Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:49:49 (2282)

1998-12-15 13:49:49# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta er náttúrlega fáheyrður yfirgangur hjá meiri hlutanum og hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hv. varaformaður heilbr.- og trn., Siv Friðleifsdóttir, sagði að málið hefði fengið ítarlega umræðu og það er alveg rétt. Málið fékk ítarlega umræðu í nefndinni. En það var bara allt annað frv. en menn ætla að fara að afgreiða hér. Ég verð að segja það fyrir hönd 1. minni hluta sem hér var nefndur að við höfum verið frekar jákvæð í þessu máli og vorum sáttfús en okkur ofbýður hvernig vinnubrögðin hafa verið í nefndinni, að vera með slíkan yfirgang, að synja aðilum að koma til umræðu við nefndina.

Við vorum með ákveðnar tillögur um aðgengi vísindamanna en fengum ekki að segja eitt einasta orð um það hvernig þessar breytingar voru settar inn í frv. Ég fordæmi svona vinnubrögð. Ég verð að segja það að forsendan fyrir allri þeirri ítarlegu umræðu sem fram fór í nefndinni og öllum umsögnum sem komu er brostin vegna þess að það er allt annað mál sem við ætlum að fara að afgreiða eftir að þær breytingar verða á frv. sem meiri hlutinn ætlar að keyra í gegn.

Málið fékk ekki eðlilega umfjöllun eftir 2. umr. eins og lofað var í umræðunum í þinginu. Það er mjög óeðlilegt hvernig staðið var að verki og ég styð að gert verði fundarhlé og málið rætt því það er alls ekki mönnum bjóðandi hvernig staðið hefur verið að verki.