Framhald þingstarfa

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 14:42:53 (2299)

1998-12-15 14:42:53# 123. lþ. 41.94 fundur 173#B framhald þingstarfa# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef setið í þessari stofnun um skeið og ég þekki það frá fyrri árum að stjórn og stjórnarflokkar hafa oft áhuga á því að ljúka málum og venjulega eru fyrir því einhver efnisleg rök úti í þjóðfélaginu. Enginn hefur sýnt mér fram á það enn þá hvaða nauðsyn ber til að ljúka þessu máli til þess að tryggja það að þjóðin megi halda gleðileg jól. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta mann í landinu halda því fram að það sé lífsnauðsyn fyrir þjóðina að ljúka þessu máli þannig að hún megi líta glaðan dag um jólin, ekki einn einasta.

Á bak við þessa kröfu sem kemur fram svo óvenju þung af hálfu stjórnarflokkanna er því eitthvað annað. Það eru einhverjar sérstakar og afbrigðilegar ástæður fyrir því að þetta mál er knúið hér fram með óvenjuleg gerræði af fólki sem ber enga virðingu fyrir þingsköpunum og lögum landsins þar með, eins og kemur fram í því hvernig meiri hluti heilbrn. hagaði sér í afgreiðslu málsins. Það var óvenjulegt ofbeldi, það var óvenjulegt gerræði sem þar var sýnt, ekki bara gagnvart minni hlutanum heldur líka gagnvart þjóðinni, þ.e. þeim hluta hennar sem vildi koma á fund nefndarinnar. Sparkað var í andlitið á því fólki og sagt: Við höfum ekkert við ykkur að tala.

Í annan stað er alveg ljóst, herra forseti, að þetta mál er sérstakt vegna þess að á því hefur orðið grundvallarbreyting. Á síðustu stundu hefur hinn ósvífni meiri hluti heilbrn. kosið að smygla inn í málið því ákvæði að erfðafræðiupplýsingar megi keyra með öðrum þáttum þessa makalausa gagnagrunns. Veruleikinn er því sá, herra forseti, að hér er um stórmál á ferðinni sem hefði átt að fá viðbótarumræðu, þrjár umræður fram yfir jól og jafnvel lengur.

Þó að þetta liggi fyrir og meiri hlutinn geti ekki og reyni ekki að verja sig efnislega þá á samt sem áður að knýja málið fram, þó að engin nauðsyn reki hann áfram í þeim efnum, ekki nokkur önnur en sú nauðsyn að sýna minni hlutanum vald sitt, að sýna minni hlutanum og þjóðinni hver ræður hér í þessari stofnun.

Þessu ofbeldi, þessu gerræði, þessu virðingarleysi við þingsköpin mótmæli ég, herra forseti. Það er ljóst að verði þessari umræðu haldið hér áfram eins og mér sýnist margt benda til eftir kröfu meiri hlutans, þá er ekkert samkomulag um þinghaldið, hvorki um þetta mál né heldur önnur mál. Það verður að vera alveg skýrt, herra forseti.