Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:27:55 (2260)

1998-12-14 14:27:55# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögu sem er samhljóða tillögu sem þingflokkur óháðra flytur um að fella niður komugjöld á heilsugæslustöðvar og er í samræmi við frv. sem við höfum flutt um það efni. Þörf er að fella niður alla sjúklingaskatta í heilbrigðiskerfinu þannig að það sé öllum að kostnaðarlausu.

Fræg að endumum varð röksemdafærslan af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þröngvaði þessum komugjöldum upp á þjóðina á síðasta kjörtímabili. Þetta yrði til að auka kostnaðarvitund sjúklinga, var viðkvæði ónefnds heilbrrh. Í reynd hafa gjöld af þessu tagi fælt tekjulítið fólk frá því að leita sér lækninga og því ástæða til að fella þau úr gildi þegar í stað. Auk þess hefur þetta leitt til skrifræðiskostnaðar sem erfitt er að réttlæta. Komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar soga um 250 millj. kr. upp úr vösum sjúklinganna og þarf því að reiða þá upphæð fram úr ríkissjóði svo að heilsugæslustöðvarnar verði ekki fyrir tekjumissi.