Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:36:51 (2276)

1998-12-15 13:36:51# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hingað til að taka undir óskir um að þetta mál verði ekki látið hafa þennan algera forgang í störfum þingsins sem hæstv. ríkisstjórn eða þeir sem ráða hér dagskrá virðast ætlast til. Það er nokkuð sérkennilegt svo ekki sé meira sagt að í dag, þegar kominn er 15. desember, einn af síðustu starfsdögum þingsins fyrir jól samkvæmt starfsáætlun, sé aðeins eitt mál á dagskrá. Þvílíkt forgangsmál er hér á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að troða í gegn fyrir jólaleyfi að það er haft eitt á dagkrá þriðjudaginn 15. desember. Það eru tæpast dæmi um annað eins nema þá þegar í hlut eiga fjárlögin að sett er upp dagskrá fyrir heilan starfsdag þingsins með aðeins einu máli.

Herra forseti. Ég held að það sé einnig alveg ljóst að vinnubrögðin í kringum þetta mál á síðustu sólarhringum í þinginu eru með þvílíkum endemum af hálfu meiri hlutans að leitun er að öðru eins. Ég minnist þess að þegar rætt var um breytingar á starfsskipulagi Alþingis og deildaskiptingu þingsins var hætt, þá voru miklar umræður um það hvernig ætti að innbyggja í meðferð mála nægjanlegar tryggingar fyrir þingræðislegri og lýðræðislegri umfjöllun um mál þannig að ekki væri hægt að misnota, liggur mér við að segja, þá breytingu að gera þingið að einni málstofu með því að troða málum áfram eins og hér á að gera. Þá var sérstaklega tekið fram að hver umfjöllun um mál milli umræðna yrði ígildi þess sem áður hefði verið er þingið starfaði í tveimur deildum og að séð yrði til þess t.d. að ef mál þyrftu skoðun milli 2. og 3. umr. í nefndum, þá yrði það fullgild umfjöllun um málið sem tryggði að flýtiafgreiðsla gæti ekki átt sér stað og að sú sía eða bremsa sem í því var fólgin áður að þingið starfaði í tveimur málstofum yrði innbyggð í ferlið í þessari einu málstofu. Ég tel að það dæmi sem við stöndum núna frammi fyrir sé alveg óhrekjandi vitnisburður um að þetta hefur ekki gengið eftir. Með valdníðslu af því tagi sem meiri hlutinn er hér að sýna er verið að svíkja loforð um að vönduð umfjöllun um mál milli umræðna bæði 1. og 2., en líka 2. og 3., tryggði að vinnubrögð yrðu til sóma.

Ég skora því á hæstv. forseta að taka það til vandlegrar íhugunar hvort það sé þess virði að hleypa hér öllu í bál og brand og standa þannig að málum sem ella yrði ef á að knýja þetta mál til umræðu nú.