Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 12:17:09 (2178)

1998-12-12 12:17:09# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég held að engum sem kemur að fjárlagagerð blandist hugur um að það er ekki síður vandasamt verk á tímum góðæris en á tímum samdráttar. Þegar menn horfa á tekjuaukann eykst sókn í fjármuni til nýrra verka og góðra.

Höfuðmáli skiptir að við höldum útgjöldunum innan þess tekjuramma sem við höfum sett okkur og látum ekki það ekki bregðast. Við verðum að hafa í huga að á undangengnum erfiðleikatímum hefur ríkissjóður verið rekinn með halla og við þurfum að greiða niður þær skuldir sem þá söfnuðust upp. Þetta skiptir líka miklu máli í samhengi efnahagsstjórnar dagsins í dag. Það að ríkissjóður greiðir skuldir dregur úr þenslu á lánsfjármarkaði og gefur öðrum svigrúm til að taka lán og fjárfesta í atvinnulífinu.

Það sem einnig skiptir okkur miklu máli er að í fjárlögunum aukum við ekki skuldbindingar á komandi kynslóðir. Við rekum ekki ríkissjóð með halla þannig að þeir sem yngri eru þurfi að greiða þær skuldir. Fjárlagafrv. sem hér um ræðir er lagt fram með afgangi á greiðslugrunni, hinum gamla grunni sem við notum til viðmiðunar. Jafnframt efast ég um að mörg fjárlagafrumvörp hafi áður verið lögð fram með greiðsluafgangi á rekstrargrunni. Það segir það sem segja þarf um að ríkisfjármálin eru ekki að leggja bagga á komandi kynslóðir.

Það viðfangsefni sem einna erfiðast hefur verið í fjárlagavinnunni nú í haust eru aukin launagjöld ríkissjóðs. Þeir samningar sem gerðir hafa verið á undanförnum missirum hafa haft í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Þetta kemur fram í auknum lífeyrisskuldbindingum eins og fram hefur komið á hv. Alþingi og eins í auknum launagjöldum. Því fer víðs fjarri að ríkisstarfsmenn geti haldið því fram að þeir hafi ekki fengið skerf af góðærinu. Laun þeirra hafa hækkað umtalsvert og ástæðulaust að gagnrýna það. Sennilega var það óumflýjanlegt enda komin skekkja í samanburðinn sem þar hefur verið milli ríkisins og hins almenna markaðar. Aðferðin var kannski ekki sú sem best var á kosið. Óskandi væri að þeir sem að samningunum standa næðu að finna skárri leiðir til að leysa úr þessum málum en raunin varð á þegar uppsagnir voru notaðar til að knýja fram kröfugerð.

Þetta vandamál kemur sérstaklega fram í menntakerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Í þessum tveimur málaflokkum eru mestu launaútgjöldin. Þar af leiðir að menn þurfa að skoða fjármögnun á þeim stofnunum sem falla undir þessa málaflokka. Farið hefur verið út í mikla vinnu á undanförnum árum við gerð reiknilíkana hjá framhaldsskólunum. Nú hafa þau verið keyrð í eitt skólaár að segja má. Í tilefni samningagerðarinnar er rétt að skoða þau mál betur, sjá hvernig þau hafa gengið upp eða hvort rétt sé að lagfæra þar eitthvað. Vandinn er þó enn meiri í heilbrigðiskerfinu. Þar hefur verið um mikinn vanda að ræða á undanförnum árum, viðvarandi vanda. Þeim sem að þessum málum starfa má vera ljóst að þar gætu útgjöldin verið endalaus. Það er nánast ekki hægt að setja fyrir fram ákveðin mörk um hvar setja eigi peninga í heilbrigðiskerfið. Við þurfum að leita leiða til þess að fjármagn sem ákveðið er til stofnananna sé í réttu samhengi við þá þörf sem um er að ræða. Þetta hefur ekki gengið sem skyldi á undanförnum missirum. Við þurfum að leita annarra leiða.

Ég held að við þurfum að gera samninga við stofnanirnar um þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita samfélaginu á þessu sviði. Þannig sé þjónustan sem stofnunin á að veita ákveðin fyrir fram og fyrir fram ákveðið hversu mikið fé eigi að veita til að fjármagna þessa þjónustu. Í slíkum samningum verður að gera ráð fyrir að upp geti komið eitthvað sem kalli á meiri þjónustu og þá sé fyrir fram ákveðið hvernig afmarka eigi fjármuni til þeirrar viðbótarþjónustu. Sjálfsagt yrði að taka tillit til þess að þar væri um jaðarkostnað að ræða og fjármögnun tæki mið af því. Þannig væri vitað frá upphafi hvernig standa ætti að því að fjármagna þörf fyrir aukna þjónustu. Það mætti hugsa sér að byggja fjármögnunaraðferðirnar annars vegar á föstum grunni og hins vegar breytilegum grunni, þar sem þjónustumagnið verði ekki ákveðið svo glöggt fyrir fram. Ákveðinn hluti fjárveitingarinnar væri byggður á föstum útgjöldum stofnunarinnar en annar hluti á því breytilegri þörf fyrir þjónustu sem menn sjá fyrir sér að geti orðið.

Svona breytingar taka auðvitað tíma en við verðum að gefa okkur þann tíma sem til þarf. Ef við getum ekki haldið utan um þennan þátt ríkisútgjaldanna þá mun hann aukast áfram án þess að við höfum nokkra stjórn á honum. Þá munu þeir tekjurammar sem við setjum okkur bresta og það mun verða vont fyrir okkur öll.

Ég hef ekki hugsað mér að fara yfir allar brtt. meiri hluta nefndarinnar eða fjalla um alla málaflokkana í því samhengi. Það hefur verið gert áður af fulltrúum meiri hlutans. Ég kemst þó ekki hjá því að nefna einn málaflokk. Það eru málefni fatlaðra. Ég tel að þar þurfi að taka til hendinni. Mörg undanfarin ár hafa fjárveitingar ekki verið í samræmi við þörfina sem þar er fyrir hendi eða í samræmi við lagarammann sem við höfum sett okkur um þá þjónustu sem ber að veita. Þetta er hins vegar ekki nýtt vandamál og ástæðulaust fyrir hv. þm. sem hér stíga í stól að gera því skóna að þetta sé vandamál sem skapast hafi í tíð núverandi ríkisstjórnar eða núv. hæstv. félmrh. Þeir ráðherrar sem lengst hafa setið í þessu ráðuneyti á undanförnum árum og jafnvel einum og hálfum áratug bera mesta ábyrgð á ástandinu. Eins og allir vita hafa einir þrír ráðherrar Alþfl. setið í því hv. ráðuneyti. En við þurfum að taka til hendinni í þessum málaflokki og það þurfum við að gera án tillits til þess hvort eða hvenær flytja eigi málaflokkinn til sveitarfélaganna. Við þurfum að gera það í þessum fjárlögum. Til þess höfum við enn tíma í hv. fjárln.

Það sem skiptir okkur öll mestu máli er að viðhalda stöðugleikanum. Ég held að öllum megi vera ljóst að engin tekjubót verður af því að leiða inn í ríkisstjórnina eða ráðuneytin þann glundroða sem nú ríkir á vinstri vængnum eða þá skattahækkunarstefnu sem vinstri menn reka í Reykjavíkurborg. Það er ótrúlegt að á þessum síðustu tímum skuli sagan endurtaka sig. Það er alltaf sami glundroðinn á vinstri vængnum, sama hversu mikið vinstri menn reyna að sameinast, það tekst aldrei.

Sameiningin sem svo mikið hefur verið talað um síðustu missiri er ekkert annað en uppstokkun. Nýir flokkar með nýjum nöfnum koma til sögunnar en þar eru flestir þeir sömu innan borðs. Það hefur einungis verið skipað til sætis á örlítið annan hátt.

Þegar vinstri mennirnir lenda í erfiðleikum með fjármálin, eins og þeir gera undantekningalaust, eins og sjá má á vinstri meiri hlutanum í Reykjavíkurborg, þá er eina úrræðið að hækka skattana, að hækka útsvarið og taka til baka skattalækkun ríkisstjórnarinnar sem koma mun til framkvæmda um næstu áramót. Það er hluti af skattalækkunaráætlun ríkisstjórnarinnar sem við höfum kynnst á undanförnum missirum. Það sem mestu máli skiptir í þessum fjárlögum er að við höldum stöðugleikanum, greiðum og lækkum skuldir ríkissjóðs og aukum ekki skuldbindingar á komandi kynslóðir.