Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:40:16 (2203)

1998-12-12 15:40:16# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Nokkur atriði þurfa leiðréttingar við úr staðhæfingum hv. þm. Ég hef ekki flutt tillögu um frestun á framkvæmdum við Reykjanesbraut. Ég hef vakið athygli á því, og gerði það á síðasta ári og ég held árið þar á undan, að það sé verðugt verkefni að skoða það áður en til framkvæmda kemur, áður en menn ráðast í framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar að þessi kostur sé metinn, að fram fari alvöruúttekt á því. Ekkert liggur fyrir --- ég bið þá hv. þm. að útvega mér þær skýrslur og úttektir sem liggi fyrir um þetta mál. Ég spurði hæstv. samgrh. í fyrra um þetta og hæstv. ráðherra vísaði í eitthvað sem nemendur uppi í háskóla hefðu gert fyrir nokkrum árum sem var ekki í því samhengi, ekkert alvörumat sem lá þar fyrir. Mér er ekki kunnugt um að úr þessu hafi verið bætt. Það er það sem ég er að biðja um ef líklegt er að hagkvæmt geti verið að reka rafbraut á vegalengd af þeim toga sem hér um ræðir, 45--50 km. (GÁS: Verður ekki að flytja Reykjavíkurflugvöll í leiðinni?) Kæmi til greina. Menn hafa verið að tala um flutning á Reykjavíkurflugvelli en mér skilst að ákvarðanir liggi fyrir um annað út af fyrir sig en ég er að tala um þetta í margþættu samhengi því að inn í svona mat þurfa auðvitað að koma mismunandi atriði, þar á meðal losun frá umferðinni. Ég get ekki skilið að það sé ekki sjálfsagt mál að fram fari mat á þessu sem gæti verið í þrepum, fyrst frv. sem leiddi í ljós hvort fara ætti lengra eða ekki. Ég tel að þeim fjármunum væri vel varið því menn þurfa að skoða líka þessi mál í samhengi þéttbýlisins, innan höfuðborgarsvæðisins í þrengri merkingu til að hafa augun opin til möguleika á því að draga úr mengun og bæta samgöngukerfið því það eru fjölmargir þættir sem eru jákvæðir ef hægt væri að fara út í umferð af þessum toga.