hugsunin sem á að vaka í velferðarþjóðfélaginu. Það á að vera okkur öllum umhugsunarefni hversu peningahyggjan er ráðandi og hversu kynt hefur verið undir peningahyggjunni á liðnum missirum. Hefur þessi ríkisstjórn verið að gera það? Hefur þessi ríkisstjórn ekki þvert á móti gert alla góða hluti miðað við ræður liðsmanna hennar? Ætlar ríkisstjórnin ekki að lækka örlítið skatta núna? Jú, en hún ætlar líka að lækka barnabætur. Er ríkisstjórnin ekki með góða fjármálapólitík? Ber hún ekki alla fyrir brjósti? Ég segi nei. Hún ber ekki alla fyrir brjósti. Hún ber suma fyrir brjósti. Og af því að oft er talað um að stjórnarandstaðan sé að fara vill vegar, þá ætla ég að vísa í Moggann. Ekki lýgur Mogginn, er orðatiltæki hér á Alþingi.

Í frétt Morgunblaðsins 21. nóvember er stór fyrirsögn þar sem segir: ,,Hagstæðara er að telja fram fjármagnstekjur en launatekjur.``

Þar er sagt að skattar af 5 millj. kr. tekjum, séu þær af fjármagnstekjum, beri um 200 þús. kr. lægri skatta en væru þær launatekjur. Þetta er samt ekki satt. Þetta er fyrirsögnin. En þegar taflan er skoðuð, herra forseti, sem birt er með þessari ágætu frétt Morgunblaðsins, þá kemur í ljós að þegar bornar eru saman skatttekjurnar, bara nettó, þá munar það 200 þús. kr. en ef tekið er allt sem er til ráðstöfunar, af því að meðferð almennt á arði er öðruvísi en á launatekjum, þá er munurinn sá að af 5 millj. kr. tekjum mundi sá sem hefur þær í launatekjur halda eftir liðlega 3 millj. en sá sem hefur þær af arði heldur eftir tæplega 4 millj. Nákvæmar tölur eru 3.094.000 kr. og 3.814.000 kr.

Þetta segir Mogginn. Þetta eru staðreyndirnar í fjárlagafrv., herra forseti. Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar sem segist bera hag allra fyrir brjósti. Þessi ríkisstjórn hefur borið hagsmuni fyrirtækjanna fyrir brjósti. Og að gagnrýna það, hvað þýðir það? Hvað þýðir að gagnrýna það að ríkisstjórn beri hagsmuni fyrirtækjanna fyrir brjósti en ekki hagsmuni fólksins? Er þá þingmaður sem þannig talar á móti fyrirtækjum? Aldeilis ekki. Þingmaðurinn hefur sýnt að á efnahagslega erfiðum tíma í sögu þjóðarinnar stóð þessi þingmaður að því að lækka verulega skatta af fyrirtækjum tímabundið til að snúa því við hvað atvinnuleysið var að verða gífurlegt, til að reyna að halda í horfinu og að ekki yrði fækkað meira í fyrirtækjum landsins. Hefur þessi ríkisstjórn breytt sköttum á fyrirtækjunum eftir að hin mikla velmegun varð og hið góða efnahagsumhverfi og batinn svo mikill að Framsfl. getur barið sér á brjóst og þakkað sér 12 þúsund störf? Nei, það hefur ríkisstjórnin ekki gert vegna þess að þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn fyrirtækjanna. Hún er ekki ríkisstjórn fólksins, það er bara glýja. Þess vegna erum við að tala um velferðina og góðærið, góðæri hverra og hvert góðærið fer. Ég ætla aftur að vísa í Morgunblaðið. Það er svo ágætt að vísa í Morgunblaðið af því að hér í salnum sitja nokkrir fulltrúar stjórnarliðsins og Morgunblaðið hefur verið a.m.k. í leiðurum sínum nokkur talsmaður þeirrar stefnu. (Gripið fram í: Stóri sannleikur bara.) Stóri sannleikur þeirrar stefnu Sjálfstfl. sem við höfum fylgst með á liðnum árum. (Gripið fram í: Alþýðublaðið ...) Stóri sannleikur er alveg rétt orð. Alþýðublaðið túlkaði oftast stefnu flokks míns í leiðurum sínum. Ég er að tala um leiðara Morgunblaðsins. Hann hefur aldrei túlkað stefnu flokks míns nema þegar hann hefur verið að fara orðum um sjávarútvegsmál og veiðileyfagjald, en ég ætla ekki að fara út í þá umræðu nú.

En hvað segir Morgunblaðið í leiðara sínum í desember? Morgunblaðið er að vísa til kröfu Öryrkjabandalagsins og vísar til þess að Öryrkjabandalagið höfðar til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna á fimmtugsafmæli hennar. Ég vísa til þess sem þar segir, með leyfi forseta:

,,Vart þarf að fara mörgum orðum um að þeim öryrkja sem einungis getur reitt sig á bætur almannatrygginga er í reynd haldið frá eðlilegri þátttöku í mannlífinu.``

Og skoðun leiðarahöfundar Morgunblaðsins er eftirfarandi:

,,Stjórnvöldum er vandi á höndum í margs konar og viðvarandi kröfugerð á hendur samfélaginu/skattborgurum. Í þeim efnum þarf að fara með gát og forgangsraða bæði með arðsemi framkvæmda og sanngirni í garð hinna ýmsu þjóðfélagshópa í huga. Og í ljósi réttsýni og sanngirni er tímabært, að ekki sé fastar að orði kveðið, að endurskoða stöðu öryrkja, sérstaklega þeirra sem urðu öryrkjar ungir.``

Þetta er alveg rétt. Þetta veit hver einasti maður. Það er bara þessi ríkisstjórn sem gerir ekkert með það. Það er þessi ríkisstjórn sem gerir ekkert til að bæta hag þeirra sem búa eingöngu við það að þurfa að lifa og reiða sig á bætur almannatrygginga, og það segir:

,,Og í ljósi réttsýni og sanngirni er tímabært, að ekki sé fastar að orði kveðið, að endurskoða stöðu öryrkja`` --- af því að þeim er annars haldið frá eðlilegri þátttöku í mannlífinu.

Herra forseti. Þetta eru þung orð. Þau eru hárrétt og þau eru sannleikur.

Í gær ætluðum við að taka nokkur lítil frv. til umræðu fyrir hæstv. félmrh. og gefa þeim forgang þótt þau væru seint fram komin. Upphófst hér mjög hörð umræða um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það hér en bara rifja það upp, sem við höfum áður sett fram, að mjög mikilvægt er að sem flest af nærverkefnum fjölskyldunnar, verkefnum sem skapa þá umgjörð sem fjölskyldunni er ætlað að starfa og blómstra innan, séu hjá sveitarfélögunum. Það verður að gefa sveitarfélögunum nýja tekjustofna til að geta byggt upp í þeim málaflokkum sem þeim er falið. Það er ekki nóg komið af verkefnum til sveitarfélaga en það er nóg komið af því að sveitarfélögin fái verkefni sem ekki fylgja nægilegar tekjur með. Sveitarfélögin hafa fengið svelta málaflokka yfir til sín. Kostnaður hefur verið vanreiknaður, en þó að hægt sé að takast á um hvort kostnaður hafi verið vanreiknaður, svo sem eins og með grunnskólann, þá er annað sem er óumdeilt og það er að strax og sveitarfélögin taka yfir málaflokk eins og grunnskólann, þá kemur hörð gagnrýni á ekki bara fjármagnið sem grunnskólum er ætlað og að það sé ófullnægjandi, heldur gerist það að þegar svona rammpólitísk þjóðfélagsleg samfélagsverkefni eru komin til sveitarfélaganna, þá fá þau aukið vægi heima í héraði og gerð er krafa um hraðari breytingar. Gerð er krafa um meiri þróun t.d. grunnskólans en þegar hann var hjá ríkinu og aðgangur er auðveldari fyrir foreldra og þá sem berjast fyrir bættum grunnskóla þegar málaflokkurinn er hjá sveitarfélaginu. Með kröfum á kjörna fulltrúa. Um þetta ber öllum saman sem hafa skoðað þessi mál og þess vegna verður sveitarfélögunum nauðugur sá kostur að setja sér stefnu í málefnum grunnskólans og barna, búa til samfellu í málefnum barna frá leikskóla og upp í framhaldsskóla og sýna fyrir hvað sveitarfélagið ætlar að standa í slíku þjóðfélagslegu verkefni. Þetta þýða stórkostleg fjárútlát fyrir sveitarfélagið sem ríkið gat skorið niður meðan verkefnið var þar og sem ríkið skar niður síðustu missiri áður en grunnskólinn var fluttur og dró að gera ýmsar breytingar sem gert var ráð fyrir og frestaði aðgerðum sem mælt var fyrir um í lögum.

Þetta sama, herra forseti, mun gerast í málefnum fatlaðra þegar málaflokkurinn flyst til sveitarfélaganna. Það verða miklar kröfur til sveitarfélaga bæði um frekari einstaklingsþjónustu en ekki síst úrbætur í málaflokknum sem hefur verið sveltur hrikalega á þessu kjörtímabili, hrikalega. Ég ætla bara að segja eitt orð um það sem mun snúa að ríkinu eftir að málaflokkurinn verður fluttur og það er að mjög brýnt er að réttargæsla fatlaðra verði tryggð á landsvísu. Það á að vera það verkefni sem ríkið sér um þegar málaflokkurinn er fluttur.

Við höfum verið að fá, herra forseti, alls kyns upplýsingar. Við höfum fengið upplýsingar um að helmingur skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða kross Íslands séu öryrkjar. Menn gera ekkert með það, ekki í þessari ríkisstjórn. Hvergi á Norðurlöndum eru öryrkjum greiddar jafnlágar bætur og á Íslandi. Menn gera ekkert með það, ekki í þessari ríkisstjórn. Það hafa komið fram upplýsingar um að fátækt eykur á veikleika og vekur upp nýja sjúkdóma og nú síðast skýrsla landlæknis um að samhengi sé á milli efnahags foreldra og veikinda barna. Menn gera ekkert með það.

Það er umhugsunarefni að ríkisstjórn geti með jafnmiklu yfirlæti barið sér á brjóst þegar hún talar um velferðarsamfélagið, eins og þessi ríkisstjórn, miðað við það að fyrir liggur hvað hún er veik í málefnum þeirra sem okkur ber þjóðfélagslega að bera mest fyrir brjósti.

Hér hefur verið farið yfir þá stöðu að lögboðið framlag Erfðafjársjóðs í Framkvæmdasjóð fatlaðra er skert. Það hefur þær afleiðingar að minna er gert. Færri sambýli eru byggð og úrræði svæðisskrifstofanna eru færri. Ég sit í félmn. og þar höfum við fengið fulltrúa á okkar fund. Þeir fulltrúar leggja fyrir okkur pappíra sem sýna staðreyndir mála, hrikalega biðlista eftir húsnæði. Í Reykjavík bíða 170 einstaklingar og á biðlista eftir skammtímavistun eru 47 einstaklingar. Þetta skiptist eftir biðlistum í sambýli og verndaðar íbúðir. Síðan er biðlisti eftir frekari liðveislu og eftir að fá dagþjónustu og biðlisti er vegna stuðningsfjölskyldna. Það er allt of lítið fjármagn, ég held um 12 millj., veitt til að greiða fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldna. Þetta eru afar lágar upphæðir. Stuðningsfjölskyldur eru ókunnugt fólk sem léttir á fjölskyldum sem eru með mikið fatlaða einstaklinga í heimahúsum. Hagstæðasta form velferðarþjóðfélagsins er að fjölskyldurnar sjálfar séu með mikið fatlaða einstaklinga heima svo ekki þurfi að byggja allar þessar stofnanir eða sambýli. En til þess að fjölskyldunum sé það unnt, þá eru greiðslur til góðs fólks sem tekur að sér að vera stuðningsfjölskyldur of lágar. Þetta eru skammarlega lágar greiðslur en samt er fjármagnið svo takmarkað að um 20 fjölskyldur eru skráðar á biðlistum bara í Reykjavík.

[12:00]

Sama er að segja þegar við förum yfir í Reykjanes. Þar eru biðlistar eftir dagtilboðum á annað hundrað, þ.e. 109 einstaklingar, 90 heilsdagspláss og þar er hrikaleg bið eftir búsetuúrræðum eða 135 einstaklingar á biðlista. Okkur er sagt að fé í stofnkostnað sem vantar til að byggja þarna upp sé um 1.100 millj. og rekstur um 480 millj. Á sama tíma er framlagið í framkvæmdasjóð skert um helming og úrræði takmörkuð.

Fyrir skömmu fór þingflokkur jafnaðarmanna í heimsókn í kjördæmið, réttara sagt ekki þingflokkur jafnaðarmanna heldur þingmenn sameiginlegs framboðs. Við komum í skóla í kjördæminu. Þar var ofboðslega fatlað barn. Vitsmunir þess voru taldir sambærilegir við vitsmuni nokkurra mánaða gamals barns, en ekki nokkurra ára. Barnið var í skólanum með starfsmann með sér vegna þess að engin úrræði finnast í þessu kjördæmi í velmegunarþjóðfélaginu. Þetta barn sat í sérherbergi í skólanum, gat ekki talað, skildi ekkert og því er ekkert hægt að kenna, af því að skólanum ber að taka við slíkum einstaklingum þegar önnur úrræði skortir. Þess vegna er 12 ára barn sett í skólann við þessar aðstæður. Svo berja menn sér á brjóst og tala um velferð og að allt sé gott og láta eins og þessir hlutir séu ekki til.

Herra forseti. Ég gæti dvalið nánar við sambýlin en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla bara að minna á að þrátt fyrir að útskrifað hafi verið samkvæmt samningi við Kópavogshæli þá er enn langt í land og samhliða því hefur dregist að veita önnur úrræði eins og hér hefur komið fram í tölum. Tölurnar eru sterkasti vitnisburðurinn og ég ætla ekki einu sinni að hafa fyrir því að vera með ræðuhöld út frá þessum tölum. Þær skýra sig sjálfar.

Herra forseti. Fyrir hvern erum við að vinna? Börn, ungt fólk, fjölskyldufólk, fullorðið fólk? Hvers konar samfélag erum við að skapa? Viljum við skapa samfélag þar sem allir eru virkir, þar sem allir lifa með reisn og þar sem ungu fólki er gert kleift að sinna uppeldishlutverki sínu og skila skilaboðunum frá fyrri kynslóðum um aga og vinnu til barna sinna? Höfum við sinnt þessu fólki? Nei. Þetta unga fólk vinnur lengstan vinnudag í Evrópu. Auðvitað kemur þessu fólki skattalækkun vel. Ég ætla alls ekki að láta það henda að ég nefni ekki það sem gott er gert. En þegar það fylgir með að barnabætur lækka, þá er það mjög alvarlegt mál. Þá er sett í annan vasann og tekið úr hinum og það finnst mér alvarlegt.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur að ekki hefur tekist að gera meira fyrir fjölskyldurnar í landinu. Þrátt fyrir að hér hafi verið samþykkt stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar hafa ekki fylgt nein lög og því ekki verið fylgt eftir í fjárlögum. Því hefur ekki verið fylgt eftir með lagasetningu að búa umgjörð fjölskyldunnar þannig að ungt fólk geti sinnt þessu hlutverki sem er svo mikilvægt, þ.e. uppeldishlutverkinu og skilaboðunum frá fyrri kynslóðum, því sem gerir okkur að þjóð, því sem gerir okkur sterk og því sem gerir uppvaxandi kynslóð sterka.

Herra forseti. Ég nefndi það í inngangi ræðu minnar að ríkisstjórnin hefði lagt niður félagslega húsnæðiskerfið. Við höfum ekki séð það fyrir hvaða afleiðingar það hefur. Það verður væntanlega umræðan á vorþinginu þegar þau mál fara að skýrast. Við höfum nokkrum sinnum getið þess hér hvað fulltrúar í húsnæðisnefndunum segja, hverjar áhyggjur þeirra eru. Hér hafa verið nefndir biðlistar eftir leiguhúsnæði þar sem umsækjendur skipta hundruðum meðan ríkisstjórnin ætlar að lána til 120 íbúða. En ég ætla að spyrja félmrh. til hvers eigi að nota þær 30 millj. sem getið er um í fjárlagafrv. vegna launa. Á að segja fólki upp síðar? Fólki hefur ekki verið fækkað. Hins vegar hafa menn losað út slatta af fólki sem menn vildu ekki lengur hafa að störfum í húsnæðiskerfinu. Það er hægt að geta sér til hvers vegna svo sé þegar það sést hverjir það eru --- fólk með mikla reynslu og þekkingu --- sem ekki þykir ástæða til að láta halda störfum sínum hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði. Á að segja því fólki sem ráðið hefur verið til starfa upp síðar? Er þetta einhvers konar biðlaunapóstur? Á að hækka laun gífurlega hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði? Hvaða varasjóður er þetta? Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. upplýsi okkur um það í umræðunni.

Herra forseti. Þegar ríkisstjórnin lagði sín sólskinsfjárlög fram, þá sögðum við að þau fjárlög vörpuðu dimmum skuggum og það eru bakhliðar á þessum fjárlögum. Það hefur komið fram að uppsveiflan er fyrst og fremst vegna aukinnar einkaneyslu sem er mikið til fjármögnuð með lánum. Skuldir heimilanna hafa aldrei verið hærri. Ég minnist þess hversu mjög var hrópað upp hér og gagnrýnt þegar skuldir heimilanna voru að aukast á samdráttartímanum á síðasta kjörtímabili. Skuldir heimilanna aukast enn en ég heyri engan áhyggjutón frá þeim sem nú sitja við stjórnvölinn og höfðu hátt þá.

Gerð hefur verið skýrsla um efnahag einstæðra foreldra og það kemur í ljós að þeir skulda um 54% meira en þeir eiga, meðan tölurnar eru 18% fyrir hjón. Þeir skulda 54% meira en þeir eiga. Þetta segir nokkuð um stöðu einstæðra foreldra og það eru þeir sem hafa fengið inni í félagslega húsnæðiskerfinu. Það eru þeir sem hafa fengið 100% lánin og það eru þeir sem þurfa á leiguíbúðum að halda núna.

Það hefur komið fram hversu ytri skilyrði hafa verið hagstæð vegna verðlags á sjávarafurðum og að við búum við lægsta olíuverð í 12 ár. Við erum að gagnrýna það hvernig ríkisstjórnin nýtir þessi ytri skilyrði. Það hefur líka komið fram að sl. þrjú ár högnuðust fyrirtækin í landinu um 100 milljarða kr. Þá var tekjuskattur þeirra 16 milljarðar af 100 milljörðum. Leiki sér hver og einn að því létta prósentudæmi. Á sama tíma greiddu einstaklingar 80 milljarða í tekjuskatt eða fimm sinnum meira en fyrirtækin.

Það hefur líka komið fram að ríkissjóður tekur inn um 16 milljarða af 40 milljarða viðskiptahalla. Þetta er umhverfið, herra forseti, og ríkisstjórnin spornar gegn öllum þeim velferðarúrræðum sem við höfum verið að ræða á þessu hausti og gerir ekkert með. Þetta er staðan. Og eftir afgreiðslu fjárlaga munu menn fara héðan og berja sér á brjóst og þá ætla ég að leggja til að hver og einn ræði svolítið við sinn innri mann um það hvernig hann hefur staðið að málum og fyrir hverja hann er að vinna í stjórnarflokki eða í ríkisstjórn.

Herra forseti. Ég ætla að lokum að mæla fyrir brtt. við fjárlögin. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hana. Hún kom líka fram í máli Svavars Gestssonar sem er meðflutningsmaður minn að þessari brtt. ásamt Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Það hefur komið fram að við viljum ekki skólagjöld. Tekist var mjög harkalega á um það á síðasta kjörtímabili. Við höfum fallist á ákveðnar greiðslur, svo sem til starfsemi nemendafélaga og þau innritunargjöld sem sátt var um áður en það varð vilji ríkisstjórnar að setja þau sem tekjur inn í fjárlögin sem breytti þar með eðli þessa fjárlagaliðar og þar eftir urðu engin tök á að fylgjast með því hvað færi til nemendafélaga, hvað væru innritunargjöld og hvað væru bein skólagjöld. Við viljum lækka þennan lið um 150 millj. kr.

Herra forseti. Ég vil líka nefna brtt. sem flutt er af Sighvati Björgvinssyni, Margréti Frímannsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Hún er um hækkun á lið sem heitir: Ný meðferðarúrræði vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Það kom engin ný fjárveiting vegna hækkunar forræðisaldurs sem festur var í lög fyrir ári. Við vissum að einhver fjárhæð ætti að koma til að byggja upp ný úrræði vegna tveggja nýrra aldurshópa. Tillaga ríkisstjórnar er að til þessa liðar fari 30 millj. Ég man ekki betur en að fram hafi komið í félmn. að 5 millj. skorti þegar á vegna hins nýja heimilis sem verið er að opna núna í desember. Að 5 millj. af þessum 30 fari þegar til heimilis sem núna er verið að opna og var í raun einn af hinum fáu góðu gjörningum þessa fjárlagaárs. Upphæðin til nýrra úrræða lækkar þannig strax niður í 25 millj. Ég veit að settar eru hérna inn 4 millj. til Virkisins og ég fagna því. Ég styð þá tillögu og mér finnst hún til sóma. Það fara líka 8 millj. til Krossgatna en, herra forseti, ég skil ekki hvers vegna sú fjárhæð er sett undir Barnaverndarstofu vegna þess að mér vitanlega hafa Krossgötur ekki verið með börn eða unglinga í meðferð heldur eldri einstaklinga.

Við viljum, og um það er tillagan, hækka þennan lið um aðrar 30 millj. og teljum að það sé aðgerð sem ríkisstjórnin eigi að standa að. Stundum er tekist á við vanda þegar hann kemur óvænt upp. Það gerði ríkisstjórnin á fundi sínum daginn eftir öfluga utandagskrárumræðu okkar um eiturlyfjavandann þegar hún á fundi sínum veitti sérstakt framlag vegna refafóðurs, 50 millj. ef ég man rétt. Mér finnst það mjög gott mál. Þetta snýr að ákveðinni atvinnugrein. Menn eru fljótir að bregðast við sumu en bregðast mjög seint við öðru og ég set það ofar öllum öðrum verkefnum ríkisstjórnar að bjarga okkar ungviði.

Herra forseti. Minni hluti fjárln. hefur flutt nokkrar brtt., m.a. tillögu um að framlag renni óskipt í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það munum við í stjórnarandstöðu styðja. Auk þess vísa ég til þess að hér liggja fyrir nokkrar brtt., svo sem um sértekjur heilsugæslustöðva og framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem er stórt og pólitískt mál sem við viljum gjarnan að sé tekið öðruvísi á.

Herra forseti. Ég hef í megindráttum lýst viðhorfum mínum til stöðunnar í fjárlögum íslenska ríkisins eins og hún birtist okkur við 2. umr. og ég gef því miður þessari ríkisstjórn ekki þá háu einkunn sem hún hefði kosið.