Framhald þingstarfa

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 14:53:10 (2305)

1998-12-15 14:53:10# 123. lþ. 41.94 fundur 173#B framhald þingstarfa# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er ekki miklu við þessa umræðu að bæta en ég vil að það sé alveg skýrt að það á ekki að vera þannig að minni hlutinn þurfi að sækja á um það að ræða þingstörfin og meiri hlutinn að svara því að hann sé viljugur til að tala við minni hlutann.

Það á þvert á móti að vera þannig, af því að þessar vikur fyrir jól erum við bara að afgreiða stjórnarfrv., að meiri hlutinn óski eftir góðu samstarfi við minni hlutann. Þannig er það, hæstv. forseti, en það mætti skilja málið öðruvísi miðað við hvernig hefur verið talað hér.

Engum hefur dottið í hug að halda því fram að meiri hlutinn vilji ekki tala við minni hlutann. Við erum að gagnrýna það að eftir slíka umræðu sem hefur farið fram í dag og sem fram fór á föstudaginn, þá áttum við samtöl við meiri hlutann og forseta. Það hefur aftur gerst í dag, það á ekki að vera þannig. Það á að sjálfsögðu að vera þannig að við séum að ræða hvern dag um framvindu mála. Við vitum ekkert til hvers er ætlast af okkur í þessari viku. Við vitum það ekki. Okkur hefur ekki komið það við, það er sagt að við séum að tefja málið. Við vitum bara að það á að setja þennan gagnagrunn í forgang, öllum öðrum málum hefur verið vikið til hliðar fyrir gagnagrunnsfrv. Það er það eina sem við vitum.

Þetta er vond vitneskja, herra forseti. Ég vil bara að halda því til streitu að það er stjórnarmeirihlutans að kalla eftir góðu samstarfi við okkur. En hver sem fylgst hefur með vinnunni hér í dag veit að það hefur ekki verið gert.