Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:59:34 (2287)

1998-12-15 13:59:34# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fólki sem hefur lært vinnubrögð í Sjálfstfl. Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., finnst að sjálfsögðu ekkert undarlegt við þessi vinnubrögð, þ.e. að fótumtroða lýðræðið. Það er rétt sem hér kom fram að í tengslum við þetta frv. eru uppi ýmis álitamál. En það er aldrei álitamál hvort eigi að beita ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og gert er í þessu máli. Hið sanna í þessu máli er að þeim aðilum sem gerst þekkja til var meinað að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við heilbr.- og trn. þingsins og það var þess vegna sem minni hluti nefndarinnar bauð þeim aðilum til fundar í gær. Þar komu ýmis mál í ljós, ýmsar upplýsingar sem þarft væri fyrir Alþingi, meiri hluta nefndarinnar og ríkisstjórnina alla að heyra.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að óska eftir því að hlé verði gert á þessum þingfundi þannig að formönnum þingflokka gefist tækifæri til að ræða stjórn þingsins og framhaldið á þessari umræðu í dag við forseta þingsins.