Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:47:08 (2226)

1998-12-12 17:47:08# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. En ég spurði hann líka um langsjúk börn og hvar það mál væri statt. Hæstv. ráðherra upplýsti að frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga væri á lokastigi. Ég nefndi einmitt að það átti að skoða það að fella málefni þeirra annaðhvort undir lögin um málefni fatlaðra eða um félagsþjónustu sveitarfélaga en hæstv. ráðherra hefur vafalaust ekki haft tíma til að svara því. Ég óska því eftir að hæstv. ráðherra upplýsi okkur eitthvað um það.

Ég vil líka nefna það sem ég talaði um í gær, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir tímafresti, þ.e. hve lengi óskað er eftir fresti á því að sveitarfélögin yfirtaki þennan málaflokk. Ég tel mjög til baga að hafa ekki ákveðna tímasetningu þarna á. Ég nefndi ár í því sambandi, sem ég held að væri hæfilegt. Ég óttast að ef þessi dagsetning sé ekki til staðar þá dragist þetta enn lengur. Hæstv. ráðaherra hafði sína skýringu á því. Hann nefndi að hafa þyrfti samráð við sveitarfélögin og eins væri afstaða sveitarfélaganna misjöfn til þess hvort þau eigi að yfirtaka þennan málaflokk. Ég verð að segja, ef t.d. smærri sveitarfélögin eru treg til að taka við þessum málaflokki, að ég óttast og það væri mjög slæmt að þau kæmu í veg fyrir að stærri sveitarfélögin gætu yfirtekið málaflokkinn. Ég bið því hæstv. ráðherra að hugsa það meðan málið er til meðferðar í félmn. hvort ekki væri ráð að setja þarna ákveðna dagsetningu og ræða t.d. við stærstu sveitarfélögin og Samtök sveitarfélaga meðan málið er í meðferð, um hvort ekki væri ráð að setja inn þarna ákveðnar dagsetningu, t.d. 1. janúar árið 2000.