Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:10:12 (2220)

1998-12-12 17:10:12# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:10]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Í umræðum um fjárlögin og fjáraukalögin hafa komið fram ýmis sjónarmið varðandi mismunandi málaflokka. Eitt mál stendur þó upp úr, þ.e. vandinn í heilbrigðiskerfinu sem er að verða sinfónía áranna. Niðurskurður fyrri ára hefur orsakað þennan vanda þar sem um mjög viðkvæma starfsemi er að ræða og ný tækifæri á sviði lækninga og úrræða, t.d. með nýjum lyfjum, hafa kostað mikla peninga.

Áhrif þessa langa tímabils á erfiða fjárhagsstöðu sjúkrahúsanna hafa leitt af sér gífurlegan vanda í heilbrigðiskerfinu. Fólk sem þar vinnur er orðið langþreytt á að heyra sífellt staglast á því að nú vanti hundruð milljóna til að endar nái saman. Þetta hefur skapað vinnumóral sem er orðinn svo neikvæður að fólk forðast að ráða sig til starfa inn á stóru sjúkrahúsin. Ímynd þeirra er orðin svo neikvæð í augum almennings og starfsfólks að lengra held ég varla að verði komist.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í svar heilbrrh. um starfsmannavanda á sjúkrahúsunum og öldrunarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu svari kemur fram:

,,Haft var skriflega samband við eftirtaldar stofnanir: Ríkisspítala, Sjúkrahús Reykjavíkur, Hrafnistu, hjúkrunarheimilið Skógarbæ, hjúkrunarheimilið Eir, elli- og hjúkrunarheimilið Grund, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, sjúkrahúsið Sólvang í Hafnarfirði, umönnunar og hjúkrunarheimilið Skjól og hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. Svör stofnananna miðast við ástandið í lok nóvember 1998.

Samanlagður skortur á hjúkrunarfræðingum er 210 stöðugildi, skortur á sjúkraliðum er 59,5 stöðugildi og skortur á Sóknarstarfsmönnum er 42 stöðugildi til þess að fullmannað sé í allar stöður.``

Í tengslum við það hvernig bregðast eigi við er tekið fram að til sé neyðaráætlun. Hún er hins vegar mjög takmörkuð og miðast við tilfæringar á starfsfólki, endurskoðun vinnuferlis, tilflutning á verkefnum, keyptar aukavaktir og flutning sjúklinga sem þurfa mikla þjónustu milli deilda. Þetta er sú staða sem nú blasir við.

Upplýsingarnar bera með sér að vandinn er mikill en hann er þó enn þá stærri. Meðalstöðugildi þessara starfsstétta eru 70--75% þannig að í heildina er vöntunin um 400 manns. Þetta ástand er farið að kalla á lokun deilda og fækkun á innlögnum. Margt af þessu má rekja til lágra launa og ósamræmis í launahækkunum milli stétta. Þegar sumar stéttir knýja fram hækkanir með uppsögnum sitja aðrar eftir og óánægja vex að sama skapi. Auk þessa fylgir of mikið vinnuálag undirmönnun. Fólk er að sligast og mörg dæmi eru um veikindi vegna langvarandi yfirvinnu. Þá segir fólk upp vegna of mikils vinnuálags. Í ofanálag er ekki greitt neitt aukalega þegar fólk axlar ábyrgð tveggja til þriggja einstaklinga vegna undirmönnunar. Þetta er ekki hægt að bjóða starfsfólkinu.

Lítum svo á hina hliðina. Þetta er ekki heldur hægt að bjóða öldruðum og sjúkum. Þeir finna verulega fyrir þessu ástandi og margt fólk hefur haft á orði að það sé byrði á staðnum. Sjúklingar eru jafnframt sendir allt of veikir heim, sem kallar á aukna heimaþjónustu og hjúkrun, auk þess sem margir aðstandendur einangrast vegna veikinda sinna nánustu. Það þarf að vinna hratt og vel svo leysa megi þessi alvarlegu mál. Þau þola enga bið. Þetta eru mannréttindamál.

Vegna tillagna sem ég lagði fram til hækkunar á fjárlögum vil ég taka fram eftirfarandi: Sú kona sem ég tók við þingsæti af, Ásta B. Þorsteinsdóttir, átti langa og merka sögu á sviði málefna fatlaðra og einnig draum um að sambýli yrðu framtíðarlífsform þeirra sem eru fatlaðir og hafa áður búið við þröngar aðstæður án þess að fá notið sín sem einstaklingar í sama mæli og þeir sem búa á sambýlum. Því legg ég til hækkun á framlagi til sambýla fyrir fatlaða.

Þetta er mál sem á sér langa sögu og komu þingmenn inn á það í morgun. Við vitum einnig að mál hafa tafist við flutning á milli ríkis og sveitarfélaga. En vandinn er brýnn og margir þeirra sem nú eru eftir, t.d. á Kópavogshæli, búa við allt aðrar aðstæður en margir aðrir.

[17:15]

Með leyfi forseti vitna ég til annarrar tillögu minnar sem varðar starfsþjálfun ungs fólks í atvinnuleit. Afar brýnt er að vel sé staðið að atvinnuleit ungmenna og þau fái aðstoð og leiðsögn inn á vinnumarkaðinn. Mörgum er ofviða að koma nýr inn í stórt fyrirtæki ef ekki er markvisst búið að undirbúningi hinna nýju starfsmanna og séð til þess að fylgja honum eftir um tíma. Þá hefur ungt fólk átt mjög erfitt með að fá vinnu ef um sérhæfða námsmenn er að ræða og þarf því að vera til sérstök vinnumiðlun ungs fólks í öllum starfsgreinum. Unga fólkið hefur afar litlar upplýsingar um vinnumarkaðinn og um réttindi og skyldur og því bregður oft verulega í brún þegar komið er út á vinnumarkaðinn að sjá hvernig þessi blessaður vinnumarkaður rekur sig. Margt ungt fólk hefur lifað vernduðu lífi á ,,hótel mömmu`` og á erfitt með að fóta sig á vinnumarkaðnum.

Ef ég vík að þriðju tillögu minni, með leyfi forseta, þá snýst hún um félagsmál. Í mörg ár hefur verið við lýði Félag einstæðra foreldra. Það hefur um árabil unnið ötullega að málefnum þessara einstaklinga sem alla tíð hafa búið við mjög þröngan fjárhag enda eru félagsmennirnir ekki efnafólk. Í góðærinu hefur bilið milli fátækra og ríkra aukist. Dæmi eru um að fólk sé algjörlega á götunni mánuðum saman og búi við mjög slæm kjör. Til eru dæmi um að börn í okkar samfélagi fái ekki nema eina heita máltíð í viku og til eru dæmi um ungt fólk sem reynt hefur að standa á eigin fótum hafi leitað læknis vegna þreytu og í ljós komið að það þjáðist af vannæringu.

Er þetta það samfélag sem við viljum státa okkur af? Er þetta hamingusama þjóðin sem skoðanakannanir hafa bent til?

Hæstv. forseti. Fjórða tillagan er um málefni eldri borgara. Árið 1999 verður ár aldraðra og er meiningin að gera mikið með það frá ýmsum hliðum og með aðkomu margra. Félagasamtök eins og Landssamband eldri borgara munu á þessu ári þurfa að leggja í fleiri ferðir um landið vegna árs aldraðra. Auk þess er meiningin að koma á framfæri ýmsum upplýsingum um stöðu eldri borgara. Til þess þarf að vinna að verkefnum sem kosta peninga. Því legg ég fram þessa tillögu og vænti þess að hún fái jákvæða umfjöllun.

Með leyfi forseta vitna ég í blað Landssambands eldri borgara þar sem í forustugrein er sagt:

,,Þótt við búum hér í svokölluðu velferðarþjóðfélagi er samt margt sem betur mætti fara og stjórnvöld gætu komið til betri vegar með tiltölulega litlum tilkostnaði. Ég vænti þess líka að stjórnvöld láti ár aldraðra 1999 ekki líða svo að ekki sjáist jákvæð straumhvörf í þessum málum.

Ekki aðeins til hagsbóta þeim sem komnir eru út af vinnumarkaði heldur líka ellilífeyrisþegum framtíðarinnar sem verða á næstu áratugum miklu hærra hlutfall af þjóðinni en nú er. Mikilvægt er því að fara að sinna þessum málum með skipulegri hætti og í fullu samráði við samtök eldri borgara sem helst vita hvar skórinn kreppir.

Hér á landi voru, sem betur fer, lögð drög að uppbyggingu góðs almenns lífeyriskerfis fyrir tæpum 30 árum. Kerfis sem líklegt er til að leysa í framtíðinni meginhluta af þeim efnahagslega vanda þjóðfélagsins sem ella hefði verið uppi vegna tekna til aldraðra.

Á öðrum sviðum, svo sem í þjónustu aldraða í heimahúsum, uppbyggingu og þjónustu á hjúkrunarstofnunum og annarri þjónustu sem ætti að vera samfélagsleg, vantar mikið á að hér hafi verið jafn vel að verki staðið og á hinum Norðurlöndunum.

Stjórnvöldum, bæði sveitarstjórna og ríkisins, gefst því sérstakt tilefni nú á ári aldraðra til að hrinda af stað nýjum áætlunum um þessi málefni og kynna þær á árinu.``

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég aðeins nefna Framkvæmdasjóð aldraðra. Á undanförnum árum hefur hann verið skertur og notaður til annarra verkefna en honum hefur verið ætlað með upphaflegum markmiðum sínum. Framkvæmdasjóður aldraðra er nefskattur og hver einasti skattþegn borgar í hann 4 þús. kr. Það hlýtur að vera umdeilt að hann sé notaður í önnur verkefni en honum er ætlað.

Margt hefur komið fram í sambandi við þennan gífurlega mannaskort á vinnumarkaðnum. Í dagblöðum nú í dag kom fram að um 1.500 útlendingar væru komnir til landsins á árinu og hlýtur það líka að kalla á spurninguna um hvort ekki sé tímabært að velta fyrir sér sveigjanlegum starfslokum. Við eigum fjölda fólks sem vildi gjarnan fá að vinna einhver örfá ár í viðbót.