Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:42:26 (2278)

1998-12-15 13:42:26# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), SF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil taka fram vegna þessara umræðna sem eiga sér stað að þetta frv. er mjög ítarlega og vel unnið. Við höfum fengið til okkar í nefndina um 70 einstaklinga og fulltrúa tæplega 50 stofnana. Þar á meðal höfum við fengið til okkar þá viðkomandi aðila sem vildu koma til okkar aftur. Við höfum fengið bæði umsagnir og hlýtt á mál þeirra. Hins vegar eru menn ósammála um efni frv. og það breytist varla úr þessu. En málið hefur unnist vel. Það var tekið fyrir í vor. Það var unnið í sumar og það var unnið núna í haust. Það er alltaf álitamál hvenær svona stór mál eru tekin úr nefnd. Það er mat meiri hlutans að rétt hafi verið að gera það á síðasta fundi heilbrn. Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram að við höfum gert grundvallarbreytingar á frv. Það er alls ekki rétt. Ég mun útskýra það í ræðu minni á eftir.

Hins vegar er það svo að fólk hefur misjafnar skoðanir á málinu. Ég vil benda á að læknasamfélagið er klofið í málinu, því miður, og það er alvarlegt. Mér finnst líka alvarlegt þegar þingmenn ætla að gera breytingar okkar sérstaklega tortryggilegar til þess jafnvel að skaða þessa hugmynd. Þar á ég við það að 1. minni hluti lagði sérstaklega til að það yrði skoðað milli 2. og 3. umr. og reynt að ná samstöðu um það að breyta aðgengisnefndinni. Það er einmitt önnur af þeim tveimur breytingum sem við erum að gera í dag.