Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:59:37 (2272)

1998-12-14 14:59:37# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:59]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að vekja athygli á þeirri sérkennilegu afgreiðslu á fjárlagafrv. sem nú hefur farið fram. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að skýra það nánar í þingsköpum framvegis hvað er 2. umr. og lok 2. umr. Vegna þess að það fjárlagafrv. sem hér hefur verið afgreitt hefur ekki verið afgreitt að hálfu leyti einu sinni, hvað þá heldur meira.

Í fyrsta lagi vantar allar tekjuforsendur fjárlagafrv. Það er svo sem ekki nýtt, það hefur gerst á milli 2. og 3. umr.

Í öðru lagi vantar forsendurnar fyrir lífeyristryggingunum eins og þær leggja sig.

Í þriðja lagi vantar afgreiðslu á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík sem eru einhverjir stærstu útgjaldaliðir fjárlaganna.

Í fjórða lagi vantar útgjöld að því er varðar byggðamál og upplýst hefur verið að hljóti að kosta verulega fjármuni.

Það er því augljóst mál að þetta er ekki venjuleg afgreiðsla við 2. umr. á fjárlagafrv. sem hér hefur farið fram. Ég vil vekja athygli þingheims á þessari sérkennilegu stöðu til umhugsunar um hvort ekki verður að setja einhverjar reglur um það hvað í raun og veru geti talist alvöruafgreiðsla á fjárlagafrv. við 2. umr. málsins.