Beiðni um fundarhlé

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 14:02:27 (2289)

1998-12-15 14:02:27# 123. lþ. 41.93 fundur 172#B beiðni um fundarhlé# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[14:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir skýringarnar. Þær eru auðvitað mikilvægt innlegg í málið en eru samt ekki nægjanlegar að mínu mati. Ég vek athygli á því að forustumenn þingflokka stjórnarandstöðunnar hafa raunar allir farið fram á að gert verði hlé í nokkrar mínútur svo þingmenn og forseti þingsins geti borið sig saman.

Ég vek athygli á því að til viðbótar við þann vanda sem hér er vegna gagnagrunnsmálsins er ekkert samkomulag um þinghaldið yfirleitt. Meiningin er að ljúka því samkvæmt áætlun nk. laugardag. Eðlilegt væri að nú lægi fyrir samkomulag um þinghaldið í meginatriðum en svo er ekki.

Ég teldi rétt, í tilefni af þeim orðaskiptum sem hér hafa farið fram, að hefja þá umræðu núna. Ég fer því eindregið fram á það við hæstv. forseta að hlé verði gert á fundinum í 10 mínútur eða svo þannig að forseta og formönnum þingflokka gefist kostur á að bera sig saman.