Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:51:20 (2219)

1998-12-12 16:51:20# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:51]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. 2. umr. fjárlaga fer nú senn að ljúka. Það má velta því upp, herra forseti, hversu mikilvæg þessi umræða er. Það sem við fjöllum hér um eru þær breytingar sem eiga sér stað á frv. til fjárlaga milli 1. og 2. umr. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust voru útgjöldin 179 milljarðar. Það er 10% hækkun frá fjárlögum ársins 1998. Þetta er umtalsverð hækkun og töluvert meiri en nemur verðlagsþróun og hagvexti í landinu. Á þessu ári varð bæði tekju- og útgjaldaaukning umfram áætlun. Það sem meiri hluti fjárln. gerir á milli 1. og 2. umr. endurspeglast í nál. þeirra og tillögum sem eru upp á tæpa 2 milljarða, 1,8 milljarða. Lagðar eru til breytingar á útgjöldum ríkisins sem nema einu prósentustigi frá fjárlagafrv. Í sjálfu sér, herra forseti, er ekki mikið um þessar tillögur að segja. Þær eru lítill hluti af fjárlagadæminu. Meginútlínur þess komu skýrt fram þegar frv. var lagt fram og stjórn og stjórnarandstaða skiptust á skoðunum við 1. umr. málsins.

Það sem ég vildi gera að umtalsefni, vegna þess að fjölmargir félagar mínir í stjórnarandstöðunni hafa tekið á einstökum liðum og farið vel yfir áherslur okkar í ríkisfjármálum, eru vinnubrögð við fjárlagagerðina. Þau hafa því miður ekki tekið breytingum á hinu háa Alþingi í samræmi við hina nýju löggjöf um fjárreiður ríkisins. Vitaskuld er frv. og afgreiðsla milli nefnda í samræmi við þau ágætu lög en við höfum því miður ekki enn breytt vinnubrögðum okkar við fjárlagaumfjöllun á hinu háa Alþingi. Í sjálfu sér er þetta marklítil umræða að hluta þar sem tekjuáætlun fjárlaga liggur ekki fyrir. Hún mun ekki liggja fyrir fyrr en á mánudag og ekki koma til umræðu fyrr en við 3. umr. Þetta eru hefðbundin vinnubrögð, herra forseti, en satt best eru þau ekki lengur nútímaleg, svo vægt sé tekið til orða.

Vitaskuld á 2. umr. fjárlaga að taka til alls fjárlagafrv., þ.e. bæði tekju- og útgjaldabreytinga. Það væri í samræmi við anda laganna um fjárreiður ríkisins. Þetta er dæmi um að við höfum ekki lagað störf okkar að breyttum aðstæðum. Sömuleiðis höfum við ekki breytt vinnubrögðum fjárln. að neinu marki. Við höfum ekki stokkað upp nefndir þingsins eins og brýnt hefði verið að gera, m.a. í kjölfar nýrrar löggjafar um fjárreiður ríkisins. Með því t.d. að sameina fjárln. og efh.- og viðskn. hefðum við eina þingnefnd sem hefði á sinni könnu málefni fjmrn. Við verðum að hafa í huga að meginverkefni þjóðþinga allt í kringum okkur og okkar líka er að fást við ríkisfjármál í einu eða öðru formi. Þar er ekki aðeins um afgreiðslu fjárlaga að ræða heldur og ýmiss konar eftirlitsstarf gagnvart framkvæmdarvaldinu sem tengist ríkisfjármálum.

Ég veit að hæstv. forseti hefur um nokkurn tíma haft hug á að breyta þingsköpum, m.a. í þá átt sem ég hef gert að umtalsefni. Ég veit ekki hvernig sú vinna stendur. Ákveðnar hugmyndir lágu fyrir, mig minnir fyrir ári síðan, en því var skotið á frest. Hins vegar er þetta samstarfsverkefni manna hér í þinginu, að reyna að nýta síðasta ár kjörtímabilsins til að gera nauðsynlegar breytingar á þingsköpum. Ég tel, herra forseti, að brýnt hefði verið að gera það. Ég verð nú þó að segja eins og er, að vilji minn til samstöðu hér innan þings hafi farið minnkandi í ljósi atburða gærdagsins. Verið getur að ég sé að ræða um þá góðu hluti sem getað hefðu átt sér stað eftir áramót. Ég legg hins vegar mikið upp úr því að vinnubrögð okkar hér á hinu háa Alþingi verði sem allra best.

Í fjárlagafrv. eru ákveðnar áherslur sem við í stjórnarandstöðunni erum ósammála. Aðrir stjórnarandstæðingar á undan mér hafa gert þau málefni að umtalsefni. Vaxandi fátækt, verri staða öryrkja, fatlaðra og aldraðra hefur verið gerð að umtalsefni. Áherslur okkar koma m.a. fram í brtt. sem lúta að þessum liðum. Mér finnst hins vegar meira um vert að velta fyrir sér hvort einhverjar aðstæður í samfélaginu kalli á breytt fjárlagafrv. frá 1. til 2. umr., þ.e. meiri breytingar en hið 1% í útgjöldum sem meiri hluti fjárln. leggur til. Ýmislegt, herra forseti, sem fram hefur komið í umræðu síðustu vikna gefur okkur tilefni til að staldra aðeins við efnahagsstefnu þá sem endurspeglast í fjárlagafrv. Vitaskuld er fjárlagafrv. mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar.

Ég vil vekja athygli á ábendingum hagfræðinga OECD sem voru gerðar opinberar fyrir nokkru síðan. Þar lýsa þeir yfir áhyggjum af stöðu mála hér á landi. Því er ekki að leyna að hér hefur verið hagvöxtur og góðæri umfram önnur lönd þó að við í stjórnarandstöðunni höfum haldið því á lofti að þessu góðæri hafi verið misskipt eins og hér hefur verið gert að umtalsefni.

En það eru blikur á lofti. Í dag gaf Moody's, alþjóðlegt fjármálafyrirtæki, okkur háa lánshæfiseinkunn. Það var staðfesting á fyrri einkunn og vitaskuld eigum við að fagna slíkri niðurstöðu. Við verðum jafnframt að hlusta á þau varnaðarorð sem fram komu í áliti þeirra, áhyggjur um að hér kraumaði undir þensla sem hvenær sem er gæti birst í aukinni verðbólgu. Þetta eru mjög svipaðar áhyggjur og ég hef lýst hér í ræðustól, fyrir daufum eyrum reyndar. Hægt er að færa fyrir því mjög sterk rök að við þurfum að fara með gát. Hinn mikli viðskiptahalli, ákveðin þenslueinkenni í samfélaginu og ytri aðstæður í heimsbúskapnum kalla á endurmat efnahagsstefnunnar. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki fallist á að þetta sé áhyggjurefni. Þeir halda sig fast við efnahagsstefnuna sem endurspeglast í fjárlagafrv. Spá mín er hins vegar sú að nokkuð eigi eftir að taka í frá og með seinni hluta næsta árs.

[17:00]

Ekki er tekið á ýmsum hlutum eins og gaman hefði verið að gera í ríkisfjármálum þegar uppsveifla er, t.d. endurskoða skattkerfið, gera kerfisbreytingar á því með því að reyna að nýta skattkerfið til að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau eru vaxtarbroddur í atvinnusköpun víða í heiminum, sérstaklega í tækniiðnaði. Það er hvorki tekið á slíkum hugmyndum í þessu fjárlagafrv. né í stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er dæmi um það sem við í stjórnarandstöðunni höfum rætt um síðustu mánuði. Við höfum líka lagt áherslu á þá möguleika sem felast í að fjárfesta í aukinni menntun. Ekki eru gerðar neinar umtalsverðar breytingar á hinni stöðnuðu menntastefnu Sjálfstfl. Í fjárlagafrv. er engin kerfisbreyting á ferðinni varðandi hana frekar en fyrri ár þessarar ríkisstjórnar. Gaman hefði verið ef staðið hefði verið myndarlega að því að auka fjárframlög til menningar og menntamála. Þarna er líka um atvinnuskapandi aðgerðir að ræða í nýjum atvinnuvegum sem eiga mikla framtíð fyrir sér. Þar má t.d. nefna kvikmyndaiðnað. Áhersluleysi okkar á menntamál á eftir og hefur þegar komið okkur í koll en mun verða enn verra vandamál við að eiga þegar kemur fram á næstu öld.

Herra forseti. Umfang breytingartillagnanna er ekki þess eðlis að ástæða sé til að fjalla ítarlegar um efnahagsstefnuna. Ég gerði það við 1. umr. fjárlaga. Mín skoðun er sú að breytingar hafi orðið sem hefði átt að taka tillit til í nefndinni milli umræðna. Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki gert það. Ég er ósammála áherslum stjórnarliða gagnvart mörgum stéttum í samfélaginu og þær áherslur endurspeglast hjá okkur í breytingartillögum.

Ég vil að lokum, herra forseti, gera grein fyrir nokkrum brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 sem ég legg fram á þskj. 454. Þar legg ég til ákveðin áhersluatriði sem m.a. koma fram í að lagt er til að auka framlag til stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi um 3 milljónir og verja til háskóla- og rannsóknastarfsemi 20 milljónum meira en gert er ráð fyrir. Jafnframt legg ég til 7 milljónir til bókakaupa á háskólasviði, þ.e. fyrir Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Ég geri því tillögu um að verja samtals 30 milljónum meira til þessa sviðs.

Sömuleiðis legg ég til að framlag í Kvikmyndasjóð verði aukið um 40 milljónir. Það er nú svo með Kvikmyndasjóð að ríkissjóður fær til baka meira en nemur því fjármagni sem hann leggur í sjóðinn. Það er vegna áhrifa kvikmynda á skatttekjur ríkissjóðs og aukningu ferðamanna. Um það efni kom einmitt fram mjög merkileg skýrsla hér fyrr á árinu. Það væri því að mínu mati mjög brýnt að hækka þennan lið í meðförum þingsins.

Síðan hef ég dregið nokkra þætti fram varðandi Reykjaneskjördæmi þar sem ég þekki best til. Ég legg til varðandi málefni fatlaðra á Reykjanesi að 15 milljónum meira verði varið í sambýli. Það er hreint út sagt neyðarástand í málefnum fatlaðra á Reykjanesi. Fyrir samtök sveitarfélaga þar hafa verið lagðar skýrslur og þetta er mikið áhyggjuefni sem ekki verður leyst úr öðruvísi en með auknum fjárframlögum.

Síðan er gerð tillaga um aukið fé til Sunnuhlíðar í Kópavogi upp á 4 milljónir. Reykjalundur geri ég ráð fyrir að fái 17 millj. kr. hærra framlag. Þar er unnið gott starf og brýnt, hagkvæmt fyrir samfélagið og ríkisvaldið og er skömm að því að við skulum ekki huga betur að þeirri góðu starfsemi sem þar á sér stað. Það margborgar sig fyrir ríkisvaldið að taka þar aðeins sterkar á eins og hér er lagt til.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir auknum fjármunum til heilsugæslustöðva í Hafnarfirði og Mosfellsbæ og hjúkrunarheimilis í Garðabæ, en allar þessar stofnanir þurfa á auknu fé að halda. Í sumum tilfellum er tekið á þessum stofnunum hefðbundið í meðförum fjárln. en hér er ég fyrst og fremst að marka áherslur sem ég tel mikilvægar í því kjördæmi sem ég þekki best til og er þingmaður fyrir.

Ég er með sérstaka tillögu um mjög brýnt mál. Ég legg til að 30 milljónum verði varið í Suðurstrandarveg milli Grindavíkur og Þorlákshafnar til að hefja undirbúning þess verkefnis. Það er ekki á vegáætlun, langtímaáætlun, en er mjög brýnt að verði framkvæmt. Það er vilji fyrir þessu og ég held að það þurfi ekki að vera pólitískur ágreiningur um það að mjög brýnt sé að hrinda því í framkvæmd, ekki síst með tilliti til þess að kjördæmabreyting er fyrirhuguð þar sem Reykjanes og Suðurland verði eitt kjördæmi. Þá er ástæða til að þessi vegur komi og því brýnt að verja þegar fé í undirbúning þess máls. Ég vona að samstaða geti náðst um slíkar fjárveitingar og framkvæmdir. Við eigum að nýta, herra forseti, þær breytingar sem verða á kjördæmaskipuninni til tengja svæðin saman með bættum samgöngum þar sem það á við og þessi samgöngubót er sérstaklega brýn.

Síðasta tillaga mín er um 3 millj. kr. aukningu til þjóðgarða og friðlýstra svæða og lýsir aðeins áherslum mínum í málaflokki sem ég ber fyrir brjósti.

Þetta eru útgjaldatillögur upp á 150 milljónir. E.t.v. mundi einhver segja: Það er auðvelt að koma með svona óskalista rétt fyrir jólin. En tillagan er víðtækari því hún felur í sér fjármögnun á þessum 150 milljónum. Ég legg til að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður sem nemur 150 milljónum. Það er tiltölulega lítil hækkun miðað við þann lið. Ég vil benda á að tekjuskattur lögfyrirtækja hefur ekki skilað því sem ætla mætti í þessari uppsveiflu á meðan tekjuskattur einstaklinga hefur hækkað verulega. Þessum auknu tekjum væri hægt að ná með endurskoðun á kerfinu sjálfu eða bættri innheimtu, þetta er ekki stærri tala en svo. Ég taldi þó rétt, úr því að ég geri tillögu um útgjaldaauka --- af því ég hef nú oft sagt að ég sé vinur ríkissjóðs, og skiptir þá ekki máli hvaða ríkisstjórn á í hlut --- að leggja fram tekjutillögur. Þetta dæmi sem lýsir ákveðnum pólitískum áherslum af minni hálfu er því útgjaldahlutlaust gagnvart ríkissjóði.

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni erum í meginatriðum á móti fjárlagafrv. Við teljum að áhersla þess á gærdaginn sé mjög afgerandi. Það er stefna sem við erum ekki fylgjandi. Við höfum lagt fram, bæði í málflutningi okkar og með breytingartillögum, nýjar og breyttar áherslur og stefnumótun á sviði hinna mjög svo mikilvægu ríkisfjármála. Ég endurtek að lokum óskir mínar um að við reyndum sem fyrst að taka til umræðu bætt og betri vinnubrögð á hinu háa Alþingi, án þess að ég sé að gagnrýna vinnubrögð núverandi fjárln. Ég vildi óska að við fyndum því betri farveg hvernig við vildum haga störfum við ríkisfjármálin í þinginu í framtíðinni, einkum í ljósi löggjafarinnar um fjárreiður ríkisins.