Húsnæðissamvinnufélög

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 18:17:20 (2237)

1998-12-12 18:17:20# 123. lþ. 39.4 fundur 333. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# frv. 161/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég megi fullyrða að lánskjör Búseta versni með engu móti við þessa breytingu. Hugmyndin er ekki sú að þeir fái húsbréf. Þetta eru félög sem geta fengið lán á tvo vegu, annaðhvort skv. 16. gr., sem er um leigu\-íbúðir félaga (JóhS: En lánshlutfallið sem þeir geta fengið samkvæmt 16. gr.?) 70--90%. (JóhS: Þá er það komið.) Jafnframt er opin leið fyrir þá að fá lán til leiguíbúða með niðurgreiddu vöxtunum næstu tvö árin. Síðan á að semja um frambúðarfyrirkomulag innan tveggja ára. Það er verið að skoða þá hugmynd núna að í staðinn fyrir að niðurgreiða vexti til leiguíbúða verði bara í eitt skipti veittur styrkur út á nýja leiguíbúð, einhver ákveðin summa sem veitt verði út af hverri leiguíbúð. Þeim samningum er ekki lokið þannig að ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér að því leyti.