Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:39:42 (2224)

1998-12-12 17:39:42# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langaði aðeins til að koma inn á þá vinnu sem farið hefur fram á höfuðborgarsvæðinu varðandi yfirflutninginn á þessum málaflokki. Nefnd hefur verið að störfum í töluvert langan tíma sem hefur kallað til marga aðila vegna málsins og verið að leita að nýrri málamiðlun, m.a. að samræma heimaþjónustu og liðveislu fyrir þennan hóp til að gera kerfið einfaldara. Við höfum mörg komið að þessu og fundið að þarna væri verið að leita að nýjum leiðum sem gætu hugsanlega nýst fötluðum mun betur, einfaldað kerfi þeirra, það væru ekki kannski fjórir aðilar að stjórna því hvernig þessum þjónustuþáttum væri komið til þeirra. Ég held að þarna sé um mjög farsælt starf að ræða og mundi mjög gjarnan vilja vita hvort það sé sú sýn sem félmrh. sér að komi inn í þennan málaflokk í framhaldinu af yfirtöku sveitarfélaga í framtíðinni. Það að eiga starf og þjónustu og allt að sækja til jafnmargra aðila eins og gert er í dag hefur töluverð áhrif á þjónustuna og dreifir henni og það er ekki sama öryggi hvort hún er veitt eða hvort hún komi og ef þetta er á einni hendi. Ég held þetta séu mjög góðar tillögur sem ég hef orðið vör við hjá þessum starfshópi.