Útflutningsráð Íslands

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 18:24:05 (2241)

1998-12-12 18:24:05# 123. lþ. 39.6 fundur 340. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (tekjur, samráðsnefnd, stjórn o.fl.) frv. 137/1998, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[18:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, með síðari breytingum, sem lagt hefur verið fram sem þskj. 434. Núgildandi lög um Útflutningsráð eiga rætur að rekja til stofnunar ráðsins árið 1986.

Í upphaflegum lögum var kveðið á um að tekjur ráðsins kæmu af útflutningsgjaldi og iðnlánasjóðsgjaldi en með lögum frá 1990 var kveðið skýrar á um einstaka þætti starfs ráðsins og því markaður tekjustofn af aðstöðugjaldsstofni. Með afnámi aðstöðugjaldsins síðla árs 1993 skapaðist enn á ný óvissa um tekjustofn ráðsins. Niðurstaðan varð sú að sett var á sérstakt markaðsgjald, lagt á virðisaukaskattsskylda veltu gjaldenda sem er svipaður stofn og gamli aðstöðugjaldsstofninn. Jafnframt var sett í lögin sérstakt bráðabirgðaákvæði sem kvað á um endurskoðun laganna fyrir lok árs 1998 og skyldi markaðsgjaldið falla niður í lok árs 1998 færi sú endurskoðun ekki fram.

Hinn 29. júní 1998 skipaði ég því nefnd til að fjalla um og gera tillögur að endurskoðun laga um Útflutningsráð Íslands. Í nefndinni áttu sæti Þorsteinn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins, formaður, Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinnumálasambandsins, Stefán S. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, og Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands.

Nefndin skilaði niðurstöðu í nóvember 1998 og hefur skýrslu nefndarinnar verið dreift hér á Alþingi. Rétt er að geta þess að almenn samstaða var í nefndinni um mikilvægi þess að áfram yrði stutt við útflutningsstarfsemi af opinberri hálfu. Þá var samstaða um að markaðsgjaldið yrði lagt af í núverandi mynd og að eðlilegast væri að fé til starfseminnar kæmi að stærstum hluta af fjárlögum. Einnig var samstaða um aukin tengsl ráðsins við atvinnulífið og utanríkisráðuneytið og um að æskilegt væri að halda nánu samstarfi milli Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Útflutningsráðs. Þá var samstaða um að fækka í stjórn ráðsins til að gera hana skilvirkari.

Hins vegar var nokkur ágreiningur í nefndinni um skipulagslega hlið málsins og verkaskiptingu Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Sameiginlegt álit nefndarmanna var þó að verkaskipting þeirra ætti að vera skýr og forðast bæri tvíverknað eftir föngum. Meiri hlutinn lagði einnig til að lögin um Útflutningráð yrðu felld úr gildi og ráðið gert að sjálfseignarstofnun sem gerði þjónustusamning við utanrrn. um þjónustu við opinbera aðila og einkaaðila til fimm ára í senn. Að öðru leyti vísast til þess sem segir í athugasemdum með frv. og álits nefndarinnar í heild.

Ljóst er að skiptar skoðanir eru um ýmsa tæknilega þætti í niðurstöðu nefndarinnar, einkum þá er lúta að skipulagslegum þáttum, stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar og fjármögnun rekstrarins af fjárlögum. Þörf er á fjölþættum breytingum á rekstrarformi ráðsins ef hrinda á tillögum meiri hlutans í framkvæmd, auk þess sem taka þyrfti ákvörðun um ráðstöfun a.m.k. 600 milljóna kr. af fjárlögum til þessa verkefnis á næstu fimm árum. Ég tel ekki skynsamlegt að taka svo stórfelldar ákvarðanir áður en tengsl Útflutningsráðs við utanríkisráðuneytið eru frágengin, þjónustuþörfin skilgreind og heildarskipulag starfseminnar ákveðið að öðru leyti. Hins vegar er að mínu áliti rétt að koma til móts við ábendingar nefndarinnar svo sem kostur er að óbreyttu rekstrarformi Útflutningsráðs.

Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að sett verði á fót samráðsnefnd Útflutningsráðs þar sem fulltrúar samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda eigi sæti. Með samráðsnefndinni er reynt að endurspegla þær breytingar sem orðið hafa á samtökum atvinnulífsins á undanförnum árum en fulltrúar ýmissa greina atvinnulífsins hafa ekki átt sæti í stjórninni. Þá er gerð tillaga um að fækkað verði í stjórn Útflutningsráð til að auka skilvirkni í störfum þess í samræmi við tillögur nefndarinnar. Einnig er lagt til að utanríkisráðherra fái rýmri heimild til setningar reglugerðar þar sem ætlunin er m.a. að kveða betur á um samráð milli opinberra stofnana á sviði þjónustu við útflutning og um aukin tengsl og skýrari verkaskiptingu milli Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Í samræmi við niðurstöður nefndarinnar er lagt til að álagning markaðsgjaldsins með núverandi hætti verði lögð af. Ágreiningur hefur verið um gjaldið frá því það var fyrst lagt á, og ekki óeðlilegt þar sem aðstöðugjaldið hefur verið lagt niður og menn gert ráð fyrir því að sá stofn yrði ekki lengur notaður til gjaldtöku hér á landi. Gjaldið skilar Útflutningsráði um 117 milljónum kr. á árinu 1998. Það leggst óeðlilega þungt á verslunina, sem greiðir hátt í 40% markaðsgjaldsins, þar sem það leggst á veltu gjaldenda eins og áður er getið.

[18:30]

Engu að síður þarf að útvega Útflutningsráði tekjustofna. Niðurstaða ráðuneytisins, eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila, var að það verði best gert með því að halda sérstökum tekjustofni sem áfram heiti markaðsgjald en sé lagt á með öðrum hætti en nú er. Niðurstaða varð því að skynsamlegast væri að leggja til að sérstakt gjald verði lagt á tryggingagjaldsstofn sem lagt er á og innheimt með tryggingargjaldi. Slíkt gjald leggst á alla launagreiðendur jafnt og má nefna að hlutur verslunar yrði um 11% samkvæmt frv. en hlutur hins opinbera um 20%. Telja má eðlilegt að hið opinbera greiði til Útflutningaráðs af sinni starfsemi eins og aðrir launagreiðendur í landinu. Gert er ráð fyrir að markaðsgjald að hlutfalli 0,043% af tryggingagjaldsstofni skili Útflutningsráði áþekkum tekjum og markaðsgjaldið mundi að óbreyttu gera á árinu 1999, eða um 125 milljónum kr.

Gert er ráð fyrir að þessi skipan mála verði til tveggja ára og fellur gjaldið því niður í árslok 2000 nema annað verði ákveðið með lögum, sbr. 6. gr. frv., en þá þurfi að koma til breyting á lögum á ný, hugsanlega þá með framlengingu gjaldsins eða öðrum ráðstöfunum í staðinn.

Í tengslum við þessar breytingar hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra lýst þeim vilja sínum að Fjárfestingarstofan verði áfram í nánu samstarfi við Útflutningsráð. Eins og fyrr var vikið að var algjör samstaða um það í nefndinni að æskilegt væri að þar yrði áfram náið samstarf í milli. Mikilvægt er að stofnanirnar verði áfram með mjög náið samráð og undir sama þaki til að auðvelda samstarf þeirra í margháttuðu kynningarstarfi erlendis.

Gert er ráð fyrir nokkurri útgjaldaaukningu til markaðssetningar vegna erlendra fjárfestinga í kjölfar breytinganna. Í frumvarpi til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 25 milljóna kr. framlagi til Fjárfestingarstofu en því til viðbótar er í frv. gert ráð fyrir að stjórn Útflutningsráðs muni veita hluta af tekjum af hinu nýja markaðsgjaldi til samvinnuverkefna með Fjárfestingarstofu. Er því gert ráð fyrir að markaðsgjaldið nemi 0,05% af tryggingagjaldsstofni í stað 0,043% eins og í fyrstu hafði verið gert ráð fyrir, en ætla má að það gefi um 20 milljóna kr. tekjur, til viðbótar þeim 125 milljónum kr. sem gert er ráð fyrir að Útflutningsráð fái til hefðbundinnar starfsemi sinnar á næsta ári. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að hið nýja markaðsgjald skili meiri heildartekjum til Útflutningsráðs en markaðsgjaldið gerir nú lækka framlög atvinnulífsins til starfseminnar frá því sem nú er þar sem hið opinbera greiðir 20% hins nýja markaðsgjalds en var ekki meðal greiðenda þess eldra.

Herra forseti. Í þessu frv. hefur verið leitast við að skapa sem mesta sátt um starfsemi og starfshætti Útflutningsráðs Íslands. Ljóst er að alltaf mun verða einhver gagnrýni á sérstakan skatt sem rennur til starfsemi af þessu tagi. Hins vegar er vert að minna á að algjör samstaða var meðal nefndarmanna sem um málið fjölluðu um mikilvægi starfs Útflutningsráðs og um að starf þess væri í þágu almannahagsmuna en ekki þröngs hóps útflytjenda. Af þessari ástæðu er rétt og eðlilegt að tryggja Útflutningsráði tekjustofna af almannafé. Hér er einnig leitast við að hagræða sem kostur er á þessu sviði með því að leiða saman Útflutningsráð og Fjárfestingarstofuna til sameiginlegrar markaðssóknar fyrir íslenskt atvinnulíf.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. Ég leyfi mér að leggja til frv. verði vísað til efh.- og viðskn. Þar sem það fjallar um utanríkisviðskipti þá mætti einnig gera tillögu um að það færi til utanrmn. Þar sem málið snertir skattamál tel ég þó réttara að það fari til efh.- og viðskn. Ég vænti þess að nefndin geti lokið afgreiðslu þess fyrir jólaleyfi þingmanna og veit reyndar að nefndin hefur nú þegar fjallað nokkuð um málið.