Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:53:40 (2284)

1998-12-15 13:53:40# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), TIO
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Í þessum umræðum hefur verið fullyrt að átt hefði að reyna til fullnustu að ná samstöðu um málið. En það liggur ljóst fyrir og hefur fengist upplýst í umræðum að ekki er samstaða um málið. Og þeir aðspurðir sem svöruðu því hvort þeir ætluðu að leggja stein í götu þessa frv. eftir því sem þeir gætu svöruðu því í umræðunum að þeir mundu gera það að sjálfsögðu. Málið er því afgreitt í fullkomnu ósætti aðila stjórnarandstöðu og stjórnar.

Ég vil einnig taka fram að hér hefur verið fullyrt að mönnum hafi verið meinaður aðgangur að nefndinni. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fullyrti það hér. Hv. þm. er akkúrat ein af þeim sem hafa lýst sig á móti málinu og er þar af leiðandi ekki að biðja um að það sé unnið til að ná samstöðu um málið. Þeir hafa lýst því yfir að þeir væru á móti því. (Gripið fram í.) Engum var meinaður aðgangur að nefndinni. Menn geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri og þeir hafa fengið tækifæri til þess. (Gripið fram í.) Á þeim lista sem fram kom um hugsanlega aðila sem gætu komið á fund nefndarinnar höfðu allir fengið tækifæri til að senda inn umsagnir og jafnvel að koma á fund nefndarinnar. (ÁRJ: Ekki eftir gagngerar breytingar.)

Síðan vil ég taka það fram að viðbrögð hv. þm. Ágústs Einarssonar eru dæmigerð fyrir þann vítahring sem jafnaðarmenn eru komnir í í þessu máli. Þeir lögðu sjálfir til að ákvæðið um aðgengisnefnd yrði fellt brott. Nú hneykslast þeir allra mest á því að það skuli hafa verið gert. Það er varla hægt (ÁRJ: Hvað kom í staðinn?) að ganga lengra í hringlandahættinum en þetta. Ég vil geta þess síðast að ekki er gert ráð fyrir því að heimila samkeyrslu án sérstakrar heimildar tölvunefndar. Gert er ráð fyrir því að tölvunefnd sjái um það ferli sem þar er verið að tala um (Gripið fram í: Nei.) og geri sínar kröfur um það. Tölvunefnd á að gera sínar kröfur um það hvernig þetta vinnuferli verður heimilað. Það er mergurinn málsins.