Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:26:40 (2197)

1998-12-12 15:26:40# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. beindi til mín fyrirspurn varðandi skiptingu á safnlið sem umhvn. annaðist. Við í fjárln. fengum ábendingu um að rannsóknir á þrávirkum klórkolefnissamböndum í íslenskum fuglum væri betur komið undir lið í frv. sem heitir umhverfivöktun og færðum þá fjármuni þar inn merkta þessu verkefni og ákváðum að senda aðra liði óskipta til umhvrh. Ég hef tilkynnt honum vilja nefndarinnar og hvað út af stóð og það á að vera svigrúm til að mæta því þó að málið sé að sjálfsögðu formlega í höndum umhvrh. þegar búið er að vísa liðnum til hans. Ég vona að þetta svari fyrirspurn hans varðandi þetta.

Hv. þm. fannst ég vera farinn að linast í stóriðjumálunum. Ég nefndi þetta í ræðu minni vegna þess að mér finnst umræðan vera á villigötum. Það er t.d. verið að segja okkur Austfirðingum að velja verði á milli stóriðju og annarrar atvinnuuppbyggingar. Við viljum ekki hafa það þannig. Við viljum að allar atvinnugreinar þróist. Ég tel að enn þá sé lag til þess að auka orkufrekan iðnað í landinu þó að ég geri mér alveg grein fyrir takmörkunum þess. Ég er ekki í þeirra hópi sem vilja ganga á allt hálendið með jarðýtum og öðrum verkfærum. Það er misskilningur. En ég tel að enn sé svigrúm til að auka og það eigi ekki að koma í veg fyrir þróun annarra atvinnugreina ef þetta skýrir eitthvað frekar fyrir hv. þm.