Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:51:42 (2283)

1998-12-15 13:51:42# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Nú er það svo að meiri hlutinn ræður. Við því er ekkert að segja og það er gangur lýðræðisins. Það er heldur ekkert um það að segja að hér séu skiptar skoðanir um efnisatriði þess frv. sem við erum að ræða. En það sem er sýnu verst í þessu máli er að stjórnarliðar og talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa farið með ósannindi, hafa farið fram með blekkingar því að ítrekað, aftur og aftur, var það áréttað í máli þeirra í þeirri þriggja daga umræðu sem átti sér stað við 2. umr. um gagnagrunnsfrv. að málið ætti að fá ítarlega og málefnalega umfjöllun milli 2. og 3. umr.

Þetta loforð, þessar yfirlýsingar, þessi vilyrði hafa verið svikin og það er slæmt í þessu máli því að aldrei heyrði ég það í máli talsmanna stjórnarflokkanna að sú umfjöllun ætti að felast í því einu að halda nokkurra mínútna fund eða hálftíma eða klukkutíma eða hvað það nú var og kalla til valda aðila sem meiri hlutinn kallaði til fundar hjá nefndinni. Aldrei skildi nokkur maður það að sá væri tilgangurinn með þessu öllu saman. Það er því umhugsunarefni fyrir okkur í stjórnarandstöðu hér eftir hversu mikið, ef þá nokkurt, mark á að taka á yfirlýsingum talsmanna ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir gefa loforð af þessum toga.

Það sem mér finnst allra verst í þessu máli og verður í minnum haft er að talsmenn stjórnarflokkanna standa ekki við orð sín, ganga á bak orða sinna. Það verður munað.