Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:12:27 (2189)

1998-12-12 13:12:27# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:12]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get vel skilið að í ljósi þess mikla vanda sem hefur verið við að etja í heilbrigðiskerfinu að þeir hafi fölnað í heilbrrn. við að sjá þær tölur sem þarna er um að ræða en enn og aftur erum við að tala um framtíðina og að skoða hvað best verður að gera í framtíðinni.

Eins og ég nefndi áðan hef ég ekki verið fylgjandi sameiningu Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það á alveg eftir að sannfæra mig um að sú sameining eins og þær stofnanir eru núna sé rétt leið, m.a. vegna þess hvernig þær eru byggðar og hvernig samsetningin er en ég efast ekki um að hægt væri að ná fram ákveðinni hagkvæmni.

Hins vegar verðum við að horfa til framtíðar, vitandi það að vinnandi fólki mun fækka í framtíðinni og hinum eldri mun fjölga. Gríðarleg þörf verður fyrir bæði heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu og við verður að spyrja okkur hvernig við ætlum að standa að þessu. Þá hljótum við líka að kanna hvernig málum verði best komið fyrir í framtíðinni í ljósi þess hvernig við ætlum að reka samfélag okkar og fjármagna þá velferðarþjónustu sem við viljum hafa hér. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er framtíðarmál en ég held að það þurfi virkilega að fara að skoða þetta.