Húsnæðissamvinnufélög

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:58:38 (2232)

1998-12-12 17:58:38# 123. lþ. 39.4 fundur 333. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# frv. 161/1998, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er komið að aðalfrumvarpinu, ef hægt er að tala um aðalfrumvarp, því að frv. um byggingarsamvinnufélög er raunverulega fylgifrv. þessa máls þó það hafi verið framar á dagskránni.

Á árinu 1991 var kafla um húsnæðissamvinnufélög bætt við húsnæðislöggjöfina. Starfsemi Búseta má hins vegar rekja allt til 1984, en þá var veitt heimild til þess að selja leigutaka eignarhlut í leiguíbúð. Ein meginástæða þess að um þau var fjallað í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var að þar var jafnframt fjallað um lánveitingar til slíkra aðila. Ekki þykir lengur rétt að fjalla um skipulag og starfsemi slíkra félaga í lögum um húsnæðismál sem fyrst og fremst fjalla um opinberar lánveitingar til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði.

Húsnæðissamvinnufélög eiga, eins og önnur félög um næstu áramót, að geta fjármagnað byggingu leiguíbúða fyrir félagsmenn sína með lánum samkvæmt VIII. kafla laga um húsnæðismál sem fjallar um lánveitingar til leiguíbúða. Þar sem ráðstöfun íbúða sem þannig hafa verið byggðar eru háð tekju- og eignarmörkum hlutaðeigandi eins og nú er er jafnframt gert ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélög geti á grundvelli 16. gr. laga um húsnæðismál fengið lán með sambærilegum hætti og verið hefur með almennar kaupleiguíbúðir. Gert er ráð fyrir því að lánaflokkur þessi verði fjármagnaður með sölu húsnæðisbréfa. Unnið er að nánari útfærslu þess lánaflokks í félmrn. og hjá undirbúningsnefndinni. Auk þess er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélög geti leitað eftir fjármagni á almennum markaði.

[18:00]

Eins og áður sagði er frv. er samið í ráðuneytinu. Þessu frv. hefur verið nokkuð breytt, meira heldur en kljúfa það, frá því að það var lagt hér fram í fyrra. Tekið hefur verið tillit til ábendinga sem komið hafa frá Búseta og eins hefur verið myndað nýtt félag eldri borgara eða roskinna borgara, sem heitir Búmenn, og má búast við því að talsvert verði um slíkar framkvæmdir á næstu árum. Síðan er náttúrlega breytt orðalagi með tilliti til stofnunar Íbúðalánasjóðs í stað Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, og ekki þykir ástæða til þess að hafa í frv. ákvæði sem snerta umsóknir um lán og skilyrði til lánveitinga, sbr. 115. og 117. gr. gildandi laga. Í 2. gr. hafa verið teknar upp helstu skilgreiningar hugtaka til frekari skýrleika en slíkar skilgreiningar er ekki að finna í gildandi lögum.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið frá gildandi lögum koma fram í 5. og 13. gr. og fela í sér að kveðið er skýrar á um hvernig meta eigi ástand húsnæðis við endurgreiðslu búseturéttar og um heimildir húsnæðissamvinnufélaga til þess að endurákvarða búseturéttargjald við endurráðstöfun búseturéttar til annars félagsmanns. Lögð er áhersla á að efla varasjóð sem hafi það hlutverk að mæta óvæntum áföllum í rekstri, þar á meðal vegna byggingargalla, og ef nauðsynlegt er að endurreikna búseturétt til síðari félagsmanna. Þá er það lagt í vald húsnæðissamvinnufélagsins sjálfs hvort endurgreiðsla andvirðis búseturéttar skuli taka mið af breytingum á vísitölu. Húsnæðissamvinnufélagið sjálft hefur heimildir til þess að taka ákvörðun um hvort verðtryggingarákvæðum verði beitt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira en legg til að að lokinni umræðunni verði frv. sent hv. félmn. til þóknanlegrar athugunar.