Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:35:22 (2275)

1998-12-15 13:35:22# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir þessa kröfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og tel rétt að vakin sé athygli á því strax að komið var í veg fyrir það af hálfu meiri hluta heilbr.- og trn. að málið fengi eðlilega og lýðræðislega meðferð í nefndinni. Aðilum úti í samfélaginu sem hafa haft mjög mikið um þetta mál að segja og hafa af því miklar áhyggjur, þeirra á meðal aðilar sem eiga eftir að starfa samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum, var meinaður aðgangur að nefndinni til þess að tjá viðhorf sín um málið. Það er algjörlega ólíðandi og óþolandi, herra forseti. Ég vil því taka undir þessa kröfu, megi það verða til þess að Alþingi verði ekki sýnd vanvirðing með þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, þ.e. að málinu sé nánast fjarstýrt utan úr bæ og að meira að segja í þokkabót sé lagst gegn því að fólk fái að koma og tjá sig um málið og lagst gegn því að minni hluti heilbr.- og trn. fái að kalla til sín fólk til þess að gefa álit um atriði sem eru í raun og veru grundvallarbreyting á síðustu stigum málsins.