Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 14:36:21 (2196)

1998-12-12 14:36:21# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum á öðrum degi frv. til fjárlaga 1999 og er nú heldur bjartara yfir þingsölum að því er varðar viðveru á þessum degi en þegar hv. formaður fjárln. hóf umræðuna í gær. Það er alltént hluti af fjárln. viðstaddur, fleiri en í gær og nokkrir þingmenn að auki og það er auðvitað það sem þyrfti að vera almennt við þessa umræðu. Fjárlagagerð er alltaf mjög mikilvægur þáttur í efnahagsmálum hverrar þjóðar og snertir allt samfélagið og því er umræða eins og umræða um fjárlagafrv. mjög þýðingarmikil. Það er mjög eðlilegt að komið sé að ýmsum málum, ýmsum þáttum efnahagsmála og stefnumálum ríkisstjórnar í tengslum við fjárlagaumræðu eins og hv. síðasti ræðumaður gerði í máli sínu. Þær tölur sem má lesa um í fjárlagafrv. fjalla ekki fyrst og fremst um ríkisfjármálin í þröngri merkingu þótt þær samanlagðar myndi niðurstöðu og við séum að gera brtt. við einstaka þætti.

Það má drepa á margt í þessu sambandi og alveg yfir í íslenskt mál ef svo ber undir. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma, virðulegur forseti, en mér finnst að þess gæti svolítið í tengslum við umræðu um efnahagsmál að íslenskan sé farin að láta undan. Það er alþekkt með verð og verðið sem er orðið fleirtöluorð í munni margra hér á landi, sem er alveg nýtt fyrirbæri, annar hver maður sem ber sér það í munn að hafa verð í fleirtölu. Þetta heyrðist ekki til skamms tíma. Í umræðunni fyrr í dag var rætt að hagvöxturinn væri lægri hér en í nágrannaþjóðum. Það finnst mér orðið dálítið sérkennilegt og hér ræddu menn um veikleika í fleirtölu og styrkleika í fleirtölu. Það gildir kannski frekar um veikleikana að hægt sé að fleirtölukenna þá en styrkleika hef ég nú ekki heyrt notað í íslensku máli sem fleirtöluorð. Þetta nefni ég bara í tengslum við þessa umræðu og vegna þess að í hagfræðimáli finnst mér íslenskan vera farin að láta óþægilega mikið undan enskum máláhrifum og tískufyrirbærum en ég ætla ekki að orðlengja það. Ég tek fram að sjálfur þarf ég alltaf að minna mig á í sambandi við íslenskt mál og tel að ég sé þar engin sérstök fyrirmynd en ég held það sé nauðsynlegt fyrir okkur almennt í þinginu að gefa gaum að þessu, að reyna að vanda mál okkar.

Mig langaði, virðulegur forseti, í upphafi máls míns, að drepa á það sem ég tel vera mikinn ljóð á uppsetningu fjárlaganna og undirbúning fjárlaganna almennt séð og það er hve lítið er gert af því að nota fjárlagagerðina af hálfu ríkjandi stjórnar til að varpa ljósi á stefnu viðkomandi ríkisstjórnar í breiðu samhengi. Vissulega vottar fyrir þessu í greinargerð en mjög mikið skortir á að mínu mati að framlagning fjárlagafrv. og undirbúningur þess lúti að því markmiði að gera sem ljósasta fyrir þingi og þjóð stefnu í efnahagsmálum og í ríkisfjármálum í samhengi efnahagsmálanna og ýmissa fleiri málaþátta sem taka ber ríkulegt tillit til. Þá er ég með í huga þætti eins og umhverfismálin, svo dæmi sé tekið, en það er engin tilviljun að ég nefni það vegna þess að það er einn sá þáttur sem þarf að vera samtengdur við efnahagsmálin í mjög nánu og ríku samhengi. Ef menn meina eitthvað með tali um sjálfbæra þróun ná menn ekki neinum tökum á stefnu um sjálfbæra þróun nema umhverfishugsunin sé samofin hugsun um efnahagssviðið. Þetta verður að fylgjast að sem hlið á sama máli eða sama teningi. Þetta þarf að vera samofið og á það skortir sannarlega mjög mikið bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi. Ég hef leyft mér í nál., sem minni hluti umhvn. á fjárlagafrv. og sérstaklega þætti umhverfismálanna, að nefna þetta enn og aftur. Ég hef gert það á undanförnum árum og minnt á að menn þyrftu að nota fjárlagagerðina og fjárlagafrv. sem tæki til að varpa ljósi á hvert stefnir í heild í samhengi efnahagsmála, ríkisfjármála og einstaka málaflokka, stórra málaflokka sem fjárlagafrv. saman stendur af. Þarna erum við langt á eftir nágrannaþjóðum. Menn þurfa ekki annað en fara yfir fjárlagagerð annars staðar á Norðurlöndunum. Svíar munu vera komnir hvað lengst á þessu sviði, Norðmenn eru komnir langt þannig að fyrir áratug var t.d. byrjað að birta ,,græna bók`` sem fylgiskjal með norska fjárlagafrv. til þess að draga saman hver er stefnan í umhverfismálum. Í greinargerð norska fjárlagafrumvarpsins --- ég hef flett því oftar en fjárlagafrumvörpum annarra Norðurlanda --- er að finna mjög greinargott yfirlit yfir stefnu ekki bara næsta árs heldur næstu ára eins og sú ríkisstjórn sem ábyrgð ber vill leggja hana fyrir, fram í tímann. Ég held við þurfum nauðsynlega á því að halda hér á Íslandi að bæta þarna úr.

Mér fannst margt ágætt í framsöguræðu hv. formanns fjárln. Það voru atrennur að ýmsum þáttum. Þó var minna en stundum áður gert af því að víkja að einstökum málaflokkum í samhengi atvinnu og efnahagsmála. Ég man ekki hvort það var í fyrra eða hittiðfyrra, þá var t.d. allfyrirferðarmikill þáttur um stóriðjuna. Nú hefur það verið dregið mjög niður í þessari framsöguræðu og ég er ekki að lasta það. Mig langar að víkja aðeins að því sem segir í framsöguræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar á bls. 8 í því handriti sem ég fékk af ræðu hans. Þar segir, með leyfi forseta, og ég vil vekja athygli á því:

[14:45]

,,Grundvöllur hins svokallaða ,,góðæris`` í efnahagsmálum er sá að sjávarútvegurinn hefur verið að styrkja stöðu sína, og ávinningurinn af því deilist til ríkissjóðs og út um allt þjóðarbúið. Samhliða hafa ýmsar aðrar greinar atvinnulífsins svo sem hugbúnaðargerð, ferðaþjónusta og orkufrekur iðnaður lagt meira til þjóðarbúsins en áður.``

Þarna finnst mér koma fram réttmæt framsetning í aðalatriðum. Ekki er verið að hampa t.d. stóriðjunni eins og í ræðum sumra annarra hv. þm. úr stjórnarliði sem hafa talað. Það er viðurkennt að grundvöllur hins svokallaða ,,góðæris`` --- það finnst mér vera skynsamlegt eins og það er sagt í framsöguræðunni --- er að sjávarútvegurinn hefur verið að styrkja stöðu sína og ávinningurinn, eins og við þekkjum, deilist út.

Hv. framsögumaður fjárln. segir einnig að farsælast sé að sem flestar atvinnugreinar hafi möguleika til framþróunar. Hann segir orðrétt:

,,Það er afar brýnt að hafa þetta ríkt í huga í þeirri umræðu sem fer nú fram um framþróun í atvinnumálum, þar sem talið er óæskilegt að atvinnugreinar eins og orkufrekur iðnaður vaxi, en framþróun eigi að byggja framar öðru á ferðaþjónustu og hugbúnaðargerð, auk sjávarútvegsins.``

Þarna þarf kannski að lesa á milli línanna til að átta sig á hugsuninni. Það er e.t.v. verið að lyfta aðeins þarna orkufrekum iðnaði meira en ég hefði talið rétt og réttmætt en það er þó ekki málað í þeim litum sem fram komu í framsöguræðu fyrir fjárlagafrv., ég held í hittiðfyrra frekar en í fyrra, og ég gerði þá að umtalsefni. Það er því meira jafnvægi í því. En ég hefði kosið að sjálft frv. og greinargerð frv. endurspeglaði hugsun ríkisstjórnar á breiðu sviði fram í tímann þannig að við ættum þess kost að nota fjárlagaumræðuna sem það tæki sem hún þyrfti að vera til glöggvunar bæði fyrir þing og þjóð.

Mig langar að vekja athygli á öðrum þætti úr framsöguræðu hv. þm., hv. formanns fjárln., sem er í handriti á bls. 11 og 12. Það er málaflokkur sem hv. þm. vék að og ég leyfi mér að vitna hér til, með leyfi forseta:

,,Annan málaflokk undir mennta- og menningarmálum vil ég gera sérstaklega að umræðuefni. Það eru safnamál í víðum skilningi og verndun menningararfsins sem felst í gömlum byggingum. Þróun í safnamálum hefur verið ör undanfarin ár, og hafa söfn af hinu margvíslegasta tagi komist á legg. Ör fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur orðið til þess að litið er til safnauppbyggingar í tengslum við ferðaþjónustu. Starfsemi af þessu tagi hefur víða orðið aðdráttarafl. Það má nefna Vesturfararsetrið á Hofsósi og Sögusetrið á Hvolsvelli sem ljós dæmi um þetta.

Fjárlaganefnd hefur fundið það vel í starfi sínu að það skortir heildarlöggjöf um safnamál í landinu miðað við þær breyttu aðstæður sem uppi eru. Það skortir fastmótaðar reglur um þátttöku ríkissjóðs í þessari starfsemi. Ég fullyrði að það er pólitískur vilji til þess að ríkisvaldið komi að þessum málum ásamt heimamönnum. Hins vegar er nauðsyn að um þessi mál gildi reglur sem mismuna ekki þeim aðilum sem leita eftir stuðningi.``

Síðan er vikið að húsafriðunarsjóði og að til standi að hækka lið sem tilheyrir byggðasöfnum og vakin er athygli á erfiðleikum varðandi viðhald opinberra bygginga, að þar sé ónóg að gert.

Ég er að vitna hér, virðulegur forseti, í þennan kafla úr ræðu formanns fjárln. vegna þess að ég tek í raun heils hugar undir það sem þarna er verið að segja. Ég tel að verið sé að vekja athygli á málaflokki þar sem við þurfum taka betur á og þar sem skortir sýnilega skýrari leikreglur í þeim málum. Ég vona sannarlega að þingið og stjórnvöld taki betur á þessu máli en verið hefur. Við búum svo vel að þessu í sambandi við fjárln. að bæði formaður fjárln. og varaformaður hafa ríkan skilning á þessum málaþætti eins og mörgu öðru. Það er sannarlega vel og ég treysti þeim til þess að spyrna í í þessu sambandi enn frekar en tekist hefur vegna þess að við erum með stórt menningarmál á ferðinni sem kemur víða við.

Af því að þarna voru nefnd safnamál er ég með eina brtt. sem ég leyfi mér að nefna í þessu samhengi. Það er í sambandi við, ekki byggðasöfn eða þjóðminjasöfn í venjulegum skilningi, heldur náttúrugripasöfn. Mér finnst skorta á að leikreglurnar séu einnig sæmilega skýrar varðandi náttúrugripasöfnin. Það er eitt safn sem hefur verið tekið sérstaklega og veitt nokkur fyrirgreiðsla undanfarin ár sem er Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum. Ég dreg engan veginn í efa að það á fullan rétt á sér og þar er hin merkasta stofnun á ferðinni en önnur náttúrugripasöfn í landinu hafa ekkert aðgengi að fjármunum frá ríkinu fyrir utan það safn sem er rekið í höfuðborginni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og þá ríkisrekið. Þetta er dæmi um skort á leikreglum. Til að leiðrétta það hef ég leyft mér, og við í þingflokki óháðra, að leggja til að taka inn lið sem væri til þess að mismuna ekki eins og gert er, að a.m.k. önnur söfn eigi rétt á að sækja um styrki og leita eftir fjármunum frá ríkinu, náttúrugripasöfn sem eru allvíða um land.

Þetta var hliðarspor út úr þessu stærra samhengi til að stytta sér leið í sambandi við þessa brtt. því að ég ætlaði að víkja aðeins að öðrum þáttum. Ég nefndi í andsvari við hv. þm. Jón Kristjánsson við upphaf umræðunnar orkumálin og húshitunarkostnaðinn og ég ætla ekki að lengja þá umræðu. En ég ítreka að óhjákvæmilegt er að milli 2. og 3. umr. verði það mál skoðað enda skildi ég formann fjárln. svo að litið yrði á það mál. Það birtist okkur þannig í fyrsta lagi að ríkisstjórnin hefur gefið býsna skýrar yfirlýsingar í tengslum við byggðaumræðu um að á þessum stóra þætti, sérstaklega rafhitunarkostnaðinum, verði tekið í samhengi byggðamálanna og væntanlega í samhengi fjárlagafrv. því að það er vettvangurinn. Við bíðum eftir því að sjá þess merki fyrir afgreiðslu fjárlaga að rafhitunarkostnaðurinn fái aðra meðferð en hér er í frv. og fyrir liggur. Ef menn ætla þarna að draga úr mismunun í raun þarf að hækka fjárveitingarnar eða búa þannig um hnútana að hægt sé að draga úr þessari mismunun. Ég minni á það sem kemur fram í greinargerð með sjálfu frv. að verulegur hluti af hækkun á yfirstandandi fjárlögum hefur bara farið til að koma til móts við hækkanir Landsvirkjunar. Stefna eigenda Landsvirkjunar, sem mörkuð var fyrir tveimur árum, gerði ráð fyrir því að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð til samræmis við raunkostnað til ársins 2001, held ég að ég muni --- ég er viss um að hæstv. forseti hefur einhverja hugmynd um þessa stefnumörkun og hv. varaformaður fjárln. frá fyrri tíð --- að raforkukostnaður Landsvirkjunar fylgi raunverði, hvort það er byggingarvísitala, ég held að það sé hún sem Landsvirkjun vill gjarnan miða við sem er kannski ekki óeðlilegt, fram til 2001 og þá sé hægt að vænta þess að raunkostnaðurinn fari lækkandi. Auðvitað verður að taka á móti þessari forskrift með því að bæta í, en það þarf meira til og ég ítreka að það verður mjög horft til þess hvernig verður tekið fyrir 3. umr. fjárlaga á þessum þætti.

Virðulegur forseti. Síðan ætla ég að koma að nokkrum brtt. sem ég flyt hér og margar hverjar snerta með einum eða öðrum hætti svið umhverfismála sem helgast sumpart af því að ég hef sinnt þeim málaflokki í þingnefnd en einnig haft áhuga á því almennt séð. Sá þingflokkur sem ég starfa í nú um stundir hefur tekið það mál upp og sá flokkur sem er í undirbúningi og hefur verið nefndur í umræðunni, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, hefur sett það fram sem sjónarmið sitt að umhverfismálin eigi að fá jafnstöðu, eigi að fá þann sess í meðferð stjórnmálanna sem þeim ber. Það þýðir, virðulegur forseti, að þau þurfa að vera alls staðar samtengd skoðun þegar efnahagsmál eru í mótun, vegna þess að það er í því samhengi sem hægt er að marka stefnu, marka stefnu til sjálfbærrar þróunar sem tekið er undir af flestum í orði að þurfi að gera.

Það er brtt. á þskj. 471 sem gerir ráð fyrir að til Þjóðhagsstofnunar renni 10 millj. kr. til viðbótar við það sem segir í fjárlagafrv. og brtt., því eitthvað var fært þar frá umhvrn. minnir mig, sem var bara tilfærsla vegna módelsmíðar --- að lagðar verði til 10 millj. kr. svo að Þjóðhagsstofnun geti lagt alvöruvinnu í það sem við köllum græna þjóðhagsreikninga.

Grænir þjóðhagsreikningar er ekki nýtt hugtak, það hefur verið í alþjóðaumræðunni um nokkurt árabil. Ég minnist þess að ég fékk á vettvangi Norðurlandaráðs samþykkta tillögu sem við bárum fram sem þar vorum í hópi, og fengum samþykkta sérstaka skoðun á því hvernig mætti auka og efla þá hugsun sem er að baki þess að taka upp græna þjóðhagsreikninga til viðbótar við hefðbundna þjóðhagsreikninga.

Ég gæti haft, virðulegur forseti, alllangt mál til að útskýra þá hugsun hér en ég ætla að reyna að hafa það hnitmiðað sem ég segi um það. Ég get vísað til aðgengilegra gagna um það efni. Veruleg umræða hefur farið fram nú undanfarið, m.a. með þátttöku eins af starfsmönnum fjmrn. þannig að hæstv. fjmrh. þarf ekki langt að leita. Ég er að vísa til framlags Tryggva Felixsonar hagfræðings nú undanfarið í ágætum greinum í Morgunblaðinu, síðast í dag, um þetta efni, þar sem viðkomandi átti sumpart orðastað við hæstv. iðnrh., og þetta tengist sérstaklega stóriðjumálunum og hvernig menn meta stóriðjumálin inn í þjóðhagslegt samhengi, hvaða væntingar eða hvaða ávöxtun menn reikna með að hafa út úr því dæmi. Þar munar miklu, þar telur hagfræðingurinn --- og ég tel með fullum rétti að menn séu með allt of háar tölur á ferðinni --- og hann færir fyrir því rök í greinum sem menn geta kynnt sér í Morgunblaðinu frá síðasta mánuði. Ég held að þessi umræða hafi hafist í öndverðum nóvembermánuði, kom reyndar upp kröftuglega á ráðstefnu í Háskóla Íslands 31. október þar sem virkjanir norðan Vatnajökuls og hugmyndir um stóriðju mikla á Austurlandi voru til umræðu. Þar flutti erindi Stefán Gíslason umhverfisverkfræðingur og fjallaði um efnahagslega þætti stóriðjustefnu og lagði áherslu á hvernig hægt væri að verðleggja náttúruna og meta þann umhverfiskostnað sem hlýst af virkjunum og fjallaði um það í máli sínu. Þetta hefur Tryggvi Felixson síðan útfært nánar í ágætum greinum og iðnrh. hæstv. gert athugasemdir við. Hann er með miklu hærra mat á þjóðhagslegum hagnaði. Landsframleiðslan segir ekki nema takmarkað í þessum efnum. Það er þjóðhagslegur ágóði sem menn þurfa að líta sérstaklega á þar og gera má ráð fyrir að arðurinn, ef útlendingar eiga í hlut sem fjárfestingaraðilar, flyst auðvitað úr landi að verulegu leyti. Það verður því að taka tillit til þess.

[15:00]

Á landsráðstefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flutti Ragnar Árnason hagfræðingur erindi um græna þjóðhagsreikninga og útfærði það prýðilega. Hann benti réttilega á að í hefðbundnum þjóðhagsreikningum endurspeglast ekki nema takmarkað af umsvifum í þjóðfélaginu og fjölmargir þættir liggja algerlega utan við slíkt mat mála. Taka þarf upp upp kerfisbundna græna þjóðhagsreikninga til viðbótar við hina hefðbundnu til að meta þetta og gera vandað mat á öllu meiri háttar umhverfisraski.

Virðulegur forseti. Með batnandi hag vex áhugi fólks á þeim gæðum sem tengjast umhverfinu. Það hefur verið að gerast í allt öðrum mæli en verið hefur hér á landi undanfarin ár og það er alveg nauðsynlegt að bregðast við þessu skipulega og helst vitrænt. Einn möguleikinn er að taka upp græna þjóðhagsreikninga af fullri alvöru og því tel ég að þessi tillaga eigi rétt á sér. Með henni væri hægt að ráða til Þjóðhagsstofnunar tvo sérfræðinga til starfa til að byrja með. Ég hef heyrt að kannski muni 10--15 mannárum vera varið í að búa til þessa hefðbundnu þjóðhagsreikninga og þó ekki væri nema þriðjungur af þeim mannafla að fjölda ársverka til sem bættist við til að taka upp hinn græna þátt væri því fjármagni áreiðanlega vel varið. Í rauninni verður að ætlast til þess að ríkisstjórn, sem hefur jafnmikið undir og núverandi ríkisstjórn í sambandi við inngrip í umhverfi landsins, taki af alvöru á þeim þáttum og er ég að hugsa sérstaklega um stóriðjuframkvæmdir.

Tímans vegna ætla ég að láta þetta nægja um þetta stóra svið, virðulegur forseti, og vísa til m.a. þeirra gagna sem ég hef komið að. Ég vísa líka til tillögu til þál. á þskj. 12, 12. mál þingsins, um sjálfbæra orkustefnu sem snertir þetta mál líka og það er fleira sem liggur fyrir þinginu og benda mætti á.

Þá kem ég hér að tveimur öðrum brtt. sem tengjast sviði umhverfismálanna náið. Það er brtt. á þskj. 479 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 7. gr. Við bætist nýr liður:

1.9 Að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af rafbílum og öðrum farartækjum sem nýta innlenda orku.``

Á öðru þskj. er að finna skylda tillögu, þ.e. þskj. 470 þar sem lagt er til að á svið samgrn., Ýmis verkefni, verði tekinn nýr liður ,,1.92 Rafknúin farartæki, til rannsókna og tilrauna`` 20 millj. kr.

Þetta varðar sama þáttinn og því nefni ég þessar tillögur samtímis. Það er svo, virðulegur forseti, að með því að ýta undir notkun vistvænna farartækja á Íslandi er hægt að slá margar flugur í einu höggi. Hægt er að draga úr mengun, bæði mengun sem veldur með beinum hætti angri, ólykt, ryk o.s.frv. en líka óbeint inn í alþjóðlegt samhengi þar sem er losun á koltvísýringi, CO2 sem við þurfum að vinna ötullega að að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. En jafnframt er hægt með vistvænum farartækjum, sérstaklega rafbílum, að draga úr hávaðamengun sem er sérstaklega tilfinnanleg í þéttbýli. Síðan er það sem ekki er síst í þessu efni að nýta innlendar orkulindir, að færa sig inn á það sem við köllum sjálfbæra orkustefnu, þ.e. að nýta innlendar orkulindir sem mest til að útrýma notkun innflutts eldsneytis til landsins. Bæta þjóðarhag með þeim hætti og draga úr mengun. Hér er um stórt verkefni að ræða. Sem dæmi má nefna að ef 50 þús. bílar færu á vistvæna orku, bílar sem ekið væri meðalvegalengd á ári, 15 þús. km, væri hægt að draga úr losun koltvísýrings um heil 10% í landinu. Það er þetta svigrúm sem menn fengu í Kyoto til að bæta við. Það munar um það og ég fullyrði að tími er kominn til þess að Reykvíkingar og aðrir á höfuðborgarsvæðinu noti rafbíla og önnur vistvæn farartæki sem gæfust því að margt annað kemur þarna upp í framtíðinni sem orkuform, vetni, metangas og einnig metan\-ol en rafbílarnir eru kannski það sem er nærtækast. Enginn sem er með tvo bíla í gangi í fjölskyldu ætti í rauninni að aka á öðru en vistvænu ökutæki, rafbíl, ef menn nota ekki reiðhjólið eða fæturna í ferðum sínum til að bæta umhverfi höfuðborgarinnar. Hér er um dæmigert samvinnuverkefni að ræða milli ríkis og sveitarfélaga á þessu stóra, þéttbýla svæði landsins. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. fjmrh. hefur fullan áhuga á máli af þessum toga og hann gæti gert þarna stórátak eða stuðlað að því ef menn skoðuðu þessa tillögu og það væri stillt saman við aðgerðir sem sveitarfélögin þurfa að standa fyrir. Hvað kostnað snertir eru nú öll gjöld tekin af rafbílum nema virðisaukaskatturinn. Af því sem ég hef athugað þessi mál undanfarið sýnist mér að til að það verði í raun ekki beinn fórnarkostnaður fyrir einstakling að kaupa sér slíkt ökutæki, rafbíl, þá þurfi menn að losna við virðisaukaskattinn til viðbótar við gjöldin sem hafa verið felld niður. Ég treysti hv. fjárln. í samvinnu við hæstv. fjmrh. að skoða af alvöru þessa tillögu sem er heimild inni í 7. gr. af fullri alvöru fyrir afgreiðslu fjárlaga.

Ég bendi á í þessu samhengi að áhugi á þessum málum er auðvitað í öllum flokkum. Nýlega hefur verið lögð fram tillaga um stefnumótun stofnana í eigu ríkisins varðandi vistvæn ökutæki frá hv. þm. úr Framsfl. Hjálmari Árnasyni og Magnúsi Stefánssyni, ágætis mál sem tengist þessu sviði. Varðandi tilraunir og þá tillögu um fjárveitingar er ég m.a. með það verkefni í huga að menn skoði af fullri alvöru að taka upp rafknúna lest milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar í staðinn fyrir að fara hugsanlega í tvöföldun á Reykjanesbraut. Við eigum ekki að ráðast í þá fjárfestingu áður en menn eru búnir að fara vandlega ofan í saumana á því hvort ekki er möguleiki á að taka upp rafbraut í þeirri miklu umferð sem þarna er á milli, ég veit að auðvitað er hægt að benda á ýmsa agnúa þegar kemur að því að menn koma á brautarstöðina hér í borginni, þá þurfa þeir sem stunda atvinnu hér í höfuðborginni að koma sér á vinnustaðinn, svo dæmi sé tekið. En þetta þarf að athuga og þarna er mikið að sækja varðandi losun á gróðurhúsalofttegundum. Ég hef lagt fram fsp. sem ég vænti svars við mjög fljótlega einmitt um þetta efni til að fá fram tölu um losun gróðurhúsalofts vegna umferðar á Reykjanesbraut þannig að menn geti skoðað það einnig í því samhengi. Ég treysti mönnum í hv. fjárln. til að skoða þessa tillögu. Mörg gögn sem varða vistvæn ökutæki liggja fyrir. Ég vísa á ágæta skýrslu frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur um stöðu þessara mála sem heitir: ,,Rafbílar og vistvæn ökutæki``. Skýrslan er afurð úr ferðalagi, sérstakri námsferð Þorsteins Sigurjónssonar og Jóns Björns Skúlasonar, gefin út í apríl 1998, og hægt er að líta til í sambandi við þetta. Auk þess er í greinargerð með nefndri þáltill. framsóknarþingmanna að finna ágætar upplýsingar sem snerta stöðu mála og ég spara mér orð með því að vísa í það.

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma að brtt. sem er á þskj. 470 og er um mál á umhverfissviði. Þar eru flm. ásamt mér hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson sem eru með mér í þingflokki óháðra. Þar er tillagan um rannsóknir og tilraunir á rafknúnum farartækjum. Ég hef þegar nefnt hana. Síðan eru þarna ýmis verkefni og þau öll snerta svið umhvrn. Ég hef nefnt tillöguna um náttúrugripasöfn á landsbyggðinni og þá tillögu um 5 millj. kr. fjárveitingu til að gefa öðrum söfnum jafnstöðu við t.d. það safn sem þegar fær 3 millj. í fjárveitingu, Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum. Síðan er sérstök tillaga um fjárstyrk til Félags um vernd hálendis Austurlands upp á 700 þús. kr. og ég vildi biðja hv. formann fjárln. aðeins að leggja við eyra. Tillagan um sérstakan fjárstyrk til Félags um vernd hálendis Austurlands tengist því að umhvn. hafði umsóknir til skoðunar á stuðningi við félagasamtök og í einstök verkefni. Meiri hlutinn afgreiddi tillögu varðandi þrjú félög og reyndar stóð öll nefndin heils hugar að því að mæla með framlagi til Náttúruverndarsamtaka Íslands og til Fuglaverndarfélags Íslands og til rannsóknar á þrávirkum klórkolefnissamböndum. Það mun hafa verið fært undir ýmis verkefni hjá umhvrn. en tillögunni varðandi styrk til Félags um verndun hálendis Austurlands var vísað til fjárln. Ég vil inna hv. formann fjárln. eftir afgreiðslu þessa máls vegna þess að þessir liðir eru ekki í sundurliðun á vegum nefndarinnar. Ég vona sannarlega að Félag um verndun hálendis Austurlands verði ekki afskipt í þessum efnum vegna þess verkefnis sem það er að sinna eins og Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélagið. Þarna er um hliðstæður að ræða og ég inni hv. formann fjárln. eftir því hvers megi vænta varðandi afgreiðslu þessa máls sem er ekki alveg fulljóst af framlögðum gögnum.

Hér er gerð tillaga um fjárveitingu vegna undirbúnings þjóðgarða á miðhálendinu. Það tengist þáltill. sem er til meðferðar í umhvn. þingsins. Sú hugsun að ná utan um það stóra verkefni að undirbúa stofnun þjóðgarða sem taki til jökla landsins og nánasta umhverfis gerir ráð fyrir svæði sem væri um fimmtungur landsins að flatarmáli ef framkvæmt væri og er í fullu samræmi við tillögu að skipulagi miðhálendisins samkvæmt mati Skipulagsstofnunar og sem gengur í engu gegn samþykktum sveitarstjórnarlögum eins og þau voru afgreidd í fyrra og mundi ef samþykkt yrði verða til þess að mínu mati, að allt önnur staða kæmi upp í umræðunni um hálendið. Það væri sáttarhönd af hálfu stjórnvalda að fella þarna stór svæði í samræmi við það skipulag sem fyrir liggur tillaga um varðandi miðhálendið, að fella það undir náttúruverndarlöggjöf. Ég treysti því að á þetta verði litið af velvilja, bæði þáltill. og þessa fjárveitingu til undirbúnings.

Hér er tillaga um verndunaráætlun fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli, sem er sams konar og fram kemur í umsókn Náttúruverndar ríkisins, fjárveiting til þess. Einnig er að finna tillögu um að tekið verði undir ósk Náttúruverndar ríkisins vegna breytingar á rekstri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulársgljúfrum, mjög brýnt mál að mati Náttúruverndar ríkisins, en sem þarf fjárveitingu til ef þessi breyting á að verða að veruleika. Um það er fjallað í áliti minni hluta umhvn. Sama gildir um verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum þar sem Náttúruvernd ríkisins bendir í raun á gífurlega fjárþörf til þess að geta staðið að eðlilegum aðgerðum á friðlýstum svæðum til verndar þeim. Ég er ekki að taka undir töluna 160 millj. eða þar um, sem nefnd er sem fjárþörfin hjá Náttúruvernd ríkisins, en legg til að menn reyni að ná utan um verkefnið með því að verja 20 millj. á fjárlögum næsta árs.

[15:15]

Svo er hér tillaga sem varðar Skipulagsstofnun sem ég held að allir ættu að gefa gaum að. Eins og fjárlagadæmið er sett upp núna er staðan sú að þar skortir algjörlega að horfst sé í augu við samningsbundin verkefni ríkis og sveitarfélaga varðandi gerð svæðisskipulags og aðalskipulags. Þessi samningsbundna upphæð er 20 millj. kr. sem ekkert er séð fyrir samkvæmt fjárlagafrv. og brtt. meiri hluta fjárln. Auk þess liggja fyrir óskir margra sveitarfélaga um að fylgja eftir skipulagslöggjöfinni með gerð svæðisskipulagsáætlana og aðalskipulagsgerðar upp á 50 milljónir og við leyfum okkur að taka þessa tillögu upp sem brtt. við fjárlagagerðina.

Við samþykktum vorið 1997 ný skipulagslög og ef einhver alvara er á ferðinni að fara að beita því sem tæki ber Alþingi Íslendinga að standa við þessa löggjöf með því að leggja til það fjármagn á móti sveitarfélögunum því að augljóst samhengi er þar á milli að ríkið komi til móts við sveitarfélögin inn í þessa vinnu með framlögum. Þetta er náttúruverndarmál, þetta er umhverfisverndarmál meira en flest annað. Það er í skipulaginu sem hlutirnir ráðast. Þar fær almenningur aðgengi almennt séð samkvæmt markaðri skipulagslöggjöf og hér er því afskaplega brýnt mál á ferðinni sem ég vona að verði tekið af velvilja og litið á. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að skoða eitthvað minna en lagt er til en tillagan er af okkur tillögumönnum miðuð við það sem Skipulagsstofnun hefur reifað sem nauðsyn og í rauninni lágmarksþörf ef vel ætti að vera.

Auk þess er gert ráð fyrir að orðið verði við óskum Veðurstofu Íslands vegna rannsókna vegna loftslagsbreytinga sem er það stórmál sem menn þekkja. Það er ekki stór upphæð, 4,2 milljónir, og til hafíssrannsókna 2 milljónir. Hvort tveggja tengist alþjóðlegu umhverfi, umhverfi Íslands líka, þar sem við þurfum að vera vel í stakk búin til þess að taka þátt í því alþjóðlega átaki sem um er að ræða og auðvitað leggja okkar til varðandi norðrið alveg sérstaklega. Þessar tillögur eru rökstuddar frekar í áliti mínu sem minni hluta umhvn.

Þá kem ég að síðustu tillögunni, virðulegur forseti, og reyni að stytta mál mitt. Það er á þskj. 472. Þar er gerð tillaga um tvennt, annars vegar að tekið verði inn í stofnkostnað framhaldsskóla, það er liður 02-318, framlag vegna framhaldsskóla í Austur-Skaftafellsýslu, hönnunar og undirbúnings, í samhengi þeirrar áætlunar sem fyrir liggur um það efni sem gengur undir vinnuheitinu Nýheimar. Þar er mjög merkileg tillögugerð á ferðinni um samþætta byggingu sem tekur til framhaldsskólans sem er í afleitri aðstöðu eins og margir þekkja væntanlega þannig að hver svo sem kemur þar inn áttar sig á því að við þetta verður ekki unað fyrir þá 100 nemendur eða svo sem þarna eru. Þessi frambúðarbygging gerir ráð fyrir engri margföldun á nemendafjölda en nokkurri aukningu miðað við hönnunarforsendur. Þarna er líka gert ráð fyrir Nýherjabúðum, sem svo eru nefndar, og upplýsingamiðstöð undir sama þaki. Auðvitað ekki fjármagnað af ríkinu í heild sinni heldur bara með mótframlagi samkvæmt samningi sem þarf að gera og sem er hluti af þessum undirbúningi. Þegar er ákveðið að þessi skóli rísi í þéttbýlinu á Höfn í Hornafirði en nú er framhaldsskólinn í Nesjum, sem svo heita, innan sama sveitarfélags sem er þó óhagræði. Það er komin alveg skýr stefna um það að skólinn rísi og þessir Nýheimar rísi á Höfn í Hornafirði. Ég held ég muni rétt að aðeins sé gert er ráð fyrir 1 millj. í þessu skyni og sem er auðvitað algerlega ónóg miðað við þær óskir sem fyrir liggja og þörfina heima fyrir.

Ég leyfi mér að nefna þetta inn í samhengi byggðamálanna, virðulegur forseti. Það er óvíða sem hægt er með árangri að taka á vanda byggðanna eins og í sambandi við verkefni af þessum toga á sviði menntamála, örvandi starfsemi sem snertir fyrirtæki og atvinnuuppbyggingu og upplýsingar. Hér er mjög góð hugsun á ferðinni, nýverið útfærð í greinargerð til menntmrn. um þessi áform og ég treysti mönnum til að taka jákvætt á þessu máli, það skiptir afar miklu.

Ég leyfi mér í þessu sambandi að beina einni fyrirspurn til hæstv. fjmrh., sem tengist framhaldsskólum, og það er staða hinna hefðbundnu menntaskóla, og þar er ég með í huga Menntaskólann á Egilsstöðum sem dæmi úr kjördæmi mínu. Hver er raunverulega staðan varðandi fjárfestingar, stofnkostnað, áframhaldandi stofnkostnað þessara skóla? Er það alveg skýrt? Spurt er af þeim sem bera þessar stofnanir fyrir brjósti og vísað er til þess að þarna eigi eiginlega sveitarfélögin að koma inn í samkvæmt almennri löggjöf um framhaldsskóla en ekki hefur náðst utan um það, a.m.k. ekki á Austurlandi það ég þekki til. Hver er staðan?

Hver er staðan varðandi menntaskólana í Reykjavík, hina hefðbundnu menntaskóla hér, varðandi frekari byggingar, varðandi stofnkostnað? Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti greint frá því hérna þannig að ég vaði ekki í villu um þá stöðu. Kannski má segja að hæstv. menntmrh. væri betur viðstaddur til að svara þessari spurningu en ég er viss um að hæstv. fjmrh. þekkir þetta mál ekki síður hvað varðar kostnaðarskipti.

Síðan er að lokum, virðulegur forseti, inn í samhengi safnamálanna sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni, tillaga um fjárveitingu vegna endurbyggingar pakkhússins á Höfn í Hornafirði, sem er atriði sem hv. formaður fjárln. þekkir og margir fleiri. Þarna hefur þegar verið gert verulegt átak, kostnaður við endurgerð þessa húss, sem er mjög skemmtilega lukkuð endurgerð, er þegar orðinn 12 millj. kr. Sveitarfélagið hefur lagt mestallt af því til og í tilefni af aldarafmæli byggðar á Höfn var starfsemi hafin í þessu húsi að viðstöddum forseta Íslands og mörgum fleiri. Það er lýst von um það af hálfu sveitarfélagsins, beiðni liggur fyrir um 4 milljónir inn í þetta dæmi þannig að unnt verði að ljúka því. Sú tillaga liggur hér fyrir.

Virðulegur forseti. Ég held ég sé búinn að reifa þær brtt. eða viðaukatillögur sem ég flyt ásamt fleirum. Ein hefur reyndar þegar verið nefnd, um Kvennasögusafnið, sem 1. flutningsmaður reifaði og ég er meðflutningsmaður að og þarf ekki að nefna frekar en hún gerði grein fyrir þeirri tillögu.

Ég vil að endingu segja, virðulegur forseti, að mér er auðvitað ljóst að menn eru að fást við ákveðinn ramma, ákveðinn vanda í sambandi við takmarkað fjármagn og skiptingu þess. Sumt af því sem verið er að reifa varðar mikil framtíðarmál og mér finnst að í sambandi við fjárlagagerðina, um leið og menn hljóta að gæta aðhalds í sambandi við það þurfi menn einnig að meta verkefni út frá því gildi til framtíðar litið og að þau leiði nú til þess að menn séu í betri stöðu síðar meir en ella ef ekki yrði orðið við umræddum fjárlagabeiðnum. Ég nefni þar að lokum sérstaklega umhverfismálin og þá þætti sem að þeim lúta, græna þjóðhagsreikninga, náttúruverndina og samgöngumálin í samhengi vistvænna orkugjafa. Þetta eru allt saman þættir sem snerta mikið framtíðarþróun í landinu.