Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:42:42 (2204)

1998-12-12 15:42:42# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði reyndar ekki að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði flutt tillögu um þetta en hefði minnst á það í ræðu sinni áðan (HG: Og oft áður. ) og oft áður þannig að ég fer ekkert rangt með það að hans hugmyndir virðast vera þær að fara aðra leið en að tvöfalda Reykjanesbrautina. Ég fékk ekkert fram um það hvers vegna hv. þm. vill endilega fara að draga á langinn þær hugmyndir og í rauninni þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir í dag, að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar verði á næstu árum. Það er náttúrlega nokkuð ljóst að losun koldíoxíðs á þessari braut mun ekki aukast neitt verulega við það þótt hún verði tvöfölduð. Þetta er fyrst og fremst vegna spurningar um öryggi sem verið er að tala um að tvöfalda þessa leið. Það mun heldur ekki breyta neinu varðandi þessa braut þó svo að járnbraut yrði lögð þarna. Ég hygg að það mundi ekki breyta neinu varðandi akstur á þessari leið. Ég get ekki séð það a.m.k. nema eitthvað annað komi til. Þá er hugsanlegt, eins og kom fram í frammíkalli, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður og allt flug flutt suður á Keflavíkurflugvöll. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, þegar hv. þm. fór að fjalla um þetta hér, hvort það væri einhver stefna hjá hinum nýja umhverfisvæna græna flokki sem hefur hugsað sér að bjóða fram í öllum kjördæmum og hvort andstaða við tvöföldun Reykjanesbrautar sé þar á málefnaskránni.