Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:25:29 (2209)

1998-12-12 16:25:29# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er komin alveg glæný skýring á þessari öfugþróun í byggðamálum. Þetta er okkur alþýðuflokksmönnum að kenna. Þetta var býsna frumleg skýring. Þetta er okkur alþýðuflokksmönnum að kenna að fólksflótti er frá byggðum landsins og hingað til höfuðborgarsvæðisins. Menn geta lesið úr því það sem þeir vilja.

Ég veit ekki til þess að við alþýðuflokksmenn höfum mikið verið að trufla ykkur í himnasæng ríkisstjórnarheimilisins. Ég veit ekki betur en að ágætlega hafi farið á með framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum við að þróa sín mál og stefnumið sín. Niðurstaðan er bara þessi.

Ég sagði áðan að auðvitað væri það ekkert markmið út af fyrir sig, og ég var einmitt að segja að undarlegt væri á þeim tímum þegar sjálfstæðismenn og ríkisstjórnin öll er að tala um nauðsyn þess að draga úr opinberum afskiptum þá verður fjölgun upp á 2.500 ný störf í hinum opinbera geira. Það er býsna merkilegt. Og mér finnst það gagnrýnivert. En það sem ég benti einfaldlega á er að fjölgunin er öll á höfuðborgarsvæðinu en það eru hins vegar hlutir sem fólk ræður við. Í kjördæmi hv. þm. sem raunar er kjördæmi hæstv. heilbrrh. sömuleiðis er hreinlega fækkun á tveimur árum, 1995 og 1996, um 26 störf. Það er sú einkunn sem við blasir. Ég get ekkert átt við þetta, þetta er ekki mér að kenna. Þetta er bara svona. Þetta les maður úr tölunum sem eru á þessu blaði.

Auðvitað viljum við öll breyta þessu. En sannleikurinn er sá, og það er eitthvað sem menn verða að horfast í augu við: Hv. þingmenn hafa einfaldlega ekki ráðið við málið. Reynslan er bara svona, tölurnar standa fyrir sínu. Hinir virðulegu hv. þingmenn hafa ekki klárað verkið. Það þarf því nýja menn til að takast á við þetta vandamál. Hv. þingmenn kláruðu ekki það sem þeim var falið.