Húsnæðissamvinnufélög

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 18:03:44 (2233)

1998-12-12 18:03:44# 123. lþ. 39.4 fundur 333. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# frv. 161/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[18:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. félmrh. mælir fyrir er fylgifiskur þess sem við gengum í gegnum í vor í þinginu, þ.e. að leggja niður félagslega íbúðakerfið sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn beittu sér fyrir. Í þeirri umræðu kom fram hjá hæstv. ráðherra að þannig yrði staðið að málum varðandi Búseta að hlutur hans í nýju húsnæðiskerfi yrði ekki verri en hann var áður en eins og menn þekkja var það ekki síst almennar kaupleiguíbúðir sem gögnuðust vel búsetufólki.

Ég fæ ekki alveg séð, herra forseti, af því frv. sem við fjöllum um hér, hvort ráðherra standi við þau orð sem hann sagði á síðasta þingi, að hlutur Búseta yrði ekki verri í nýju húsnæðislánakerfi. Þess vegna hef ég nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Mér finnst að skýrari tengingar húsnæðissamvinnufélaga við Íbúðalánasjóð vanti og þau kjör sem þar eru í boði.

Hæstv. ráðherra vitnaði í 16. gr. laga, nýrra laga um húsnæðismál, en þar kemur fram:

,,Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, að stofna til nýrra lánaflokka. Gert skal ráð fyrir öllum lánaflokkum í fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir það ár sem veiting láns fer fram.``

Þetta opnar út af fyrir sig möguleika á því að lána til Búseta, eins og þeir hafa áður haft, þ.e. að þeir geti verið með búseturétt á bilinu 10--30% eins og þeir hafa verið með þannig að sá lánaflokkur sem hæstv. ráðherra nefndi opnar vissulega fyrir það. Mér fannst koma fram í máli ráðherra að hann nefndi að þarna væri hægt að opna fyrir sama möguleika og var í almennum kaupleiguíbúðum. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að fá það skýrt fram: Mun þessi lánaflokkur vera með þeim hætti að í honum verði ákveðinn sveigjanleiki þannig að hægt sé að fá þar lánafyrirgreiðslu sem væri á bilinu 10--30% eins og búsetumenn höfðu í kaupleigukerfinu?

Þá vaknar sú spurning hvaða kjör verða á þessum lánaflokki. Nú hlýtur hæstv. ráðherra að hafa skoðað það og ég spyr hvort það hafi verið ákveðið hvaða láns- og vaxtakjör verða á þessum lánaflokki.

Eins og staðan er núna held ég að án þess að opna fyrir þann möguleika sem felst í 16. gr. að búsetufólk hafi einungis möguleika á að fá lán til leiguíbúða, eins og sveitarfélög og stúdentar og námsmenn og fleiri hafa. En eðli máls samkvæmt, og hvernig búsetuhreyfingin er rekin og rekstrarform þeirra hentar auðvitað ekki að mál séu með þeim hætti að því er þá varðar. Því er mikilvægt að 16. gr. sé nýtt þannig að möguleikar þeirra verði sambærilegir og voru í kaupleigukerfinu.

Ég nefni líka varðandi leiguíbúðirnar að þær eru bundnar einstaklingum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum þannig að ljóst er að það gagnast ekki búsetumönnum af því það er ekki bundið þar hjá þeim við ákveðin tekju- eða eignamörk.

Síðan spyr ég að því hvort Búsetahreyfingin hafi einhverja möguleika á því viðbótarláni sem einstaklingar eiga að fá í nýja lánakerfinu. Er það bara fyrir einstaklinga eða mundi Búsetahreyfingin hafa möguleika á viðbótarláninu? Eða er bara verið að opna fyrir þá sérstaklega í 16. gr. sem yrði þá sambærileg þessu viðbótarláni sem einstaklingar hafa möguleika á í nýja lánakerfinu?

Ég spyr líka um hvort Búseti fái aðgang að húsbréfakerfinu. Þeir hafa lagt mjög mikið upp úr því að þeir hafi aðgang að húsbréfakerfinu og spyr ég um það hvort, t.d. í þeim nýja lánaflokki sem á að opna skv. 16. gr. verði opnað fyrir slíka möguleika, þ.e. að þeir hafi bæði möguleika á húsbréfaláni og síðan á viðbótarláni að því er varðar búseturéttinn 10--30%.

Þetta vildi ég nefna hér og spyrja hæstv. ráðherra að í umræðunni vegna þess að ég held að mjög mikilvægt sé að rétti þeirra sé vel fyrir komið í nýju lánakerfi. Við þekkjum að Búseti hefur gert mjög mikið til þess að koma upp íbúðum fyrir félagsmenn sína og þeir hafa alveg frá árinu 1989 fengið um 380 lán á þessum árum sem hafa að vísu undanfarin tvö til þrjú ár verið mjög lítil, ekki nema tólf lán á árinu 1996 og árið 1997 voru það einungis 15 lán en á árunum 1988--1992 voru á milli 50 og 100 lán sem Búsetahreyfingin fékk til að koma upp íbúðum fyrir félagsmenn mína sem voru að miklu leyti almennar kaupleiguíbúðir þar sem búseturétturinn eða búsetuhlutinn var 30% og nýttist þeim því mjög vel.

Þetta eru því spurningar mínar til hæstv. ráðherra að hann skýri nánar fyrir okkur og að fram komi í máli hans hvort Búsetahreyfingin sé þá jafnsett og hún var áður í því kerfi sem hefur verið lagt niður, hvort þeir muni fá aðgang að húsbréfakerfinu, hvaða lánskjör þeim standi til boða að því er varðar þann nýja lánaflokk sem hæstv. ráðherra nefndi í 16. gr. frv. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá þetta núna upp við 1. umr. málsins til að greiða fyrir málinu í gegnum þingið.