Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:09:26 (2309)

1998-12-15 15:09:26# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við í 1. minni hluta, jafnaðarmenn í heilbr.- og trn., lögðum til tvær leiðir til að auðvelda aðgengi vísindamanna að gagnagrunninum. Í framsögu varaformanns nefndarinnar fyrir nál. við 2. umr. kom skýrt fram að þessar leiðir þyrfti að skoða. Við vorum ekki viss um valkostina en töldum þörf á að skoða þessa möguleika þar sem við töldum að frv. eins og það var margbryti EES-samninginn. Við lögðum áherslu á að það væri skoðað. Það var ekki heimilað. Við óskuðum eftir því að Samkeppnisstofnun kæmi að þessu máli, því að það var nauðsynlegt.

Við nefndum tvær leiðir, meiri hlutinn valdi þá leiðina sem við lýstum að við hefðum meiri efasemdir um. Það getur vel verið að önnur hvor aðferðin hafi verið nothæf en þá hefði a.m.k. átt að fjalla um það í nefndinni. Við bentum á að skoða þyrfti tvær leiðir. Það var ekki tekið til greina í umfjöllun nefndarinnar milli 2. og 3. umr.