Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 12:28:48 (2179)

1998-12-12 12:28:48# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[12:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum að þrír ráðherrar Alþfl. sátu í félmrn. um átta ára skeið á undan þessari ríkisstjórn. Jafnframt er rétt að á þeim tíma báru þeir ábyrgð á málaflokki fatlaðra. Eins er rétt að á þeim tíma hefðu þeir örugglega allir viljað gera enn þá betur í málaflokknum. Á þeim erfiða tíma var, til viðbótar við tímamótalög um málefni fatlaðra sem færðu málaflokkinn inn í nýja tíma og sköpuðu fötluðum einstaklingum lagaskjól og ný úrræði, t.d. stoðþjónustu, staðinn vörður um Framkvæmdasjóðinn, erfðafjárskatturinn rann óskiptur í hann og reynt var að byggja upp eins og unnt var. Það var einn af fáum þáttum sem stjórnarflokkarnir sameinuðust þá um að verja alveg út í ystu æsar þrátt fyrir að á þeim tíma hafi menn dregið úr og skorið niður.

Ég veit ekki betur en bæði Alþfl. og Sjálfstfl. hafi náð, þrátt fyrir erfiða tíma, að standa vörð um þennan málaflokk og gert ótrúlega mikið í uppbyggingunni miðað við aðstæður. Ef sá sem skoðar uppbygginguna fram að 1987 og síðan frá 1987--1995, er sanngjarn þá mundi hann segja: Það var ótrúlegt hvað þið gátuð þó gert.