Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:30:48 (2199)

1998-12-12 15:30:48# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði um skiptinguna. Fyrir hönd meiri hluta fjárln. skýrði ég umhvrh. frá þeim umsóknum sem komu til nefndarinnar. Ég gerði ekki upp á milli þeirra í viðtali mínu við hann. Ég tilkynnti einnig formanni umhvn. um þessa ákvörðun og málið er í höndum umhvrh. og ég vona að það fái farsælar lyktir.

Ég hef í rauninni engu við það að bæta sem ég sagði um stóriðjumálin. Ég er ekki þeirrar skoðunar, ég tek það fram, að afskrifa eigi frekari uppbyggingu stóriðju í landinu. Ég tel að hún geti verið einn þáttur í atvinnulífinu.

Ég get auðvitað flett upp á ræðu minni frá því fyrir tveimur árum. Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. á hana í skjalasafni sínu og efast ekki um að hún er á vísum stað því hann er þekktur fyrir að halda slíkum hlutum til haga. Vel má vera að það hafi verið bjartsýni í þeirri ræðu. Allmikið hefur verið byggt upp á þessu sviði en því miður hefur það nú verið allt saman í kringum höfuðborgina. Ég var ekkert óskaplega hrifinn af því á sínum tíma þó að ég féllist á það sem þátt í atvinnuuppbyggingu hér enda hefur það haft mikið að segja í efnahagslífi landsmanna. Ég er viss um að það hefur styrkt t.d. heimabyggð hv. 5. þm. Vesturl., að sú uppbygging fór fram á sínum tíma. Það má því vel vera að ég hafi tekið þá sterkt til orða um þetta en ég hef reynt að setja fram stefnu mína í málinu í fjárlagaræðunni og þessum fáu orðum hér.