Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:33:57 (2215)

1998-12-12 16:33:57# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það mætti ætla að maður væri hér á vitlausum stað á vitlausum tíma. Það mætti ætla það að Alþfl. hafi stjórnað hér síðustu fjögur ár. Svör hv. þm. eru öll á þessa lund: Alþfl. þetta og Alþfl. hitt.

Hv. þm. er nú einu sinni formaður fjárln. í ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., hefur farið með stjórn mála í fjögur og þetta er niðurstaðan. Ég segi enn og aftur, herra forseti: Ég get ekkert að þessu gert, þetta er bara svona.

Hv. þm. reyndi að bera það á borð hér að ef samfylkingin mætti til leiks, sem hún gerir svo sannarlega, þá verði þetta nú verra. Ég sé ekki að þetta geti orðið miklu verra. Það verður ekki miklu verra en þessar tölur segja til um.

Hv. þm. segist þolanlega ánægður með að störfin 12.000 séu 9.500 þannig að ekki skakki nema 2.500. Hann segist vera þolanlega ánægður með að störfum hafi bókstaflega fækkað í hans eigin kjördæmi. Og hv. þm. er bara þolanlega ánægður, sæmilega sáttur við sig og sína. Það er ekki mikið um það að segja.